08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

5. mál, sveitabankar

Héðinn Valdimarsson:

Hv. frsm. vildi halda fram brtt. sinni, og færði það fram henni til varnar, að lítið væri um vanskil í sveitum, enda um litlar upphæðir að ræða þar. Enda ættu bændur hægara með að greiða skuldir sínar, ef þeir ættu greiðan aðgang að lánum, sem yrði, ef þetta stæði í frv. Ef þetta álit hv. frsm. er rétt, þá er hitt og líka auðsætt, að ekki skiptir miklu fyrir sveitabankann, þótt brtt. sé ekki samþ. Samkv. skiptalögunum, 83. gr., eiga fleiri forgangskröfur í bú en þeir, sem um er getið í brtt., en það eru þeir, sem hafa forgangskröfur samkv. 82. gr. skiptalaganna. Forgangskröfur samkv. 83. gr. eiga ríkið, kirkjur, sveitafélög, stofnanir, ómyndugir o. fl. Þá eru opinber gjöld, kaupgreiðslur, læknisgjöld og m. fl., allt samkv. 83. gr. skiptal. frá 1878. En þó þessu öllu sé haldið, þá sýnist það í fæstum tilfellum geta skaðað þessa bankastarfsemi, því bæði er, að venjulega er hér um lítið að ræða, og tæpast sett á fremsta hlunn um útlán til manna. — Þessi forréttindi bönkunum til handa eru því tæplega nauðsynleg, og brtt. því óþörf.