15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Áður en jeg vík að till. þeim, sem jeg hefi sjálfur flutt, vil jeg fara örfáum orðum um till. þá, sem fram kom í hv. Ed. við 3. umr. fjárl., till. um að heimila stj. að kaupa prentsmiðjuna Gutenberg og starfrækja hana á kostnað ríkissjóðs. Jeg lít svo á, að þetta mál hafi tvær hliðar, formshlið og efnishlið. Og skal jeg þá fyrst fara nokkrum orðum um formshliðina.

Málefni þetta er borið þannig fram, að það kemur ekki fram till. um kaup þessarar prentsmiðju fyrr en við 3. umr. fjárl. í Ed. Nú var það svo, að í fyrra var borin fram þáltill. í Sþ. á þskj. 772, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta gera fyrir næsta þing áætlun um stofnkostnað og starfrækslu ríkisprentsmiðju, er geti annast prentun ríkissjóðs og opinberra stofnana“. Hjer er skorað á stj. að láta gera áætlun um stofnkostnað og starfrækslu ríkisprentsmiðju. Það hlýtur því að álítast, að það hafi verið vilji þingsins í fyrra, að slík áætlun yrði gerð og lögð fyrir þetta þing. Jeg fæ því ekki betur sjeð en með till. þeirri, sem hjer liggur fyrir, sje brotinn andi þál. frá í fyrra. Mjer er nú alls ekki kunnugt um, hvort nokkur rannsókn hefir farið fram um þessa hluti; þó minnist jeg þess, að hv. þm. Borgf. gat þess við eldhúsdagsumr., að maður að nafni Steingrímur Guðmundsson hafi fengið 1413 kr. fyrir vinnu við rannsókn á væntanlegri ríkisprentsmiðju. Hvort sem rannsókn þessi hefir verið framkvæmd eða ekki, þá er hitt þó víst, að árangurinn af henni hefir verið hulinn þeim, sem jeg hefi spurt um hana. Um manninn, sem rannsókn þessi hefir verið falin, veit jeg ekki annað en það, að hann kvað vera vjelsetjari. En sú kunnátta hans gefur ekki neitt til vitundar um það, að hann hafi verið fær til slíkra rannsókna sem þessara. Þó jeg viti þannig lítið um hæfileika þessa manns til þess að hafa rannsóknir þessar með höndum, þá veit jeg þó ennþá minna um niðurstöðuna af rannsóknum hans. Get jeg því ekki annað sagt en að bæði jeg og aðrir hv. þdm. renni blint í sjóinn um það, hvort hagnaður verður af þessu fyrir ríkissjóð eða ekki. En það er víst, að andi þál. frá í fyrra er alveg brotinn, ef nú verða knje látin fylgja kviði um það, að stofna ríkisprentsmiðju, með því að smeygja inn heimild til þess við 3. umr. fjárl. í Ed. Það hljóta nú allir að játa, að mál þetta er svo mikils vert, að það hefði átt að vera sjerstakt mál fyrir þinginu, og er því með öllu óviðeigandi að leggja inn á þá braut nú að brjóta þá þingvenju, sem verið hefir um slíka löggjöf sem þessa, með því að smeygja fyrirmælunum inn sem fjárlagaákvæði, og það við 3. umr. í Ed. Jeg verð því að segja, að formshliðin ein er nægileg til þess, að jeg get ekki aðhylst það, að ríkið eignist prentsmiðju með þessum hætti.

Hæstv. dómsmrh. skýrði frá því áðan, að hann hefði neyðst til þess að fara þessa leið, af því að eigendur Gutenbergs hefðu ekki ákveðið sig fyrr en á 11. stundu um að selja prentsmiðjuna. En jeg sje ekki, að þetta sje nein afsökun, þar sem hæstv. ráðh. skýrði frá því, að samningaumleitanir um þessi kaup hefðu staðið yfir síðan um nýár. Var því ekkert eðlilegra en að hann sækti þegar í byrjun þings um heimild til þess að gera þessi kaup, ef samningar tækjust, og legði slíkt frv. fyrir þingið.

