20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Ég á XXX. brtt. á á þskj. 302, sem hv. meðflm. minn, 2. þm. G.-K., hefir minnzt á. Hún fer fram á að veita Magnúsi Ásgeirssyni 1.500 kr. styrk til ljóðaþýðinga. Ég býst við, að flestir hv. þdm. hafi kynnt sér bók þá, sem lögð var hér fram í deildinni í fyrra, og sannfærzt um, hvað M.-Á. er óvenjulega góður þýðari. Þessi bók er safn af þýðingum erlendra úrvalsljóða, sem hann hefir gert. Mér er kunnugt um, að á þessu ári hefir M. Á. þýtt talsverðan kafla úr „Faust“. Þá þýðingu hefi ég séð, og er hún óvenjulega vel af hendi leyst. Á þessu ári hefir hann ennfremur í hyggju að þýða Gróttasöng hinn nýja eftir Rydberg, og gefa hann út, ásamt ýmsu öðru, sem hann hefir þýtt. Þýðingar M. Á. hafa fengið óvenjulega góða ritdóma. Má í því efni m. a. minna á ritdóm í síðasta hefti „Vöku“, eftir prófessor Sigurð Nordal, þar sem hann telur M. Á. óvenjulega góðan ljóðaþýðara og fullyrðir, að hann komist í röð þeirra manna, sem bezt hafa þýtt erlend ljóð á íslenzku. Jafnar hann honum við Sveinbjörn Egilsson og Jón Þorláksson á Bægisá, ef hann heldur áfram á þessari braut. Ég er viss um það, að þessum 1.500 kr. er vel varið, ef þjóðin hefir áhuga fyrir þessari grein listarinnar.

Þá flyt ég ennfremur l. brtt. á þskj. 316, við 13. gr., um að Magnúsi Jochumssyni póstfulltrúa verði veitt persónuleg launaviðbót, 400 kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót, eða alls 560 kr.

Mér er þessi maður persónulega kunnugur, því að við vorum bekkjarbræður í Menntaskólanum; hann er sérstaklega góður starfsmaður á margan hátt og ágætur málamaður. — Ýmsir hafa ámælt stj. fyrir það, að hún veitti honum ekki póstritarastarfið, sem hann sótti um, og mun enginn hafa verið honum verðugri til að hljóta það. Þess vegna tel ég það fullkomna sanngirniskröfu, að honum verði veitt þessi litla launauppbót.

Þá vil ég minnast á II. brtt. á þskj. 316, við 13. gr., frá samgmn. Þar er farið fram á að veita Flugfélagi Íslands hf. styrk til flugferða, 20 þús. kr., og ennfremur til flugvélakaupa 50 þús. kr., sem stj. er heimilt að verja til hlutakaupa í flugfélaginu. Er gert ráð fyrir, að félagið kaupi tvær nýjar flugvélar.

Eins og hv. þdm. muna, þá er hér á ferðinni í þinginu frv. til laga um flugmálasjóð, þar sem gert er ráð fyrir að leggja 10 aura á síldartunnu og hvert mál síldar og að af því myndist sjóður, sem nemur 50 þús. kr. á ári.

Dr. Alexander Jóhannesson, sem unnið hefir allra manna mest að þessum flugmálum hér á landi, hefir skrifað merkilega grein í blöðin Tímann og Morgunblaðið. Þar gerir hann grein fyrir þeim grundvallartill. sínum, að keyptar verði 2 flugvélar og starfræktar hér allt árið, eftir því sem við verður komið, til þess að flytja farþega og póst á milli fjarlægustu staða á landinu, með mörgum við komustöðum. Auk þess á önnur flugvélin að starfa þrjá mánuði við síldarleit fyrir norðan land á sumrin.

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. atvmrh. fyrir það, að hann hefir gerzt brautryðjandi á þessu sviði. Fyrsta tilraunin í þessa átt, að nota flugvél við síldarleit, var gerð hér við land fyrir atbeina hæstv. ráðh. Norðmenn hafa komið á eftir og notað þessa aðferð.

Ég þarf ekki að lýsa þeim öru framförum, sem orðið hafa á sviði flugmálanna síðan 1919, þegar fyrsta litla flugvélin var hér í Reykjavík og menn gerðu mikið að því, einn og einn í senn, að fara með henni upp í loftið og svo strax niður aftur, enda var hún ekki hæf til flutninga.

Nýlega hefir verið gerð sú mikla uppgötvun, að fundið hefir verið upp áhald gyrorektor eða viðmiðunartæki —, sem gerir flugvélum mögulegt að fljúga í þoku og athuga, hvað þær eru langt frá jörðu og það, sem er framundan, og gerir það að verkum, að vélarnar geta haldið sér á flugi í loftinu eftir vild, en falla ekki til jarðar, eins og þeim var áður hætt við.

Ég skal taka það fram, að það er ætlazt til, að starfsmennirnir á þessum flugvélum verði íslenzkir, enda hefir þingið áður veitt þeim flestum stuðning úr ríkissjóði til náms erlendis. Og með því er þegar búið að stíga svo stórt spor í þá átt að starfrækja hér flugvélar, að það er ekki rétt að stíga það aftur til baka. Þeim peningum er áreiðanlega vel varið, sem veittir eru til þess að styrkja flugferðir hér á landi, þar sem allar samgöngur á landi eru svo ófullkomnar.

Þá flyt ég ásamt hv. samþm. mínum III. brtt á þskj. 316, um að veittar verði 10 þús. kr. til þess að leggja símalínu frá Efra-Hvoli, um Stóra-Hof og Vestri-Kirkjubæ að Geldingalæk. Ég hafði skilið það svo, að hæstv. stj. væri búin að gefa loforð um, að þessi lína yrði lögð hið allra fyrsta, og vænti ég, að það verði gert. Þess vegna legg ég það til, að þessi tili. verði tekin aftur, í trausti til þeirra ummæla, sem stj. hefir látið falla um þetta.

Aðra brtt. flyt ég ásamt samþm. mínum, sem er sú VI. á þskj. 316, og fer hún fram á, að veittar verði 10 þús. kr. til mælinga og rannsókna á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Ég var áður búinn að tala við hæstv. stj. um, hvort þetta mundi ekki verða framkvæmt, þó það stæði ekki í fjárl. En nú hefir hæstv. atvmrh. lýst því yfir, að réttast sé að hafa þessa upphæð í fjárl., og vænti ég, að það verði samþ., enda þótt ég hefði fyrir mitt leyti treyst því, að þetta yrði gert, þó það stæði ekki í fjárl.