08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

5. mál, sveitabankar

Pétur Ottesen:

Út af þeim orðum hæstv. forsrh., að stofnanir þær, sem ráðgerðar eru í frv., fengju daufari svip, ef þær væru nefndar lánsfélög, í stað sveitabanka, vil ég segja það eitt, að ég hygg, að gagnsemi þeirra verði mjög hin sama, hvort nafnið sem valið er. Nafnið sjálft skiptir vitanlega engu fyrir þá, sem eiga að njóta þeirra. Hitt er vitanlega aðalatriðið, að stofnanir þessar verði sem hagkvæmastar fyrir þá, er njóta, en þó um leið sem öruggastar. Ég hygg, að það, sem ég sagði um bankastjórana, sé ekki ofmælt. A. m. k. hafa bankastjórar Landsbankans þau laun, er ég nefndi. En viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið í blöðunum um laun bankastjóra Búnaðarbankans, þá er það að segja, að allir vita, að grunnlaunin eru 12 þús. kr. handa aðalbankastjóra og 4 þús. kr. handa hinum. En ég vænti upplýsinga um það, hve há dýrtíðaruppbót greidd hefir verið á þessi laun. Hæstv. atvmrh. sagði, að ekki væri enn slegið neinu föstu um það. En ég vil þá spyrja, hvaða dýrtíðaruppbót hefir verið greidd af launum þeirra síðan á nýári.