08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla einungis að víkja lítið eitt að þeim brtt., sem jeg hefi flutt við þessa umr. Fyrsta brtt. mín er á þskj. 562, 1. liður. Þar er ekki farið fram á nýtt fjárframlag úr ríkissjóði, heldur aðeins að ákveða, hvað ritari hæstarjettar hafi í laun. Er þessi brtt. flutt samkv. tilmælum dómstjóra hæstarjettar. Ritarar hæstarjettar hafa haft 250 kr. á mánuði, og þykir rjett að fastákveða launakjör þeirra óbreytt framvegis. Þessi brtt. veldur því tæplega ágreiningi, og sje jeg því ekki ástæðu til að ræða meira um hana að sinni.

Þá kem jeg að annari brtt. minni á þskj. 562, og er það 15. liður. Er hún í tveim liðum, og fer hvortveggja fram á breyt, á 18. gr. Fyrri liðurinn er um að veita Jakob Thorarensen 1000 kr. styrk. Tilefnið til þessa er það, að till. fjvn. um 1000 kr. skáldastyrk til Stefáns frá Hvítadal hefir verið samþ. En eins og kunnugt er, hafa þessi tvö skáld, Stefán og Jakob, löngum verið látnir fylgjast að hvað snertir styrkveitingar, og nú síðast í vetur veitti mentamálaráðið hvorum þeirra 1500 kr., og mun það hafa til þess ætlast, að sama yrði látið yfir báða ganga af hálfu fjárveitingavaldsins. Nú hefir hv. Nd. tekið annan þeirra og ætlað fastan skáldastyrk í 18. gr. Þess vegna vildi jeg, að hinn væri einnig tekinn upp og látinn njóta sama rjettar, með því að þessi tvö skáld eru af mörgum talin álíka að verðleikum til opinberrar viðurkenningar. En verði hinsvegar feld till fjvn. um lækkun styrks til Stefáns frá Hvítadal úr 2000 kr. niður í 1000 kr., þá tel jeg sjálfsagt, að sama verði einnig látið ganga yfir Jakob.

Annar liður brtt. er um 1000 kr. styrk til Sigurðar Pjeturssonar fangavarðar. Maður þessi er nú kominn yfir sjötugt og getur aldurs vegna ekki gegnt störfum sínum lengur. Hann hefir verið fangavörður lengi, en efnahagur hans mun vera fremur þröngur, og hann hefir sjálfur tjáð mjer, að hann treysti sjer ekki til að komast af án lífeyris. Mjer virðist því öll sanngirni mæla með því, að honum sje veittur nokkur lífeyrir, því að enda þótt engin lagaskylda hvíli á fjárveitingavaldinu til þess, þá mun hann þess vel verðugur, að hann njóti sömu rjettinda og aðrir starfsmenn ríkisins, sem sambærilegir mega teljast.

Loks er síðasta brtt. mín á þskj. 562. Hún fer fram á, að aftan við 23. gr. II. bætist nýr liður, svo hljóðandi:

„Að greiða úr ríkissjóði lán það, 15 þús. kr., sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir vegna Hvítárbakkaskólans, þegar afráðið er, að skólinn verði fluttur að Reykholti, enda sýni hlutaðeigandi sýslur í verki, að þær vilji afla skólanum góðra húsakynna“.

Þessi till., eða sama efnis, kom fram í Nd. fyrir flutning hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. En till. fjell með nálega jöfnum atkv. Mun það hafa stafað að verulegu leyti af því, að margir þm., sem annars eru málinu velviljaðir, vildu fyrst vita með vissu, hvort hlutaðeigandi sýslur vildu nokkuð á sig leggja eða nokkru fórna fyrir þetta mál. Síðan þetta skeði hefir Mýrasýsla tekið ákveðna afstöðu til málsins. Hún. hefir ákveðið að veita 30 þús. kr. til þess að byggja skólann í Reykholti, gegn jöfnu framlagi frá Borgarfjarðarsýslu og með því skilyrði, að landið legði til jörðina með gögnum öllum og gæðum, svo sem hverum og laugum. Með þessu hefir Mýrasýsla sýnt meiri áhuga og meiri skilning og fórnfýsi í þessum málum en dæmi eru til með nokkra sýslu á landinu. Nú stendur sýslufundur Borgarfjarðarsýslu fyrir dyrum næstu daga, og er nú alt komið undir því, hvernig ríkið tekur í málið. Er nú þingsins að taka tafarlaust ákveðna afstöðu til málsins, og að mínu áliti hlýtur sú afstaða að verða tekin á einn veg.

