04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil þakka landbn. fyrir afgreiðslu þessa frv. Er það ánægjulegt, að hún hefir orðið sammála um að mæla með því. Hefir nefndin látið ánægju sína í ljós yfir því, að frv. skyldi vera borið fram, og taldi, að með því væri bætt úr lánsþörf landbúnaðarins á viðunandi hátt. — Jeg veit, að nefndin hefir lagt mikla og góða vinnu í að athuga frv., enda borið fram margar brtt. við það. Þetta starf nefndarinnar þakka jeg henni og lýsi ánægju minni yfir, þótt jeg sje á nokkuð öðru máli um sumar till. hennar. En það hefir engin áhrif á það stóra aðalatriði, stofnun bankans, sem allir hafa orðið sammála um.

Það er vitanlega ekkert aðalatriði, hvaða nafn verður gefið bankanum. Fyrir mitt leyti kann jeg betur við nafnið Landbúnaðarbanki en Bændabanki. En undir öllum kringumstæðum verð jeg eindregið að mæla á móti till. nefndarinnar um nafn bankans á Norðurlandamálunum. Nefndin hefir einmitt dottið ofan á sama nafn á bankann og er á stærsta braskbanka Norðurlanda, er var Landmandsbanken. Þetta er vitanlega tilviljun. Sje ástæða til að breyta nafni bankans vegna þess, að það sje of líkt nafni Landsbankans, eins og n. segir, þá er ekki minni ástæða til að fá honum ekki samnefni við þann banka, sem á sjer einna sorglegasta sögu allra bankastofnana á Norðurlöndum. En mjer finst það ekkert athugavert, þó að nöfn þessara tveggja banka íslenska ríkisins yrðu lík. — Jeg skal þó játa, að jeg legg ekki verulega áherslu á nafnið, nema á þýðinguna á Norðurlandamálin. Þar finst mjer ekki koma til mála að setja á bankann það nafn, sem hefir einna ljótastan hreim af öllum bankanöfnum á Norðurlandamálum.

Önnur brtt. n. er sú, sem jeg finn einna athugaverðasta, enda hefir n. klofnað um hana. Hv. frsm. komst svo að orði, að með henni ætti að ákveða skýrar en í frv., að tilgangur bankans sje eingöngu sá, að styðja landbúnaðinn. En till. hljóðar einmitt um það, að bankinn eigi ekki eingöngu að lána til landbúnaðarins. Fyrri hluti brtt. hljóðar að vísu svo:

„Tilgangur bankans er eingöngu að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiftum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu“.

En í síðari hluta greinarinnar segir svo:

„Þó er heimilt að veita smábátaútvegsbændum utan kaupstaða rekstrarlán samkv. 7. gr. 2. tölul.“ — í þessu er greinileg mótsögn. Jeg er að vísu sammála hv. n. um, að gera þurfi frekari ráðstafanir til þess að styðja smábátaútveginn, en jeg tel alls ekki, að rjett sje að fara þessa leið. Nú vill svo vel til, að í dag hefir verið útbýtt nál. frá 4/5 hlutum sjútvn., þar sem gert er ráð fyrir nýrri löggjöf til þess að styrkja smábátaútveginn. Tillaga þessi er merkileg og vel þess verð, að hún sje tekin til frekari athugunar. Jeg vildi því, með tilliti til þessa, leggja til, að síðari hluti 2. brtt. hv. landbn. sje numinn burtu, og jeg vil beina því til n., að hún hnígi að ráði hv. sjútvn., en blandi ekki þessu tvennu saman. Til grundvallar þessu frv. liggur fyrst og fremst þörfin á lánsfje úti um sveitir landsins, og á það ber að líta, að landbúnaður og sjávarútvegur eru og hafa altaf verið svo ólíkir atvinnuvegir, að tæplega getur komið til greina, að báðir sæti sömu lánskjörum. Landbúnaðurinn á fulla kröfu á betri kjörum en sjávarútvegurinn, og er það á því bygt, hve miklu tryggari hann er. í þessu sambandi má benda á, að af þeim 20-30 milj. króna, sem bankarnir töpuðu á útlánum undanfarin 10 ár, voru ekki nema ca. 1-2% til landbúnaðarins. Þegar því á að stofna slíka stofnun, til þess að bæta úr þörfum landbúnaðarins, má ekki með neinu móti taka þá atvinnugrein, smábátaútveginn, sem staðið hefir á völtustum fæti, og setja í samband við þann atvinnuveg, sem ávalt hefir reynst öruggastur. (PO: Vill hæstv. ráðh. halda því fram, að smábátaútvegurinn hafi staðið á völtustum fæti?). Já, vjelbátaútgerðin. Jeg verð að líta svo á, að till. sjútvn. sjeu í þessu efni stórum heppilegri, og jeg vil skjóta því til hv. landbn., að hún taki málið til athugunar á þeim grundvelli.

3. brtt. n. er í beinu sambandi við 2. brtt. og stendur því og fellur með henni.

5. brtt. fjallar um það ákvæði frv., að handbært fje opinberra sjóða skuli ávaxtað í sparisjóðsdeild bankans. Hv. frsm. benti rjettilega á, að brtt. gerir ráð fyrir að svifta Söfnunarsjóð ekki þessum hlunnindum, og er ekkert út á það að setja. En brtt. segir meira: „Ríkisstj. skal, ef ástæður leyfa, sjá um“, o. s. frv. — Það er þetta orðalag „ef ástæður leyfa“, sem jeg vildi að felt væri úr brtt. Það er gert meira með tillögunni en að opna heimild til þess að ávaxta slíkt fje í Söfnunarsjóði; það er opnuð samskonar heimild fyrir ríkisstjórnina, ef hún vill hlynna að einhverri annari bankastofnun. Orðalagið er óþarflega alment og óákveðið, og væri því rjett að fella það burt.

