08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

16. mál, fjárlög 1930

Erlingur Friðjónsson:

Jeg spurðist fyrir um það einu sinni, þegar fjvn. Ed. var að starfi, hve mörg erindi mundu liggja fyrir þinginu yfirleitt, sem vitanlega koma flest fyrir fjvn. Sá maður, sem kunnugastur er þeim efnum, sagði þau vera á fimta hundrað, sem kæmu fyrir fjvn. beggja deilda þingsins.

Það lætur að líkum, að fjvn. Ed muni ekki hafa getað íhugað mjög rækilega öll þau mörgu erindi á þeim stutta tíma, sem n. hefir haft þau til yfirlita. Þó hefir hún gert það eftir því sem föng voru á. Þá má einnig ganga út frá því sem gefnu, að það sje allmikið undir tilviljun komið hvort þessum erindum, sem fyrir fjvn. koma, er svarað á sanngjarnan og heppilegan hátt eða ekki. Vitanlega eru það ekki nema örfáar umsóknir, sem fyrir þingið koma, sem fá að einhverju leyti afgreiðslu. Þó mun mega segja, að mjög mikill hluti þessara erinda hafi bak við sig meira eða minna þörf málefni, sem þeir, er erindin senda, vilja koma í framkvæmd, annaðhvort í andlegu eða efnislegu tilliti. Það væri mjög ákjósanlegt, ef þingið gæti tekið þessum erindum betur en það gerir eða hefir gert. En það liggur í augum uppi, að slíkt er ekki hægt að gera, þegar um jafnmörg erindi er að ræða — og fleiri geta þau orðið —, ef þeim ætti að svara svo, að lið væri að. Okkar ríkissjóður myndi þá þurfa margfalt meiri tekjur.

Við umr. fjárlaganna kemur það í ljós, að það er í raun og veru ekki lítið, sem hver hv. þm. hefir fram að flytja á einn eða annan hátt, ýmist fyrir sitt kjördæmi eða fyrir landið í heild, því að jafnaðarlegast vill togna úr umr. allmikið, þegar fjárl. eru á dagskrá.

Jeg mun nú ekki að þessu sinni teygja úr umr. um fjárl., og stafar það af því, að við störfin í fjvn. hefi jeg komist að raun um, að ekki sjeu nein tiltök á því að ganga frá fjárl. öðruvísi en láta þau fara frá Ed. sem næst því, sem þau komu frá Nd. í Ed. situr 1/3 hl. þingsins, og mætti því samkv. álykta sem svo, að Ed. þyrfti a. m. k. að hafa fjárl. 1/3 hl. þingtímans, til þess að rannsaka þau sem best, og einnig mætti álykta, að Ed. þyrfti að eiga að sínum hluta afgreiðslu þessara mála.

En árangurinn af því, hve fjvn. Ed. hefir haft stuttan tíma til afgr. fjárlaganna og hvernig fjárlögin koma frá Nd., er í raun og veru sá, að varla er um nema eitt að gera — að afgr. þau sem næst því, sem Nd. hefir frá þeim gengið.

Jeg hefi ekki búist við fyrir mitt kjördæmi að auka mikið við þann tekjuhalla, sem var á fjárl. frá hv. Nd., — og segi jeg þetta ekki af því, að jeg viðurkenni ekki fyllilega ýmsar aths. við fjárl. frá einstökum þm. Jeg var í fyrra með erindi fyrir mitt kjördæmi um styrk til bryggjugerðar á Akureyri. Það fjekk ekki neina náð fyrir þinginu. Jeg ætla ekki að gera þinginu þá skapraun að vera með slíkt á ferð nú, en hinsvegar verð jeg að viðurkenna, að síðasta þing gaf samþ. sitt til ríkisábyrgðar handa Akureyrarbæ til barnaskólabyggingar. Nú hefi jeg ekki nein erindi frá mínu kjördæmi fram að flytja, og er í raun og veru glaður yfir því að þurfa ekki að óska eftir aðstoð þingsins fyrir það. Það eina, sem jeg flyt við frv., er styrkbeiðni vegna þriggja manna, sem leita eftir styrk í sjerstökum tilgangi.

