15.03.1930
Neðri deild: 54. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (1314)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen [frh.]:

Umr. í gær var frestað, þegar ég var að því kominn að fara að minnast á það hlutfall, sem styrkur ríkissjóðs til hafnargerða hefir verið greiddur eftir, og þær breyt., sem urðu á því hlutfalli á síðasta þingi. Það hefir raunar verið minnzt lítilsháttar á þetta í sambandi við hin hafnargerðafrv., sem fyrir liggja, en þar sem sumir hv. dm. eru sífellt að klifa á því, að þær breyt. í þessu efni, sem samþ. voru í fyrra viðvíkjandi hafnargerð á Skagaströnd, hafi verið byggðar á sérstakri aðstöðu, get ég ekki látið hjá líða að minnast enn á þetta. Fyrstu hafnargerðirnar styrkti ríkissjóður að ¼, og það reyndist vera nægilegt til þess að hægt væri að koma upp höfn, t. d. í Reykjavík og Hafnarfirði. En í Vestmannaeyjum hefir sá styrkur ekki reynzt nægilegur. Ég mun síðar víkja að hafnargerðinni í Vestmannaeyjum í sambandi við það, að hún hefir verið dregin hér fram sem grýla, til þess að hræða hv. dm. frá að samþykkja ábyrgðir á hendur ríkissjóði í sambandi við hafnargerðir almennt. — Ég verð að segja, að ég get ekki litið öðruvísi á en að sú breyt., sem gerð var á síðasta þingi, sé hrein stefnubreyt. í þessu máli. Stj. flutti þá frv. um hafnargerð á Skagaströnd á þeim grundvelli, að ríkissjóður borgaði ½, en hinn helmingurinn átti að vera lán úr viðlagasjóði. Þessu var breytt í Ed. og samþ. þar við 2. umr., að ríkissjóður legði ekki fram nema 1/3.

Við 3. umr. var þessu enn breytt svo, að ríkissjóður legði fram 2/5, eins og við höfum nú farið fram á. Þær tilraunir, sem gerðar voru í Nd. til þess að breyta hlutfallinu í 1/3, voru felldar. Það liggja þannig fyrir samþykktir beggja deilda, sem sýna ótvírætt vilja þingsins í þessu efni. Ég held því, að það sé fullkomlega skýrt, að síðasta Alþingi hefir tekið þá stefnu að veita styrk til hafnarbóta í framtíðinni, sem nemi 2/5 kostnaðar. Það nær engri átt, að staðið hafi svo sérstaklega á á Skagaströnd, að nauðsyn bæri til að styrkja hafnargerð þar betur en annarsstaðar. Því hefir verið haldið fram í Ed. af kunnugum mönnum, að þar væri aðallega um viðskiptahöfn að ræða. En útgerðin getur líklega vaxið nokkuð. Hinsvegar er staðurinn ákaflega afskekktur og langt frá miðju héraðsins og því alls ekki ákjósanlegur til hafnargerðar til hagsbóta fyrir héraðið í heild. Ég hefi séð upplýsingar um, að að og útflutningur frá Skagaströnd hafi numið síðustu árin um 800 tn. á ári. Það staðfestir bezt, hversu illa höfnin er sett sem viðskiptahöfn. Og útgerðin er ekki meiri en svo, að síðastl. ár voru gerðir þaðan út 10 litlir vélbátar og aflinn nam 1700 skpd. Ég held því ekki, að hægt sé að halda því fram, að þau skilyrði séu þar fyrir hendi, sem réttlæti það, að veita hærri styrk til hafnar á Skagaströnd en annarsstaðar á landinu. Það varð líka ofan á við atkvgr. í gær um þau hafnarfrv., sem þá voru á dagskrá, að meiri hl. hv. d. lítur á þetta mál þannig, að í fyrra hafi verið lagður grundvöllur að frambúðarhlutfalli í þessu efni. Það er líka eðlilegast, úr því að það er vilji Alþingis að stuðla að nauðsynlegum hafnarbótum, að það sé gert á þann hátt, að nægjanlegt sé til að hrinda mannvirkjunum í framkvæmd. Það hefði því mátt heita undarlegt, ef strax á næsta þingi eftir að búið er að setja reglur um þetta séu þær reglur brotnar, og þar með brotnir á bak aftur möguleikar manna til að koma á þessum nauðsynlegu mannvirkjum.