Jeg skal nú ekki að sinni lýsa ástandi Hvítárbakkaskólans nje þeim ástæðum, sem þess eru sjerstaklega valdandi, að þetta mál hefir verið tekið til athugunar af hálfu hjeraðanna. Stofnandi skólans er, eins og kunnugt er, Sigurður heitinn Þórólfsson. Veitti hann skólanum forstöðu til 1918 og seldi hann þá fjelagi fimm bænda í Borgarfjarðar- og Mýrasýslum fyrir 50 þús. kr. Hafa þessir menn síðan haldið skólanum í gangi og hefir það verið mjög miklum erfiðleikum bundið. Þó hefir aðsókn verið mikil, enda skólinn mjög ódýr, og yfirleitt hefir starfræksla skólans gengið mjög sæmilega að öðru leyti en því, að altaf hefir orðið nokkur fjárhagslegur halli, vegna þess að hvorki jörðin nje skólinn gat svarað rentum af því fje, sem upphaflega var lagt í hann. Húsakynni skólans eru mikil, en ekki að sama skapi vel bygð. Nú búa þar 60 nemendur í heimavist og 3 kennarar, þar af 1 giftur og 2 einhleypir. Húsin eru sumpart úr steini, sumpart úr timbri, en öll eiga þau sammerkt í því, að þau eru ljelega bygð, gisin og köld. Stendur hver vindstroka í gegnum þau og veldur það mikilli óhollustu, sem af líkum má ráða. Við þetta bætist það, að ekki er hægt að setja upp miðstöð í húsin. Af þessu og fleiru er einsætt, að þessi húsakynni eru skólanum í senn óboðleg og ófullnægjandi, enda hafa hlutaðeigendur sjeð það. Kemur ekki til mála, að hús þessi sjeu til frambúðar sem skólahús. Nú ber á það að líta, að þessir fimm menn, sem haldið hafa skólanum uppi af eigin ramleik öll þessi ár, hafa að engu leyti gert það í eiginhagsmunaskyni, heldur með almenna hagsmuni fyrir augum. Ef þeirra hefði eigi notið, hefði skólinn lagst niður um leið og Sigurður Þórólfsson fór frá honum. Hlutafje stofnendanna var 30 þús. kr. Alt er það nú gengið til þurðar og tapað eigendunum, og ef þeir selja nú jörðina til búskapar, eru engin líkindi til þess, að þeir fái meira en svo sem 18 þús. fyrir hana. Skaðinn verður því 20–25 þús. og þar við bætast skuldir stofnunarinnar, sem munu nema alt að 40 þús. kr. Þar af er ríkissjóður í ábyrgð fyrir 15 þús. kr. Nú hagar að vísu svo til, að margir af þeim, sem að skólanum standa, eru vel efnaðir menn, þar á meðal tveir efnuðustu bændurnir í Borgarfirði, beggja vegna Hvítár. Það er því að vísu engin hætta á því, að skuldin verði látin falla, en jeg lít svo á, að þar sem þessir menn hafa haldið skólanum uppi eingöngu með almenna hagsmuni hjeraðsins fyrir augum, þá sje mjög óviðeigandi að gjalda fórnarhug þeirra og drenglyndi með því að láta þá bíða stórkostlegan fjárhagslegan hnekki, án þess að hið opinbera hlaupi hið minsta undir bagga með þeim. Nú verður ekki hjá komist einhverjum aðgerðum af hálfu hins opinbera. Skólahúsin eru í þvílíku ástandi, að bæði fyrv. hjeraðslæknir, sem nú er dáinn, og núv. hjeraðslæknir hafa tjáð öll vandkvæði á því, að hægt væri að gefa vottorð um, að í skólahúsunum mætti hafa íbúðir. Þetta kann að ganga stórslysalaust, en ef frostavetur kemur, þá eru allir þessir 60 unglingar í stórhættu hvað heilsuna snertir, af kulda og illum húsakynnum. Og úr þessu verður ekki bætt, nema með því að byggja skólann upp. Fyrir ári síðan komst nýr skriður á þetta mál. Menn sáu, að þetta gæti varla gengið öllu lengur. Samskot voru hafin í því skyni að endurbyggja skólann á einhverri hverajörð, sem vel lægi í sveit. Fyrstur reið á vaðið skólastjórinn á Hvanneyri og gaf 1000 kr. til þessa, og brátt söfnuðust 5 þús. kr. í viðbót. Því næst tóku ungmennafjelögin þetta mál upp á sína arma, og hafa nú safnað eða fengið loforð fyrir liðugum 20 þúsund krónum. Við þetta bætast þær 30 þúsundir, sem Mýrasýsla hefir lofað að leggja fram, og ef Borgarfjarðarsýsla fer að dæmi hennar og leggur fram álíka skerf til skólabyggingarinnar, þá er hjer allmikil fúlga fyrir hendi, og ætti því ekki að þurfa að líða mjög á löngu áður en hafist yrði handa. Sjerstaklega er það eftirtektarvert og lofsamlegt fordæmi, sem Mýramenn hafa gefið, nefnil. að setja ekki að skilyrði, að skólinn yrði reistur í sinni eigin sýslu, heldur í annari sýslu. Hafa þeir þannig látið niður falla allan krit og matning af sinni hendi, sem þó lágu ærnar ástæður til þar sem annarsstaðar. Á sýslan margfaldan heiður og þökk skilið fyrir þetta einstæða sómastrik, nefnil. að hafa látið sína sjerhagsmuni og metnað þoka sæti fyrir almennum hagsmunum hjeraðsins. Ber Alþingi tvímælalaust að sýna það í verki, að það meti slíkan myndarskap að nokkru.