Þetta er formshlið málsins. En um efnishliðina, hvort ríkið eigi að ráðast í það, að kaupa prentsmiðju og starfrækja hana, get jeg ekki dæmt, einmitt vegna þess, að sakir meðferðar málsins skortir eðlilegar og nauðsynlegar upplýsingar. Annars verð jeg að segja það, að mjer finst, að þm. megi ekki greiða atkv. með því, að ríkissjóður leggi í starfrækslu fyrirtækja, nema fyrirfram sje sannað, að af því verði meiri hagur en óhagur fyrir þjóðfjelagið.

Hæstv. dómsmrh. leitaðist við að færa nokkur rök fyrir ágæti þessarar till., sem jeg geri reyndar ráð fyrir, að sje undan hans rifjum runnin, en þau rök voru svo haldlaus og á svo miklu flökti, að ekki er hægt að telja þau mikils virði. Hæstv. ráðh. benti meðal annars á það, að af því að ríkið ætlaði sjálft að skifta við prentsmiðjuna, þá væru kaupin á henni alveg áhættulaus. En með þessum hætti myndi ríkissjóður kaupa prentunina alveg eins og nú. Spurningin er aðeins sú, hvort hann sem eigandi prentsmiðju kaupir hana ódýrari en hann ella mundi þurfa. Sú gáta er óleyst.

Hæstv. ráðh. segir á þessa leið: Hver einasti fullorðinn maður sjer, að ríkið græðir á kaupunum, — það er bókstaflega ekki hægt annað en spara 40–60 þús. kr. á ári. Þetta er sterk fullyrðing, en hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til að færa henni allra minsta stað. Hann upplýsti ekki neinar tölur í þessu máli og gaf engar leiðbeiningar. Hafa nú allar prentsmiðjur hjer á landi grætt? Jeg er ekki kunnugur hag þeirra allra, en jeg get fullyrt um þær prentsmiðjur, sem jeg þekki, að þar gengur heldur illa.

Nú vil jeg beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., sem loksins er hjer staddur, ef hann á ekki svo annríkt að skrafa við hv. þm. að hann megi hlusta á mál mitt. (Dómsmrh: Þetta er alt þm. Dal. að kenna. — SE: Jeg er svo áhrifamikill hjer á þingi). Jeg vildi þá beina þeirri fyrirspurn — en þarna er þá hæstv. dómsmrh. farinn að tala við annan þm. Dal., hv. ritara þingsins. Margir gerast þeir nú, þingmenn Dal., og ilt er að fá hæstv. dómsmrh. til að gefa gaum að fyrirspurnum til stj. Sje jeg ekki annað, hæstv. forseti, en jeg verði að setjast að sinni. (Forseti: Jeg býst við, að hæstv. ráðh. heyri, hvað hv. þm. segir). Jeg hefði afargaman af, ef hæstv. forseti vildi biðja hæstv. 1. varaforseta að taka sæti snöggvast, því að það var hann, sem hæstv. ráðh. bað um að hringja á mig, þegar jeg var að hvísla hjerna um daginn.

Jæja, nú mun óhætt að byrja á fyrirspurninni. Jeg vil þá biðja hæstv. ráðh. að upplýsa okkur um það, hvort þessi prentsmiðja, sem hann býður okkur að kaupa, hefir haft góða afkomu undanfarin ár. Á þessum ríkisviðskiftum átti það að byggjast, að engin áhætta væri að kaupa prentsmiðjuna. En jeg hygg, að þessi prentsmiðja, sem hefir einmitt haft öll eða langmest ríkisviðskiftin, hafi haft mjög ljelega afkomu, og sýnist það benda á, að nokkur hætta geti verið á ferð, þótt ríkið eigi að heita eigandi prentsmiðjunnar.

