29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (1022)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ég er sammála honum um það, að áætlanir, sem gerðar eru nú þegar, eru veikur grundvöllur til að byggja á. Á þessu sviði eru breytingar hvað örastar, og nýjar uppgötvanir geta komið fram og haft í för með sér miklar afleiðingar fjárhagslega. En ég vil benda hv. þm. á það, að einmitt með því að taka þetta í reikninginn má það vera til mjög alvarlegrar umhugsunar fyrir hv. flm. þessa frv., ekki sízt um þann grundvöll, sem frv. hvílir á, að styrkurinn eigi að liggja í taugunum aðallega. Fyrir fáum árum var það fundið upp að senda skeyti þráðlaust. Og nú tala menn saman þráðlaust. Hvað er sennilegra en við komumst upp á það að senda kraftinn þráðlaust? En hvað verður þá af þessum taugum, sem ríkið er búið að dreifa um? (MG: Vill ráðh. bíða þangað til?). Nei. En út frá þessari ályktun má draga ýmsar ályktanir, svo að við getum komizt út í allskonar bollaleggingar, ef við förum að ræða það mál.

Í sinni ræðu dró hv. þm. ekki úr því, sem hann beindi til Skaftfellinga, þessara þjóðhagasmiða. Hann talaði um hrákasmíði þeirra. Við getum talað um hrákasmíði verkfræðinga allt að einu. En það er bara útkoman sú, að hrákasmiðið, sem hann kvað svo vera, það kostar 4–5 þús. króna, en hrákasmiði verkfræðinganna 20–40 þús. Þetta er sá mikli munur að komast í klærnar á verkfræðingunum eða Skaftfellingum. En reynslan er stundum sú, að þær stöðvar, er Skaftfellingar setja upp og kosta 10 sinnum minna en hjá þeim lærðu mönnum, endast þó miklu betur. Ég býst við, að hv. þm. Rang. gæti sagt okkur átakanleg dæmi um það.

Hv. þm. sagði, að ég setti upp kostnaðargrýlu í þessu máli. Það er ekki rétt. Hið eina, sem ég sagði, er það, að við þurfum að fá peninga til þessa og að ég er reiðubúinn að afla þeirra.

Hv. þm. Ísaf. talaði um það, að ef haldið væri áfram að styrkja smástöðvarnar, gæti hlotizt meira eða minna ógagn af því. Ég vil minna hv. þm. á það, að þessar smástöðvar eru alls ekki styrktar af hinu opinbera. Hinsvegar kom fram í hans ræðu, að honum er ljóst, að á mörgum svæðum á landinu verður ekki að ræða um stórar rafveitur.

Þá er það ræða hv. 1. þm. Skagf. Hann talaði yfirleitt sanngjarnlegar nú en ég átti von á, og þótti mér ýmislegt í hans ræðu skynsamlegra en það, sem fram kom hjá hv. flm. Hv. þm. hélt, að ég vildi bíða eftir heildarrannsókn á öllu landinu og fá eitt allsherjar yfirlit áður en tekið væri til starfa. Þetta hefir mér auðvitað ekki dottið í hug. (MG: Hvaða rannsókn er það þá?). T. d. það, á hvaða grundvelli ríkið eigi að styrkja þetta, hvort styrkurinn miðist við taugarnar, eins og gert er ráð fyrir í frv., eða heildarkostnað á hverjum stað o. s. frv. Eða á að fara hliðstæða leið og nú við rjómabúin? Ég hefi ekki enn komizt að niðurstöðu um þetta. En eftir samtali við fagfróða menn um þetta mál hygg ég, að við ættum heldur að gera það.

En út frá því, sem hann sagði um þetta mál, þá vil ég segja það, að mér dettur ekki í hug að beita þessari rannsókn fyrir til þess að tefja þetta mál. Það einasta, sem ég sagði, að við þyrftum að gera áður en hafizt verður handa í þessu máli, er að afla fjárins. Ég geng ekki inn á það að minnka framlag til samgangna og þess, sem miðar að því að styðja framleiðsluna.

Um það, sem ég vék að áðan, hvernig ríkið ætti að styrkja þetta mál, sagði hv. 1. þm. Skagf. eitt, sem gladdi mig: að ef nefnd sérfræðinga kæmist að þeirri niðurstöðu, að styrkja skyldi með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frv., þá vildi hann ganga inn á það. Og ef sérfræðingar halda því fram, að það eigi að fara þessa leið, sem segir í frv., þá skal sannarlega ekki standa á mér. En ég segi, að það er ekki búið að fá álit þeirra ennþá, og ég vona, að það standi ekki lengi á því.

Þá þótti mér góð yfirlýsing frá hv. þm. um það, að ekki væri hægt að stöðva þetta mál, en það, sem helzt mundi stöðva það, væri það, að fé yrði ekki fyrir hendi. Vil ég leggja þessi orð út þannig, að hv. þm. sé reiðubúinn til samvinnu um að afla fjárins. Það kom fram í ræðu hans seinna, að hann gerir ráð fyrir, að flokkur hans sé tilbúinn til þess. Hann gat þess um leið, að ágreiningur gæti orðið um leiðir til þess. Því má bæta við, að það eru ótal möguleikar til þess að stöðva málið. (MJ: Eru ekki sömu möguleikarnir fyrir stjórnarflokkinn?). Stjórnarflokkurinn vill fá peningana til framkvæmdanna.

Að síðustu sagði hv. þm., að oft hefðu mál verið flutt án þess að sjá fyrir nægum tekjum fyrir útgjöld þau, er af framkvæmdum þeirra leiddi. Það er nú svo, að þegar ríkissjóður er fullhlaðinn byrðum fyrir, þá er ekki hægt að leggja út í stórfyrirtæki án þess að afla nýrra tekna. Ég vil segja, að aldrei fyrr hefir slíkt stórmál verið flutt inn á Alþingi með þeim ummælum frá flutningsmönnum, að það skyldi framkvæmast fyrir afgangsfé. Oft hefir nú orðið rekstrarhalli á ríkisbúskap okkar — ekki færri en tíu ár á stuttu tímabili —, og eftir þessum orðum hv. flm. hefði ekkert átt að gera í þessu máli þau árin. Og hvernig á stj. að vita fyrri part ársins um hina endanlegu afkomu, þegar hún á að taka ákvörðun um, hvort styrkja eigi þetta mál eða ekki? Hvernig á hún að vita um þetta í maí eða apríl, hvort afgangur verður eða ekki? Ég verð að segja, að það er ekki til sóma fyrir myndarlegan bónda úr Skagafirði að koma sem flm. að þessu stórmáli og segja, að þetta eigi að gera fyrir afganga. Ég játa, að hjá hv. 1. þm. Skagf. kom þetta ekki fram.