20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

15. mál, laganefnd

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg skal þá fyrst víkja að ræðu hv. 1. þm. Skagf. Það er vitanlega alveg fyrirkomulagsatriði, hvort nefndarskipunin á að vera bundin við kjörtímabilið eða 4 ár, eins og gert er ráð fyrir í frv. Annars er ætlast til þess, að n. verði svo pólitískt litlaus, að allir flokkar geti með henni unnið, eins og t. d. skrifstofustjóra Alþingis. Það er líka fyrirkomulagsatriði, hve oft lögin yrðu gefin út. Svíar t. d. gefa helstu lög sín út á hverju ári, en það er algerlega óhugsandi fyrir okkur vegna kostnaðarins. Úr þessum atriðum verður því þingið að skera. Að því er snertir kostnaðinn við það að láta blýið standa, þá held jeg, að hann geti aldrei orðið mjög mikill. Verð blýsins er ekki mikið; yrði það þá helst húsrúmið, sem gæti komið til með að kosta eitthvað. En sem sagt, jeg held, að hvorugt yrði tilfinnanlegt.

Hv. þm. Dal. var mótfallinn anda málsins; er því ekki ástæða til þess að deila við hann nú. Mjer skildist á ræðu hans, að hann beinlínis hefði enga trú á nauðsyn þessa máls, og finst mjer það óneitanlega undarlegt af honum, jafnkunnugum manni þeim önnum, sem þm. eru hlaðnir um þingtímann. Því að það er öllum vitanlegt, að þm. geta ekki athugað hvert mál nákvæmlega viðvíkjandi formi og samræmi, þótt þeir að sjálfsögðu gæti vel að efnishliðinni, þegar t. d. 7–10 mál eru á dagskrá í einu. Hjer er því reynt að gera tilraun til þess að gera þm. hægara fyrir, og jafnframt stigið spor í þá átt, að koma á sem bestum heildarlögum. Hinn ágæti lögfræðingur prófessor Ólafur Lárusson, sem samið hefir frv. þetta, skrifaði fyrir nokkru um lögbók Íslendinga og stakk upp á því, að unnið yrði að henni af miklu kappi fyrir 1930. Og nú þegar er búið að fella töluvert af löggjöfinni í bálka, og myndi það aukast. Sem dæmi þessa mætti nefna vatnalögin, sem höfðu fengið mikinn undirbúning hjá mþn. og verið rædd á mörgum þingum. Jeg vona, að hv. þm. Dal. skilji það, er hann hefir fengið tíma til að átta sig á því, að varla er við því að búast, að þingið, með því mikla starfi, sem á það hleðst árlega, fái tíma til að samræma lagagerðina, þannig að hún falli mjúklega inn í hina ýmsu bálka laganna. Þetta er því ekki á rökum reist hjá hv. þm., nema honum takist að sanna það, að slík óreiða eða ósamræmi í lagagerðinni hafi ekki átt sjer stað á undanförnum þingum, og þá heldur ekki í stjórnartíð þessa hv. þm.

Þá er það einnig misskilningur hv. þm., að n. þessi eigi að hafa annað og meira en ráðgefandi vald, því ef t. d. þessi hv. þm. vill ekkert sinna henni nje veita henni neina hollustu, þá er hún vitanlega ekkert að angra hann.

Annars verð jeg að segja það, að jeg tel enga ánægju í því að koma þessari n. á, ef það er gert í trássi við vilja nálega hálfs þingsins. Gagnið myndi þá lítið verða af henni, og mætti þá búast við, að hún yrði lögð niður aftur fljótlega, eða þegar kosningar fjellu svo.