Jeg vænti, að hæstv. ráðh. upplýsi þetta áður en þessu þingi er lokið, því að þetta tel jeg veigamikið atriði. Hitt eru spaugileg rök fyrir nauðsyn ríkisprentsmiðju, að hv. 3. landsk. hafi hjer á árunum bygt vjelaverkstæði, Það er eins og trúmaður hafi náð í biblíuna og vitni í hana, ef hæstv. ráðh. getur náð í orð hv. 3. landsk. Jeg veit, að hv. 3. landsk. er þess verður, að orð hans sjeu mikils virt, en það er bara ekki alveg víst, að rjett sje að kaupa prentsmiðjuna, þó að hann fyrir mörgum árum hafi álitið rjett að ráðast í að ríkið bygði verkstæði. Samkepnina við hvora þessa stofnun verður að taka til greina ásamt öðru, þegar um þetta er rætt.

Jeg heyrði hæstv. ráðh. því næst færa þau rök fyrir sínu máli, að letrið á þingtíðindunum væri alt of stórt. Hann kvað títt að prenta upp stjtíð., og tók jeg svo eftir, að það væri ónauðsynlegt, ef notað væri rjett letur. En jeg sje enga nauðsyn á, að ríkið kaupi prentsmiðju til þess að gera við þessu. Ríkið hefir að sjálfsögðu þá aðstöðu sem svo stór viðskiftavinur, að það getur sagt við hverja prentsmiðju: Við skiftum ekki við ykkur, nema þið fullnægið þeirri þörf, sem við höfum. En annars vil jeg endurtaka það, sem jeg áðan sagði, að jeg renni alveg blint í sjóinn um það, hvort það sje hagur fyrir ríkið að kaupa prentsmiðju. Jeg get ekki dæmt um það frekar en hæstv. ráðh., sem sagði á þessa leið: „án þess að fara út í kosti „Gutenberg“-prentsmiðju — því að um það er jeg leikmaður og alls ekki dómbær“ —. Jeg segi þetta með honum: jeg get ekkert um þetta sagt. Mjer var bent á það af einum keppinaut þessarar prentsmiðju, að það mundi þurfa að gera við hana fyrir 60 þús. kr., ef það ætti að koma að notum. Aðalvjelarnar sjeu svo slitnar, að það þurfi að endurnýja þær. Jeg veit ekki, hvort það er nokkurt orð rjett í þessu. Getur verið, að maðurinn hafi talað þetta sem keppinautur í þeim tilgangi að spilla fyrir sölunni. En það stendur þó eftir, að það er bókstaflega ekkert upplýst um þetta. Okkur er bara ætlað að hlýða. Hæstv. ráðh. gengur á undan, og við eigum svo að vera í taumi. En það er ekki sæmilegt að heimta, að maður greiði atkv. með því, að ríkið leggi í 160 þús. króna stofnkostnað, sem getur orðið 300 þús., og taki að sjer rekstur, sem veltur á 300–500 þús. kr. árlega, án þess að vita meira um málavexti. Það má vera að ríkið eigi að reka prentsmiðju, en það er engin viðleitni sýnd til þess að upplýsa það. Það er því ekki formshliðin aðeins, heldur efnishliðin, sem er alveg ósæmileg. Þegar ekki er vitað, hvort kaupin eru góð eða vond, þá festir enginn „prívat“-maður kaup að svo komnu máli. En hjer hefir engin rannsókn farið fram, eða ef hún hefir farið fram, er hún öllum hulin, eða langsamlega flestum. Getur verið, að hjer sjeu einhver pukursskjöl á ferð, sem einstöku stjórnargæðingar fái að líta á, en jeg hefi ekki fengið að sjá þau og ekki heldur þeir íhaldsmenn, sem jeg hefi talað við. Ef plöggin eru til, þá spyr jeg: Hvers vegna er höfð leynd á því, hvað í þeim stendur? Er það af því, að þau þola ekki gagnrýni okkar?