Jeg skal þá byrja á 7. lið á þskj. 562, þar sem er farið fram á, að fröken Elísabetu Eiríksdóttur kenslukonu á Akureyri sje veittur styrkur til áhaldakaupa handa smábarnaskóla, sem hún hefir þar með Montessori-fyrirkomulagi. Þetta skólafyrirkomulag fyrir smábörn er að ryðja sjer til rúms utanlands, en það mun vera mjög lítið þekt hjer hjá okkur. Kona þessi sigldi til útlanda fyrir tveimur árum og var alllengi utan, til þess að kynna sjer þessa kensluaðferð. Þegar hún kom heim, setti hún upp skóla fyrir smábörn og hefir kent þeim nú síðastl. ár samkv. þessari nýju aðferð. Jeg er því miður ekki nægilega kunnugur þessari kensluaðferð til þess að geta skýrt hana rækilega. En hún mun vera í því fólgin, að börnunum sje kent sem mest á verklegan hátt.

Meðmæli hefir kona þessi frá Þorsteini M. Jónssyni kennara við barnaskóla Akureyrar og fyrrum þm. N.-M. Var hann þá mikið riðinn við mentastörf þingsins. Jeg geri ráð fyrir, að hv. d. geti tekið ummæli þessa þm. til greina sem mikilsverð í þessu máli, og muni því hv. d. taka vel styrkbeiðni þessarar konu vegna skóla síns og veita henni í eitt skifti fyrir öll þessar 1000 kr. til áhaldakaupa, gegn því, að Akureyrarbær leggi fram sömu upphæð.

Þá hefi jeg einnig erindi um styrkbeiðni til handa Magnúsi Pjeturssyni fimleikakennara á Akureyri, til þess að fullkomna sig í leikfimi og skólasmíði og annari handavinnu, sem drengjum er kend í barnaskólum. Akureyrarkaupstaður hefir heitið honum 500 krónum, sem er vitanlega of lítill utanfararstyrkur út af fyrir sig, til þess að hann geti kynt sjer nokkuð til hlítar kensluaðferðir í þessari grein. Skólanefnd barnaskólans á Akureyri hefir gefið þessum kennara hin bestu meðmæli. Í þeirri nefnd sitja Böðvar Bjarkan lögmaður, Elísabet Eiríksdóttir, Jón Steingrímsson og Jón Sveinsson. Þessi fjögur hafa skrifað undir meðmæli með umsókn þessa kennara. Auk þess hefir hann meðmæli margra fleiri góðra manna og kvenna.

Þar sem það er ekki fátítt, að þingið veiti kennurum utanfararstyrki, vonast jeg eftir því, að hv. d. taki vel í þetta og veiti þessar umbeðnu 1000 kr., gegn 500 kr. framlagi frá Akureyrarbæ.

Þá er jeg hjer einnig með beiðni um utanfararstyrk handa Halldóri Halldórssyni byggingarfulltrúa á Akureyri, til þess að kynna sjer nýjungar í húsagerð og starfsemi byggingafjelaga. Maður þessi fór til Þýskalands 1921 til þess að læra byggingarfræði Gekk hann þar á ríkisskóla og lauk námi með ágætri einkunn. Hann kom svo heim 1924 og hefir síðan starfað við húsabyggingar í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, þar til í fyrra, að hann gerðist byggingarfulltrúi Akureyrar Hann er mjög vel að sjer í fræðum þessum og að öllu leyti hinn hæfast maður. Mundi starf hans geta borið mikinn árangur, ef hann gæti farið utan og kynt sjer betur allar nýjungar í byggingarlist og starfsemi byggingarfjelaga. Og eftir þeim undirtektum að dæma, er víst mál, er nú er í hv Nd., fær hjer á Alþingi, nefnil. frv. um verkamannabústaði, má vænta þess, að byggingarfjelög verði mörg stofnuð hjer á næstunni og mikið unnið að byggingum. Skal jeg geta þess, að á Akureyri hafa þegar verið stofnuð 2 byggingarfjelög. Er því alt, sem mælir með því, að þessi maður verði styrktur til utanferðar, svo að hann geti gert sem mest gagn hjer heima.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessar brtt. mínar Þær eru ekki nema 3, og tel jeg það fremur lítið. En hitt vil jeg fullyrða, að allir þessir menn, er sent hafa Alþingi erindi sín, eru vel þess verðir, að það styrki þá að nokkru. Einn hefir þegar fengið viðurkenningu frá Akureyrarkaupstað, þar sem honum hefir verið lofað 500 kr., og jeg tel sennilegt, að bærinn muni og leggja nokkuð fram handa hinum báðum. Má telja það ágæt meðmæli, er slíks er von frá kaupstaðnum. Og ekki mun hann síður fús til að veita þessu fólki styrk, ef á móti kemur nokkurt tillag Úr ríkissjóði.