6. brtt. n. snertir stofnfje veðdeildar bankans. Jeg get til samkomulags fallist á brtt. n., en jeg vil þó benda á, að stofnfjeð er þar lækkað um 3/4 úr milj. frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Úr þessu má reyndar bæta síðar, en það er þó stórum erfiðara þá. Á síðari hluta brtt. get jeg fallist.

Hv. frsm. fór fljótt yfir næstu brtt., og hefi jeg ekki mikið við þær að athuga. En 13. brtt. n. get jeg ekki fallist á, en jeg skal viðurkenna, að það er ekkert stóratriði, og mun jeg ekki gera það að kappsmáli. Brtt. gerir ráð fyrir, að 39. gr. frv. falli burt. Sú grein heimilar veðdeild þessa banka að gefa út bankavaxtabrjef með happdrætti eða happvinningum. Jeg vil benda á, að slíkt ákvæði er þegar til í íslenskum lögum. Það er í ríkisveðbankalögunum frá 1921. Og jeg verð að telja rök Böðvars Bjarkan í athugasemd við 35. gr. ríkisbankalaganna svo sterk, að hv. frsm. hafi ekki hnekt þeim í ræðu sinni. Og hjer er ekki um að ræða venjulegt happdrætti. Því til sönnunar vil jeg leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, nokkur orð úr grg. frv., þar sem þetta atriði er tekið til athugunar. Þar segir svo:

„Vaxtabrjef með happvinningum eru gjörólík lotteríseðlum í þessu tvennu, að höfuðstóll vaxtabrjefanna verður ávalt endurgreiddur og að eigandi fær auk þess sæmilega háa vexti af fje sínu“.

Þetta er auðsjáanlega alt annars eðlis en hin venjulegu lotterí, með öllum þeim óþrifnaði og spillingu„ sem þeim fylgir. Þetta er einungis gert til þess að halda brjefunum í góðu verði og hjálpa bankanum til að selja þau. En ef þetta spillir fyrir sölu annara verðbrjefa í landinu, eins og frsm. gat um, þá er það einungis af því að það um leið bætir fyrir sölu þessara verðbrjefa. Þetta er augljóst. Annars er mjer ekki sjerstaklega ant um þetta atriði og mun ekki fjölyrða um það frekar að svo stöddu.

Þá kemur 15. brtt. n., viðvíkjandi bústofnslánadeild bankans. Jeg hefi ekki getað athugað það atriði til hlítar, en mjer er það ljóst, að nefndin vill sýna meiri varfærni en frv. gerir ráð fyrir. Gengur n. jafnvel lengra í því heldur en Búnaðarþingið gerir í till. sínum. Jeg mun við 3. umr. athuga þetta betur. En mjer er ekki grunlaust um, að n. hafi verið jafnvel óþarflega varkár. Það er ómögulegt að setja með löggjöf svo rammar skorður gegn misbrúkun, að einhlítt sje. Það verður að eiga slíkt mjög undir þeim, sem fyrir stofnununum standa, og það er trú mín, þar sem braskið sje ekki enn komið svo langt upp um sveitir landsins, að óhætt sje að láta þá, sem forstöðu bankans hafa á hendi, hafa óbundnar hendur um slíkt. Tilgangur lánanna er að veita fólki stuðning og hjálp til þess að reisa bú, og verður stjórn bankans að haga tryggingunum eftir því, sem hún telur eftir atvikum best við eiga. Jeg vil geyma mjer rjett til, ef til vill, að bera fram till. Búnaðarþingsins um þetta mál.

Þá á jeg aðeins eftir að víkja nokkuð að síðustu brtt. n. Eftir brtt. eiga endurskoðunarmenn bankans að vera skipaðir af ráðherra samkvæmt tillögu sameinaðra landbúnaðarnefnda Alþingis. Jeg er þessu fyllilega sammála, og jeg vil biðja hv. n. að athuga, hvort ekki væri rjett að ganga enn lengra á þessari braut, til þess að tryggja þessa stofnun gegn dutlungum mismunandi stjórna. Það væri ekki úr vegi að athuga, hvort stjórn bankans væri ekki best skipuð af einhverjum þeim stofnunum, þar sem bændur eða fulltrúar þeirra ráða. T. d. að hún væri skipuð af 3 mönnum, nokkurskonar bankaráði, og skipaði Búnaðarfjelagið einn, Samband samvinnufjelaganna annan og þá landsstjórnin þriðja manninn. Jeg vil biðja hv. landbn. að athuga þetta, hvort ekki væri rjett að taka upp þessa tilhögun, en jeg vil þó ekki gera það að tillögu minni að svo stöddu máli. En það skal jeg þó taka fram, að ef það ætti fyrir mjer að liggja sem atvmrh. að skipa í stjórn bankans, þá skyldi jeg með glöðu geði láta það af hendi, til þess að tryggja það, að einungis hagsmunir landbúnaðarins kæmu til greina við valið, einnig í framtíðinni.

Jeg vil að lokum endurtaka það, að þótt jeg hafi nú gert þessar athugasemdir við brtt. landbn., þá er jeg henni þó mjög þakklátur fyrir eindreginn stuðning við frv. í heild og fyrir mikið og vel unnið starf, og vil mega vænta þess, að hv. deild sýni þann skilning á þessu mikla nauðsynjamáli, að hún veiti frv. greiða og skjóta afgreiðslu.