Hæstv. ráðh. sagðist hafa verið að styrkja einn mikilsvirtan stjórnarandstæðing — jeg tek orðið „mikilsvirtur“ upp í þingtíðindin af því að jeg er óvanur því af vörum hæstv. ráðh. um andstæðinga sína —, verið að styrkja hann sem prentsmiðjuhluthafa með því á allan hátt að færa þessari prentsmiðju sem allra mest viðskifti. Jeg hygg, að þessi prentsmiðja sje nokkurt dæmi þess, hvernig ríkisprentsmiðja á að vera, — prentsmiðjustjóri alveg eftir höfði hæstv. ráðh., prentarar alveg við hans hæfi, og góðar vjelar. Það er þetta, sem ráðið hefir viðskiftum ráðherrans, því aðaleigandinn, sem er jeg, er tæplega aðdráttarafl í augum ráðh.

En hvernig hefir nú afkoman orðið? Af því má kannske marka eitthvað um ríkisprentsmiðjuna. Sú litla reynsla, sem jeg hefi fengið af þessum fyrirtækjum fyrir þá slysni, sem mig henti, þegar jeg gerðist meðeigandi prentsmiðjunnar „Acta“, hefir sýnt mjer, að ljelegra fyrirtæki en prentsmiðju muni varla hægt að ráðast í hjer á landi, því að jeg sje ekki annað en að hagur hennar versni æ meir eftir því sem fleiri ágætismenn — eins og hæstv. dómsmrh. — leitast samviskusamlegar við að halda henni uppi. Þegar jafnvel þessi dugnaðarforkur hefir með einlægum áhuga lagst á þá sveifina að sjá um, að prentsmiðjan gæti flotið, og árangurinn er þó svo sorglega ljelegur eins og hann hefir orðið, þá finst mjer lítið hægt að láta af slíkum atvinnurekstri í voru landi. Og jeg segi það, að sú litla reynsla, sem jeg hefi haft í þessu efni, hún talar öll á móti því, að ríkið eigi að ráðast í prentsmiðjurekstur. En jeg vil og endurtaka það, sem jeg áður sagði, að það getur verið eitthvert það ólag á þessari prentsmiðju, sem jeg hefi ekki komið auga á. Ef til vill geta kunnugir menn bent á, að ríkið geti með meiri hagnaði rekið prentsmiðju en mjer hefir tekist. Jeg játa, að það hefir að ýmsu leyti betri aðstöðu sem stór viðskiftandi. En jeg fullyrði það, að hv. þdm. hafa ekki neina aðstöðu til að dæma um það, enn sem komið er, af því að það er engin viðleitni sýnd til að upplýsa þetta mál. Þar með er brotið í bág við fyrirmæli og anda þeirrar þáltill., sem síðasta þing samþykti, því að þar var svo fyrir mælt, að það ætti að leggja fyrir Alþingi niðurstöðu af rannsókn þessara mála, — og þá auðvitað ekki að ráðast í að kaupa ríkisprentsmiðju fyrr en þm. hefðu þá eðlilegu aðstöðu til að dæma um ágæti þess fyrirtækis á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fram kæmu við slíka rannsókn og við þá áframhaldandi rannsókn, sem þm. hefðu getað lagt fram við meðferð málsins í n. þingsins og þremur umr. í báðum deildum.

Jeg verð að upplýsa hæstv. ráðh. um það, að þessi prentsmiðja, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, á þá raunasögu, að ef jeg má ráða, verður henni lokað, hvort sem nokkur ríkisprentsmiðja kemst á fót eða ekki. En þegar maður hefir þannig fyrirtæki, sem nýtir starfsmenn eru fyrir, eins og hæstv. ráðh. tók fram, en samt á það þessa raunasögu að baki, þá hlýtur hjer að vera tækifæriskaup fyrir ríkissjóð, ef hann vill eignast prentsmiðju. En jeg veit ekki til, að leitað hafi verið samninga um kaup á þeirri prentsmiðju. Jeg segi fyrir mitt leyti, að ef á annað borð væri búið að ákveða, að ríkið stofnaði og starfrækti prentsmiðju, þá er jeg allra manna fúsastur til að vinna að því, að ríkið gæti fengið ákaflega ódýr kaup á þeirri prentsmiðju, sem jeg er svo ógæfusamur að teljast meðeigandi að. Heldur ekki þessi hlið málsins hefir verið neitt rannsökuð. Okkur er yfirleitt ætlað að greiða atkv. eins og sauðum, vitandi ekkert um það, hvort ríkisprentsmiðja er arðvænleg eða hvort hægt sje að fá önnur og betri kaup.

