28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (1194)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég sé nú ekki annað en að það sé fremur tilgangslítið að vera að ræða þetta nú, eins og ástatt er, þar sem hér um bil ekkert af þm. er við. Þess vegna skal ég ekkert fara út í málið að þessu sinni.

Það er, eins og ég mun hafa tekið fram við l. umr., að þetta mál er flutt inn í þingið af tveim mönnum úr mþn. eftir minni ósk, og fyrir mér vakti það, að sjálfsagt væri, að þingið fengi þetta mál tit meðferðar, til þess að það gæti sagt álit sitt um þær mismunandi till., sem koma frá mþn.-hlutunum. — Nú hefir meiri hl. fjhn. skilað áliti um þetta frv., og hafa flestir meirihl.menn skrifað undir með fyrirvara. En það er ekki hægt að sjá það, í hverju þessi fyrirvari, a. m. k. sumra nm. liggur. Aðeins einn nm. flytur brtt., sem sé hv. þm. Dal. Sú brtt. er náttúrlega ekkert stórvægileg, svo ef hv. þm. hefir ekkert annað við frv. að athuga heldur en það, sem í till. felst, er ágreiningurinn um frv. ekki mikill. Ég er hv. þm. Dal. sammála um þetta atriði, að annaðhvort verði að stíga sporið fullt, eins og liggur fyrir í frv. sjálfu, eða þá að fara eftir till. hv. þm. Dal., en að till. hv. meiri hl. n. á þskj. 263 séu ekki heppilegar.

Hv. þm. Borgf. hefir líka flutt hér smávægilega brtt. á þskj. 299. Ég sé nú ekki, að það skipti eiginlega neinu máli, hvort sú brtt. er samþ. eða ekki: hér er um svo smávægilega upphæð að ræða, að það getur engu munað. Ég geri þá till. því ekki að ágreiningsefni.

Nú er þetta frv. vitanlega í sjálfu sér stórt mál, og þar sem svo er komið, að það er mjög áliðið þings, þá eru, að mér sýnist, mjög lítil líkindi til þess, að það geti gengið í gegnum þingið. Ég hafði búizt við, að þetta mál kæmi fram í þingbyrjun, en það var orðið nokkuð áliðið, þegar það kom, og auk þess hefir málið tafizt ákaflega mikið af ýmsum ófyrirsjáanlegum ástæðum, og því er nú ekki lengra komið en svo, að það er aðeins tveimur umr. lokið í annari deildinni, þegar litið er eftir af þingtímanum, og þá mætir ekki einu sinni hv. minni hl. með þær miklu aths., sem hann hefir að gera við málið. Það þýðir ekki, að mínu áliti, á þessari stundu að fara neitt nánar út í frv.; ég geri ráð fyrir, að það sé ekki fært að ganga til atkv. um það, þótt umr. kynni að ljúka; ég hygg, að það séu jafnvel ekki nógu margir á fundi (Nokkrir þm.: Jú, jú.), en vitanlega skal ég ekkert hafa á móti því, ef umr. verður lokið nú, að það verði gert, en mér finnst það ekki vera nein sú afgreiðsla á málinu, sem viðunandi sé.