24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Jónsson:

Mér finnst einmitt slík fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Skagf. kom fram með, þurfa að koma fram í sambandi við þetta frv., en ekki veit ég, hvað ég á að segja um svar hæstv. dómsmrh. Nógu langt var það þó. Tvær ræður, drjúglangar. Í fyrri ræðunni svaraði ráðh. engu. Sú seinni var dálítið í áttina til þess að geta heitið svar.

Þetta minnir mig á það, sem maður heyrir sumstaðar til sveita, þegar bóndinn spyr gest, sem að garði ber, hvaðan hann komi. Að vestan, svarar gesturinn. Hvaðan að vestan? Frá Vestfjörðum. Hvaðan helzt? Frá Ísafirði. Það verður að toga og toga, þangað til hæstv. dómsmrh. loksins svarar svo, að svar geti heitið. Ég skora á hæstv. dómsmrh. að bæta ekki gráu ofan á svart með því að neita að segja þinginu, hvað þessi aðstoðarmaður fær í laun.

Hæstv. dómsmrh. talaði vítt og breitt um það, hvað gera þyrfti í skólamálunum. Það er svo sem víðar en þar, sem þörf er á handtaki. Það er sama, á hvaða sviði það er; það þarf alstaðar að gera meira eða minna. Og þó að jafnduglegur maður og hæstv. dómsmrh. er sæti við völd í landinu í 20 ár, yrði jafnmikið að gera eftir sem áður fyrir því. En það dugir ekki, þó að þarfirnar séu margar og miklar, að afsaka bruðlunarsemi sína með því, að það hafi verið svo mikið góðæri, að þurft hafi að koma peningunum í lög.

Hæstv. dómsmrh. gaf það í skyn í síðari ræðu sinni, hvað þessi aðstoðarmaður fræðslumálastjóra fengi í laun, en hinsvegar kom það nokkuð skýrt fram, hve lengi hann á að hafa þetta aðstoðandi starf með höndum. Hann á sem sé að láta af starfinu, þegar fræðslumálastjóri hefir fengið þá aðstoð, sem hann þarf. Þó það nú væri!

Ég hefi annars heyrt, að hæstv. dómsmrh. hafi skipað fleiri aðstoðarmenn en þennan svokallaða yfirfræðslumálastjóra, t. d. mann til að hafa eftirlit með söngkennslu og annan með lestri. Ég veit ekki, hvað hæft er í þessu, en vænti þess, að hæstv. ráðh. upplýsi það. Og mér finnst sem hæstv. dómsmrh. ætti að vera okkur hv. 1. þm. Skagf. þakklátur fyrir það, að við með spurningum okkar gefum honum ástæðu til að skýra frá því, sem hann gerir landinu til sóma.