Nú hefir hjeraðsskólafrv. verið nýlega samþ. í Nd. Með því er lagður framtíðargrundvöllur um hjeraðsskólakerfi vort. En nú verður óhjákvæmilega sú breyt. á, að hjer eftir getur Hvítárbakkaskólinn ekki notað ríkisstyrkinn upp í tekjuhalla. Hvítárbakkaskólinn er því nú í tvöfaldri hættu. Önnur hættan er sú, að læknir fáist ekki til þess að gefa vottorð um, að húsakynni sjeu forsvaranleg, og í öðru lagi verði eigendurnir í fyrirsjáanlegum vandræðum með þá 46 þús. kr. skuld, sem hvílir á stofnuninni og sem þeir hafa ekki nema í mesta lagi 18 þús. kr. upp í. En hjer er beinlínis voði á ferðum fyrir eigendurna. Kemur það ekki af því, að menn meti ekki að verðleikum drengskap eigendanna, heldur að verulegu leyti af því, að kröfurnar vaxa til skólanna, og eins og hjer stendur á, er ekki nema um tvent að gera: Láta skólann veslast upp og leggjast í rústir og baka þannig eigendum enn meira fjárhagslegt tjón, eða þá hitt, að flytja skólann á næstunni á einhverja hentuga hverajörð í hjeraðinu. Hefir það mjög komið til orða og hefir mönnum alment komið saman um Reykholt, fyrir allra hluta sakir, vegna jarðhita, góðrar afstöðu í hjeraðinu, og ekki síst vegna sögufrægðar og náttúrufegurðar. En ef þessi leið verður kosin, þá verður að sjálfsögðu að ganga svo frá hinum gömlu skuldum Hvítárbakkaskólans, að eigendunum verði þær viðráðanlegar. Það verður að líta á það, sem þessir menn hafa lagt í sölurnar fyrir þetta mál, og slík fórnfýsi er altaf góðra gjalda verð. Þeir eru nú búnir að tapa stórfje, og nú liggur fyrir þeim að tapa enn meiru. Sýslunefndin hefir verið svo stórhuga, að gera ráð fyrir að skólinn mætti ekki nje myndi kosta öllu minna en 150–160 þús. kr. upp kominn. Upp í byggingarkostnaðinn eru þegar til, eins og jeg drap á áðan um 80 þús. kr. í handbæru fje og vissum loforðum. Þar við bætist tillag ríkissjóðs. Horfir því ekki óvænlega um, að skóli þessi verði reistur í mjög náinni framtíð. Er ætlast til, að hann fullnægi ítrustu kröfum sinni grein. Er gleðilegt til þess að hugsa fyrir hlutaðeigandi hjeruð og fyrir landið í heild, að senn rís upp myndarlegur skóli á þessu sögufræga höfuðbóli og traust og varanleg bygging, er standi öldum saman. Jeg þykist mega vænta þess, að deildin sýni fullan skilning í þessu máli, og ef svo verður, þá efast jeg ekki um, að sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu muni ekki láta sitt eftir liggja.

Út af einni till., sem mælt hefir verið á móti, nefnilega till. um styrkinn til Flensborgarskólann, langar mig til að segja fáein orð. Það gæti í fljótu bragði virst svo, sem með till. væri nokkuð á rjett skólans gengið. En slíkt fer mjög fjarri öllum sanni.

Þessi skóli verður að vera hliðstæður við aðra slíka skóla í landinu, og þar sem nú er verið að fullgera löggjöf um 4–5 slíka skóla, þá verður Flensborgarskólinn að falla þar undir. Þó að það verði ef til vill ekki nú, þá verður þess máske ekki langt að bíða.