Jeg læt útrætt um þessa till. með þeim orðum, að jeg veit ekkert um það, hvort rjett sje, að ríkissjóður ráðist í þetta. Mín lítilfjörlega reynsla í þessu efni mælir á móti því. Og jeg segi, að það sje skylda hv. þm. fyrir hönd ríkissjóðs að koma fram eins og hygnir kaupsýslumenn gera, að ráðast ekki í slík stórfyrirtæki nema rannsókn fari fram, er sýni, að fyrirtækið sje arðvænlegt.

Jeg skal þá víkja nokkrum orðum að brtt., sem jeg hefi leyft mjer að flytja við þessa umr. fjárl. Jeg tel óþarft að ræða um brtt. XI. á þskj. 646, um Flensborgarskólann, vegna þess, að um þá till. er áður búið að tala hjer í hv. deild, sem hefir lagt dóm sinn á þetta mál, — þann dóm, sem jeg óska, að hún staðfesti nú á ný. Og jeg geri ráð fyrir, að þótt Ed. hafi ekki í þessu máli viljað aðhyllast dóm Nd., þá muni Nd. samt standa fast við sinn fyrri dóm.

Þau rök, sem hæstv. dómsmrh. bar fram í Ed. fyrir breytingunni, voru þau, að með þessu væri trygt, að skólagjöld næðust af nemendum skólans. Vil jeg beina því sjerstaklega til jafnaðarmanna hjer í deildinni, að hæstv. dómsmrh. sagði, að aðalmunurinn á því. hvor leiðin væfi farin, væri sá, að með hans till. væri það trygt, að skólagjöld næðust inn. Hv. jafnaðarmenn hafa stöðugt lagt ríka áherslu á, að skólagjöld fjellu niður, og geta þeir því ekki fylgt hæstv. dómsmrh. í þessu máli.

Jeg verð nú að játa, að það er algerlega rjett, sem hæstv. ráðh. sagði, að samkv. brtt. minni er fyrirskipað, að skólagjöld sjeu innheimt. En það er líka rjett, sem hann sagði, að þessi fyrirmæli, sem felast í minni till., hafa staðið í fjárl. ár frá ári og altaf verið brotin. Og jeg skal ekki draga dul á, að jeg er algerlega andvígur skólagjöldum, og álít þess vegna mjög ákjósanlegt, að þau falli niður, þar sem því verður við komið. Og þar sem það hefir þolast átölulaust að láta þetta niður leggjast árum saman, þrátt fyrir ákvæði fjárl., þá treysti jeg því, að ef mín till. verður samþ., verði skólagjalda ekki krafist. Þessi skólagjöld eru þungur og að ýmsu leyti óbilgjarn skattur á fátæka kaupstaðabúa. Einn aðalforvígismaðurinn í Hafnarfirði sagði við mig, að það væri kannske versti ljóðurinn á till. hæstv. ráðh., ef hann ætlaðist til, að skólagjöld yrðu innheimt, því að sjer væri persónulega kunnugt um, að það væru blóðpeningar, ef meiri hl. af skólagjöldum yrði krafist.

Jeg leiði aðeins að nýju athygli hv. deildar að því, að það má ekki sóma þingsins vegna rifta 50 ára gömlum samningi og 50 ára venju, sem hefir verið um viðskifti ríkissjóðs við Hafnarfjörð. Það hefir verið óbrigðult, að síðan ríkissjóður tók við gjöfinni, hefir hann kostað skólann skilmálalaust. Það er því óviðeigandi að kippa að sjer hendinni um þetta alveg tilefnislaust. Nú stendur fyrir dyrum gagngerð breyt. á fyrirkomulagi þessa skóla, og þá er tækifærið til að gera einhverja nýja samninga.

