14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (1284)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Bernharð Stefánsson:

Ég tek það ekki til mín, sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um, að sumir vildu láta byggja hafnir alstaðar þar, sem einhverjum dytti það í hug. Hér hefir heldur ekkert verið um það rætt af öðrum en honum.

Ég færði nokkur rök fyrir því við 1. umr., að þörf væri fyrir höfn á Dalvík. Enginn hefir fært nein rök gegn því. Báðir hl. n. viðurkenna þörfina, svo að það er ekkert deilumál. Hér er aðeins um það að ræða, hvern stuðning ríkissjóður geti veitt til þess, beint og óbeint. Og því einu hefi ég haldið fram, að afgreiðsla þessara mála eigi að vera í samræmi, þannig, að ríkið veiti hlutfallslega sama stuðning til nauðsynlegra hafna, hvort sem þær eru við Húnaflóa eða Eyjafjörð. ef það telur þörf á höfninni og vill nokkuð stuðla að því, að hún sé gerð.

Hv. þm. V.-Húnv. vék að því sama og í fyrri ræðu sinni, að það væri bryggjugerðir, sem ætti að stefna að, en ekki þetta „tildur“, sem hann kallaði hafnargerðir. Ég er nú loksins farinn að skilja aðstöðu hv. þm. í þessu máli. Í fyrra voru sett hafnarlög í hans héraði, þótt ekki væri það í hans kjördæmi. Þá sýndi hann með atkv. sínu, að hann taldi afskaplega nauðsynlegt, að hafnarlög yrðu sett og hafnir byggðar. En þá var dálítið annað uppi á teningnum hjá honum um bryggjugerðir. T. d. var hann þá á móti tiltölulega litlum styrk til bryggjugerðar í mínu kjördæmi. (SE: Allt hreppapólitík!). Nú er þetta orðið öfugt, þegar búið er að setja lög um höfn á Skagaströnd. Nú eru hafnargerðir alstaðar mesta vitleysa, annarsstaðar en í Húnavatnssýslu, en bryggjugerð á Hvammstanga sjálfsögð. Það þarf ekki meira með. Ég er farinn að skilja hv. þm.

Ég veit, að það hafa oft komið frá þingmálafundum áskoranir um að spara öll möguleg útgjöld. En jafnframt margar kröfur um fjárframlög til þess kjördæmis, sem sparnaðaráskoranirnar hefir sent. Þetta er alveg sama samræmi og kemur fram hjá hv. þm. V.-Húnv.

Út af þeim orðum hv. frsm. meiri hl., að ef stigið væri öfugt spor, hvort þá ætti að stiga þau fleiri, þá vil ég segja það, að ef hv. meiri hl. n. hefir litið svo á, sem virðist eftir þessum ummælum hv. frsm. meiri hl., að það hafi verið rangt að samþ. hafnarlögin um Skagaströnd í fyrra, þá finnst mér, að hann hefði átt að taka annað til bragðs heldur en að ætlast nú til, að hafnarlög verði sett á öðrum grundvelli. Hann hefði þá átt að leggja til, að hin eldri hafnarlög væru numin úr gildi og í þess stað sett heildarlög um hafnargerðir, þannig að samræmi yrði á. Hitt er ekki rétt, að hafnarlögin um Skagaströnd standi, en till. meiri hl. verði samþ. nú. Og því síður er rétt að samþ. till. meiri hl. að því er snertir Dalvík, eftir að búið er að samþ. frv. óbreytt um höfn á Sauðárkróki.

Ég hefði getað hugsað mér aðra lausn þessara mála en að samþ. frv. nú, og verið þó nokkurnveginn ánægður, aðeins ef samræmis og jafnréttis hefði verið gætt.