21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Ég hefi aðeins leyfi til að gera örstutta aths. og þarf heldur ekki meira. Það er í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh. og hv., frsm. n. um brtt., sem ég er við riðinn að þessu sinni.

Hæstv. fjmrh. sagði, að í fyrra hefði ég gefið Alþingi þær upplýsingar, að það væri hægt að leggja veg frá Sandgerði að Stafnesi fyrir 8—10 þús. kr., og hann sagðist hafa litið þannig á, og það hefði raunar komið fram áður, sagði hann, að sú fjárveiting, sem veitt var til þessa vegar 1930, hefði verið lokaveiting og að slík málaleitun myndi ekki koma fram aftur. Frsm. n. tók í sama streng og sagði, að ég hefði flutt boð um þetta. Ég verð að segja það, að þetta er í sjálfu sér kannske afsakanlegt, þótt hæstv. fjmrh. fari rangt með í þessu máli; hann er svo lítið við hér í deildinni, og það jafnvel þótt verið sé að ræða um fjárl., en það er engin ástæða fyrir hv. frsm. n. til að fara rangt með, af því að hann er æfinlega við, þegar verið er að ræða um fjárl. En ég tók það skýrt fram í ræðu minni í fyrra, að ég þættist viss um, að þessi fjárveiting nægði ekki, og hv. frsm. n. lét þá á sér skilja, að hann hefði þá haft réttan skilning á málinu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp nokkur orð úr ræðu minni í fyrra, sem sönnun á þessum ummælum mínum. Ég hefi komizt svo að orði þá:

„Ég vil því færa hv. fjvn. beztu þakkir fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál. Og þótt hún sé að vísu nokkru smátækari en helzt hefði verið kosið, þá vona ég, að menn hafi það í huga, að þetta ber að skoða sem fyrstu fjárveitingu til þessa verks, því ég vona, að menn ljái þessu það fulltingi, sem með þarf, og láti eigi staðar numið á miðri leið“.

Ég veit ekki, hvernig á að orða þetta skýrara. Getur nokkrum manni dottið í hug, að hér sé farið fram á fjárveitingu í eitt skipti fyrir öll eða sé staðar numið á miðri leið með fyrstu fjárveitingu?

Ég hefi ekki á nokkurn hátt farið óhreint að þessu. Það er ekki vani mína.

Það er því ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. og hv. frsm. að drótta því að mér. Þeir sýna aðeins með því, að þeir kannast ekkert við þessar umr., sem þeir eiga að hlusta á og vera við.