31.01.1930
Neðri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (1135)

33. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég er sammála hv. 1. flm. þessa frv. um það, að ekki sé nauðsynlegt að hefja langar umr. um þetta frv. nú, enda hefir verið útbýtt hér í deildinni í dag öðru frv. um sama efni, sem síðar kemur á dagskrá. Ég geri ráð fyrir, að bæði frv. fari til sömu n. og að reynt verði að vinna að lausn þessa máls, svo sem unnt er.

Hv. 1. flm. frv. spáði því, að ekki mundi fást lausn á gengismálinu eftir till. okkar framsóknarmanna, eins og þingið væri nú skipað. Ég skal ekkert um þetta segja. Má vel vera, að það sé rétt. En þá er að meta þær ástæður í meðferð þessa máls, hvort ekki sé rétt að bíða þess tíma, að þingið verði svo skipað, að till. okkar framsóknarmanna nái fram að ganga.

Ég sé ekki ástæðu til að hefja deilur um þetta mál. Menn eru að ýmsu leyti sammála um aðalatriði þess, og má vera, að samkomulag náist um það í n.