Þá hefi jeg leyft mjer að flytja á ný brtt. um að veita 800 kr. til styrktarsjóðs Margrjetar Bjarnadóttur. Þessar tvær brtt. mínar voru einu hækkunartill. við fjárlagafrv., sem jeg flutti. Hv. Ed. sýndi þá röggsemi að nema þær báðar í burt. Jeg vænti nú, að hv. Nd. haldi fast við áður upp kveðinn dóm í þessu. Og jeg vil leiða athygli hv. þm. að því, að þetta lítilfjörlega framlag til styrktarsjóðsins er fullkomlega hliðstætt framlagi, sem er á 17. gr. fjárl. Þar eru margir liðir nákvæmlega samskonar. Jeg vil sjerstaklega benda á tölul. 14–18, að báðum meðtöldum, í 17. gr. fjárl. eins og þau komu til 3. umr. í Ed. Það er undarleg röggsemi, sem hv. Ed. hefir sýnt í þessu máli. Og jeg verð að halda, að þessi góðu málefni hafi liðið við það, að jeg á harðvítugan mótstöðumann í Ed., sem sje ánægja að fella góð mál af því að jeg er flm. þeirra.

Þá hefi jeg leyft mjer að flytja brtt. um það, að Jakob Björnssyni, fyrv. yfirmatsmanni, verði greidd eftirleiðis til æfiloka 1600 kr. laun á ári, í stað þess, að Ed. hefir ætlað honum 1200 kr. Jeg get ekki rökstutt þessa brtt. mína á annan hátt nje betur en með því að lesa upp umsóknina frá þessum mæta manni til Alþingis, og vil gera það, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessu brjefi leyfi jeg mjer virðingarfylst að snúa mjer til hins háa Alþingis með þeirri ósk og bæn, að jeg framvegis til æfiloka fái að halda fullum og óskertum þeim launum, er jeg hefi undanfarið haft sem yfirsíldarmatsmaður á Siglufirði, sem sje kr. 1600.00 auk dýrtíðaruppbótar.

Vona jeg fastlega, að hið háa Alþingi sannfærist um, að þessi bæn mín sje ekki ósanngjörn þegar athugaðar eru allar hliðar málsins, enda mun hæstv. ríkisstjórn hafa litið þeim augum á þetta, er hún góðfúslega sýndi mjer þann mannúðarbrag, að ákveða mjer full laun uns Alþingi kæmi saman á þessum vetri og tæki endanlega afstöðu í málinu; og bætti hún við í brjefi sínu til mín: „Og vonandi að Alþingi sjái yður fyrir eftirlaunum eða hæfilegum ellistyrk“.

Árið 1909 var jeg skipaður síldarmatsmaður á Siglufirði, og 1911 yfirsíldarmatsmaður á sama stað, og hjelt þeirri sýslan þar til er hún var lögð niður, er einkasalan var lögskipuð. Áður en jeg var skipaður síldarmatsmaður, hafði jeg í allmörg ár fengist við síldarverkun og sölu bæði fyrir mig og aðra. Hepnaðist mjer jafnan vel verkun síldarinnar, og fjekk jeg það orð í Kaupmannahöfn, að frá engum norðlenskum síldarkaupmanni kæmi jafngóð síld.

