15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Ólafsson:

Eins og hv. þm. S.-Þ. gat um, stóð fjvn. ekki saman um neina brtt. við þessa umr. Hefir 2. minni hl. borið fram nokkrar brtt. og vil jeg gera nokkra grein fyrir þeim.

Vil jeg þá fyrst geta um till. 2. minni hl. um hækkun á framlögum til vegagerðar, eða með öðrum orðum um að færa fjárhæðir til vegagerða í sama horf og þær voru eftir 3. umr. hjer í hv. Nd. Ed. hefir lækkað allar þessar fjárhæðir talsvert, og hefir það vakið allmikla óánægju ýmsra, sem vonlegt er. Okkur virðast ekki ríkar ástæður til þess að fara svo að. Við sjáum ekki, að það sje bein nauðsyn, þrátt fyrir það, þótt ýmislegt hafi slæðst inn í fjárl. í Ed., að færa þessa nauðsynlegustu pósta niður. Við höfum því lagt til að hækka tvo liði á tekjuhliðinni, til að vega á móti hækkuninni til vegagerða. Fyrri liður brtt. er um það, að aukatekjur sjeu áætlaðar 475 þús. í staðinn fyrir 450 þús. Þetta er bygt á reynslu undanfarinna ára. Þessi liður hefir hækkað um 30 þús. á ári í allmörg ár, og 1928 nam hann 468 þús. kr. Ef gera má ráð fyrir, að hann hækki um 30 þús. kr. þetta ár, eins og undanfarið, sjest, að þetta er varlega áætlað.

Þá höfum við viljað hækka vörutollinn um 25 þús. kr. Þessi liður er að vísu allhár, en þess ber að gæta, að hann hefir orðið hærri en við leggjum til, því að hann var 1600000 síðasta ár. Finst okkur því, að ekki sje sjerstaklega óvarlegt að áætla liðinn 1375000 kr. og ekkert óforsvaranlegt, að þessu athuguðu, þótt við leggjum til, að 65 þús. af vegafje verði aftur settar í fjárl., þegar þess er gætt, að með þessari hækkun á tekjuhliðinni fást 50 þús. kr. og 18 þús. kr. eru enn til umráða í fjárhagsáætluninni. Með þessu móti standa tekjur og útgjöld nokkurn veginn í járnum, og af því að við álítum, að þingið eigi síst að leggjast á móti svo nauðsynlegum fjárveitingum sem framlögum til vegagerða, höfum við til frekari tryggingar hallalausri afgreiðslu á fjárl. lagt til með XXIX. brtt. á þskj. 646, að heimildin um kaup á Gutenberg væri látin niður falla. Við teljum, að ekki sje gott að sjá, hvernig þetta fyrirtæki reynist. Getur vel verið, að ekki sje óheilbrigt að reka það, ef vel er á haldið, en vel gæti og svo farið, að landið hefði þess engar nytjar, nema síður væri. Um þetta vantar alla vitneskju enn, enda þótt gert væri ráð fyrir á síðasta þingi, að stj. ljeti rannsaka málið.

Þetta hefir algerlega skotist yfir hjá hæstv. stj., því að þessi till. kemur eins og andinn úr sauðarleggnum við 3. umr. í Ed., og til Nd. kemur hún án allra upplýsinga um það, hvernig þetta fyrirtæki liti út, ef í það væri ráðist. Okkur finst viðsjárvert að ráðast í þetta, þar sem upplýsingar um málið eru mjög litlar og okkur gafst ekki tími til að rannsaka það neitt, þar sem það er lagt fyrir þingið á síðustu stundu. Og mjer virðist, að hv. þdm. ætti ekki að vera það kappsmál að koma þessari till. fram, að ekki mætti fella hana niður um sinn, svo að hægt væri að athuga hana nánar. Það kann að vera, að rannsókn leiði það í ljós, að fyrirtækið geti verið arðvænlegt fyrir ríkið, en jeg fyrir mitt leyti verð að álíta, að það geti orðið viðsjárvert. Þessi fyrirtæki geta að vísu borið sig, vegna þess, að þau hafa nærri ótakmarkað vald til þess að láta hvern þann, er línu les í þessu landi, greiða til þessarar starfsemi þann skatt, er fullnægir allri ráðleysu. Kvarta bókaútgefendur og rithöfundar sáran yfir því, að það sje nær ókleift að gefa út svo ódýrar bækur, að almenningur geti eignast þær. Jeg hygg, að enda þótt ríkið eignaðist þessa prentsmiðju og hún annaðist útgáfu bóka, myndi prentkostnaður verða sá sami og áður, ef ekki meiri. Frá mínu sjónarmiði er þetta því athugavert, og er ekki líklegt, að fyrirtækið gefi mikinn arð, nema þá að nota sjer það að setja verkin svo hátt, þrátt fyrir óeðlilega hækkun, að fyrirtækið geti borið sig.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar till. Þær eru allar í þá átt að færa fjárl. í það horf, sem þau voru í, þegar þau voru afgr. frá hv. Nd., og vænti jeg þess, að hv. þdm. hafi ekkert við það að athuga.