Það mun vera mála sannast, sem ekki er víst, að þessi hv. þm. viti, að þessi skóli er algerlega vanræktur af Hafnfirðingum og sýslubúum, sem hlut eiga að máli, um öll almenn fjárframlög, en mikið sóttur. Hann hefir lifað af dánargjöf Þórarins heitins Böðvarssonar og framlagi ríkissjóðs, en það nægir ekki eingöngu, og nú er skólinn í mestu niðurníðslu. Húsið er lítið betra en skólahúsið á Hvítárbakka, stendur á slæmum stað niður við höfnina, útsýni aðeins á móti norðri, og það virðist vera aðeins tímaspursmál, hvenær það verður ófært með öllu. Það er skaðlegt, að undanfarandi þing skuli ekki hafa látið Hafnarfjörð og Gullbringu- og Kjósarsýslu vita, að þar sem skólinn er einkafyrirtæki hjeraðsins, þá verður það að taka hann að sjer. Við vitum nú, hversu Mýramenn hafa brugðist vel og drengilega við í sínu skólamáli, og jeg vænti þess, að Hafnfirðingar verði ekki eftirbátar þeirra og finni sjer skylt að sýna meiri myndarskap í þessu skólamáli heldur en þeir hafa gert hingað til. Fráfarandi stj. sýndi hið mesta tómlæti í þessu máli og ljet aldrei svo lítið að kynna sjer ástand skólans, og jeg efast um, að nokkur af hennar flokksmönnum hafi nokkru sinni heimsótt skólann til þess að skoða hann. Núv. stj. var henni miklu framsýnni, og nú ætlar hún að koma skólanum til bjargar, svo hann grotni ekki niður í vanhirðu. Í vetur hjelt jeg fundi í Hafnarfirði með borgurum bæjarins og sýndi þeim fram á, að þetta gæti ekki gengið lengur, og skoraði á þá að hefjast handa og halda við skólanum, og jafnframt skoraði jeg á gamla nemendur að stofna með sjer fjelag með það fyrir augum að vinna að endurbyggingu skólans. Þessar áskoranir báru ágætan árangur. Nokkru seinna var stofnað fjelag gamalla og nýrra nemenda Flensborgarskólans, og er formaður þess Einar Þorgilsson kaupmaður í Hafnarfirði. Er full ástæða til þess að halda, að þessu fjelagi muni vel takast, svo að skólinn verði kominn í ný hús og á betri stað þegar hann verður 50 ára gamall, árið 1931.

Till. stj. í þessu máli er til þess að byrja með ekki önnur en sú, að rekstrarstyrkur skólans nú í ár skuli verða talinn með öðru fje til samskonar skóla, en ekki veittur Flensborgarskólanum sjerstaklega, eins og verið hefir. Þetta er aðeins til þess að rumska við hjeraðinu og gera því það ljóst, að ríkið ætlar ekki að láta þennan skóla fá nein óverðskulduð forrjettindi framvegis. Þetta er að vísu ekki nema formsatriði, en hjeraðinu verður að skiljast, að því getur ekki haldist uppi að vanrækja skólann eins og það hefir gert að undanförnu. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hv. 2. þm. G.-K. kemur fram í hv. Nd. eins og verndari skólans gegn landsstj. Hans eigin stj. gerði ekki neitt til þess að bæta hag skólans, og hann sjálfur ekki nokkurn skapaðan hlut, en núv. stj. hefir látið fara fram rannsókn á öllu ástandi skólans og gert kröfur til þeirra manna, sem skuldbundnir eru til þess að sýna honum einhvern sóma. Við, sem stöndum að þessu, viljum láta jafnt ganga yfir alla hliðstæða skóla, bæði skólann á Núpi, Laugaskólann, Hvítárbakkaskólann og Flensborgarskólann. Þeir eru allir stofnaðir af góðum vilja og með aðstoð góðra manna, en enginn þeirra er eins vanræktur og Flensborgarskólinn. Það væri því hróplegt ranglæti, ef vanræksla aðstandenda Flensborgarskólans ætti nú að verðlaunast með því að láta hann halda áfram að vera skör hærra settan heldur en þessa hliðstæðu skóla. Það væri beinlínis að verðlauna ódugnaðinn og hirðuleysið hjá aðstandendum skólans. Núv. stj. hefir hafist handa með því að vekja menn til umhugsunar og opnað augu þeirra fyrir vanrækslunni, og núv. stj. mun altaf leyfa sjer að ýta við þeim, sem sofa, jafnvel þó þeir sjeu úr Gullbringu- og Kjósarsýslu.