Laun mín við síldarmatsstarfið voru tvö fyrstu árin kr. 600.00 síðan kr. 1000.00 til 1919, og frá því ári kr. 1600.00 auk dýrtíðaruppbótar. En frá árinu 1920 var oss yfirsíldarmatsmönnum gert að skyldu að jafna niður á fiskpakkaðar tunnur í umdæminu öllum launum matsmanna, og sjá um og ábyrgjast innheimtu og greiðslu þeirra, án þess þó að nokkru væri bætt við laun vor, eða oss lagt nokkuð skrifstofufje, og var þó ekki laust við á stundum, að þetta hefði talsvert umstang í för með sjer, og jafnvel allmikla áhættu vegna ábyrgðar á launagreiðslunum. Síðan var yfirmatsmönnum fyrirskipað að gefa ýmsar skýrslur, einnig án nokkurra fríðinda. Auðvitað voru þessi viðbótarstörf mest á Siglufirði, því þar var langsamlega mest saltað, en samt hafði jeg fyrir mitt leyti ekkert við þetta að athuga, og inti þetta fúslega af hendi. En hitt hefir mjer ætíð þótt miður sanngjarnt, að yfirmatsmaður Siglufjarðar, sem vitanlega hafði langmest erfiði við síldarmatið, skyldi alls ekki vera frekar launaður en yfirsíldarmatsmennirnir á Seyðisfirði og Ísafirði, sem mörg árin höfðu mjög lítið að starfa, því flest árin voru 3/5 til 3/4 hlutar af allri útflutningssíld fluttir út frá Siglufirði.

Jeg er fastlega sannfærður um það, að enginn yfirmatsmannanna hafi stundað starf sitt betur en jeg, eða haft gleggri skilning á nauðsyn ábyggilegs síldarmats, og jeg veit með sjálfum mjer, að jeg lagði fram alla krafta mína og starfsþrek til þess að síldarverkunin gæti orðið góð og fullkomin, þótt mjer hinsvegar vegna ýmissa afla, er á móti stóðu, hafi eigi lánast að koma henni í það lag, sem jeg æskti, og veit jeg þó, að jeg hafði bæði vilja og þekking til þess að verða að verulegu liði í þessu velferðarmáli þjóðarinnar. Því miður gáfu lögin og erindisbrjef mitt mjer aldrei nægilegt vald til þess að koma í framkvæmd því, er jeg taldi nauðsynlegt til þess að koma síld vorri í verðskuldað álit á erlendum markaði.

Forstöðunefnd Síldareinkasölunnar veitti því þegar athygli, að ekki var sanngjarnt að yfirsíldarmatslaun á Ísafirði, Akureyri og Siglufirði væri jöfn, og greiddi hún því tveim hinum síðarnefndu kr. 260.00 hærra kaup en yfirmatsmanni Ísafjarðar, sem fjekk venjulegt yfirmatsmannskaup.

Starfinu sem yfirsíldarmatsmaður á Siglufirði, sjerstaklega fyrstu árin, fylgdu mjög miklar næturvökur og missvefn fyrir utan ábyrgðina og ýms önnur óþægindi, og get jeg með sanni sagt, að frá þeim árum stafar sjóndepra mín, sem nú er mjer sjerstaklega til baga. Og ef jeg hefði ekki talið það fullkomna skyldu mína að helga síldarmatinu alla starfskrafta mína og umhyggju, hefði jeg vafalítið getað grætt talsvert fje á Siglufirði, bæði á ófriðarárunum og síðar, en jeg hefi aldrei leyft mjer neina útúrdúra frá síldarmatsstörfunum. Efni mín hafa því alls ekki vaxið á þessum árum, þótt jeg hafi gætt hinnar mestu sparsemi.

Jeg verð nú 72 ára gamall hinn 18. sept. næstkomandi. Heilsa mín er að vísu góð enn, að undantekinni sjóndeprunni, sem nú ágerist, þótt jeg fyrir nokkrum árum kostaði miklu fje til utanfarar í því skyni að fá bætur á sjóninni. En með hliðsjón af aldri mínum, eru tæpast miklar líkur til þess, að ríkið þurfi um mörg ár að greiða mjer þau eftirlaun, er jeg hefi leyft mjer að fara fram á í þessu brjefi.

Jeg gæti fært fleiri rök fyrir sanngirni bænar minnar. En jeg læt mjer nægja það, sem komið er. Og jeg treysti fyllilega hinu háa Alþingi til þess að verða drengilega við þessari umsókn minni“.

Jeg sagði, að jeg gæti ekki bætt við þau rök, sem þessi greindi og ágæti maður hefir fært fram. Þó vil jeg bæta því við, að hv. þdm. mega fyllilega treysta því, að hann segir satt. Rauplausari manni hefi jeg ekki kynst. Jakob Björnsson er alveg óvenjulegur sómamaður, sem fyrir sjerstakan dugnað og elju í starfi sínu hefir margverðskuldað, að hann fái að halda þessum sultareyri óskertum til dánardægurs. Jeg vænti því, að jeg þurfi ekki að rökstyðja þetta frekar og till. verði samþ.

Þá hefi jeg flutt hjer brtt. á þskj. 651, við 23. gr., um að stj. verði heimilað „að ábyrgjast 11 þús. kr. lán fyrir bændur á Vatnsleysuströnd, gegn endurábyrgð sýslunefndar Gullbringusýslu, til færslu þjóðvegarins um Vatnsleysuströnd, ef að því ráði verður horfið“. Till. þarfnast skýringar og jeg tel fullvíst, að ef hv. þm. heyra, hvernig í málinu liggur, þá verði þeir till. ekki mótfallnir.

Svo er mál með vexti, að þjóðvegurinn um Vatnsleysuströnd liggur á nokkrum kafla ekki um bygð og allfjarri bæjum. Það eru 16 jarðir, sem þannig eru mjög illa settar, og bændur á þessum jörðum eiga mjög hag sinn undir, að vegarstæðið verði fært. Nú stendur svo á, að ekki verður hjá því komist að gera mikið við þennan veg. Hann er orðinn næstum ófær. Vegamálastjóri telur, að viðgerðin muni kosta 15 þús. kr., með því að byggja hann upp aftur á sama stað, en verði hann færður og lagður með sjó fram, svo að þessir 16 bændur hafi hans sömu not og aðrir, verði kostnaðurinn 30 þús. Hann hefir hinsvegar ekkert á móti færslunni, ef bændurnir vilja greiða mismuninn, þessar 15 þús. kr., og þeir telja þetta svo mikils um vert, að þeir vilja leggja á sig þennan kostnað. En bændurnir hafa ekki þetta fje handbært. Þó eiga þeir í sjóði 2 þús. kr. og hafa gjafaloforð fyrir 3 þús. og fara nú fram á ábyrgðarheimild fyrir 11 þús. kr. Þetta yrðu nú að vísu 16 þús. samtals. Eitt þúsund fyrir vanhöldum.

Jeg skal nú játa, að það er dálítið óviðfeldið að koma með þetta nú við eina umr. fjárl., en jeg hefi það mjer til málsbóta, að jeg vissi ekki um þetta fyrr en í dag, að bændur úr þessu hjeraði sneru sjer til mín með málaleitan um þetta. Vegna þess að þetta kom svo seint, sneri jeg mjer til vegamálastjóra og fór þess á leit við hann, að hann frestaði viðgerð vegarins til næsta árs, en hann taldi óhjákvæmilegt að snúa sjer þegar í sumar að henni. Þessu næst sneri jeg mjer til hæstv. fjmrh. og skýrði honum frá málavöxtum. Hann kvaðst að vísu yfirleitt vera á móti þessum ábyrgðarheimildum, en þessi væri síst ósanngjarnari en ýmsar aðrar, sem komnar væru þegar inn í fjárl., og hann sýndi málinu og mjer ennfremur þá vinsemd að orða með mjer till. Jeg er honum þakklátur fyrir það, ekki sjerstaklega af því, að till. sje betur orðuð en hún mundi hafa orðið hjá mjer, sem hún þó sjálfsagt er, heldur sjerstaklega vegna þess, að jeg vænti, að þessi afskifti hans af málinu afli till. þess fylgis, að hún verði samþ. hjer í hv. d.