Ég ætla þá að snúa mér að hafnargerðinni á Akranesi. Þar er svo ástatt, að kauptúnið á engan hafnarsjóð, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að héraðsbúar leggi fram, um leið og verkið er hafið, 220 þús. kr. Það er búið að ræða það mikið innan héraðsins, hvernig þetta mætti takast. Útgerðarmenn hafa lofað að leggja fram allmikið fé, og verkamenn ætla að leggja fram svo og svo mikla vinnu, og enn aðrar leiðir er reynt að finna. Þessi áhugi manna sýnir ljóslega, hversu mikil nauðsyn er á að hrinda þessu í framkvæmd. Ég verð að segja, að mér finnst undarlegt, að nokkur þm. skuli láta sér sæma að reyna að hnekkja framgangi þessa máls hér á þingi. Það hefir verið slegið fram tilbúnum ástæðum og m. a. talað um það, hvílíkur voði geti af því stafað, að ríkissjóður taki á sig allar þessar ábyrgðir. Og þó undarlegt megi virðast, láta þeir hæst, sem frekastir hafa verið að fá ábyrgðir fyrir sín eigin héruð. Það eru einkum 3 hv. þm., sem snúizt hafa öndverðir gegn afgreiðslu þessara mála; fyrst og fremst hv. frsm. meiri hl. n., og ennfremur hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Húnv. Að vissu leyti hefir hv. þm. V.-Húnv. gengið lengst, þar sem hann hefir jafnvel talað á þá leið, að landinu mundi stafa hætta af hafnarbótum og öðrum slíkum framkvæmdum. Ég verð að segja það, að mér finnst framkoma þessa hv. þm. nokkuð undarleg. Þegar hann sá, að hann var búinn að fá samþ. í þessari hv. þd. till. til uppfyllingar þeim óskum, sem hann hefir borið fram um bryggjugerð í sínu héraði, á Hvammstanga, þá snýst hann öfugur gegn þessum hafnarmannvirkjum, sem hér hafa verið til umr.

Hv. þm. V.-Húnv. tók hafnargerðina í Vestmannaeyjum sem dæmi þess, hversu hættulegt það væri fyrir ríkissjóð að binda hann ábyrgðum fyrir lántökum til hafnarmannvirkja. En til skýringar því máli má geta þess, að fyrst og fremst fengu Vestmannaeyingar aðeins ¼ af framlögðum kostnaði við höfnina sem beinan styrk úr ríkissjóði, og í öðru lagi varð að taka á ríkissjóð fulla ábyrgð á lánum til hafnargerðarinnar. Þetta var fyrsta hafnarmannvirkið hér við land, sem gert hefir verið á sjávarströnd fyrir opnu hafi. Við Reykjavíkurhöfn og í Hafnarfirði var allt öðru máli að gegna; þær hafnir eru báðar innfjarða og því ekkert sambærilegt við það, þar sem öldur Atlantshafsins falla óhindraðar og með fullum krafti að ströndinni. Hér vantaði því alla reynslu í því efni, hvað hafnarmannvirki þyrftu að vera traust þar, sem svo stendur á. Danskur verkfræðingur var fenginn til þess að veita forstöðu hafnargerðinni í Vestmannaeyjum, og honum skeikaði hrapallega á því, að hann gerði ekki ráð fyrir, að öldufallið væri eins hamrammt og það reyndist að vera. Hafnarvirkin hafa því alltaf verið að ganga úr sér og bíla, og hefir það valdið miklum aukakostnaði. Óhöppin í Vestmannaeyjum og sá geypilegi kostnaður, sem þar er á orðinn, stafar af þessu.

Hinsvegar er alls ekki rétt að halda því fram, að Vestmannaeyingar geti ekki greitt þessi hafnarlán með tíð og tíma, svo ríkissjóður bíði engan halla af ábyrgðum sínum fyrir þetta mannvirki þar. Og ég vil einmitt í því sambandi benda hv. þm. V.-Húnv. á, hverja þýðingu hafnargerðin í Vestmannaeyjum hefir haft fyrir ríkissjóð, að tekjur hans af Vestmannaeyjakaupstað hafa aukizt úr 71 þús. kr. á ári upp í 570 þús. kr. á þessum árum síðan hafnargerðin var gerð. Án þess að hafa höfn í Vestmannaeyjum væri alveg ógerningur að reka þar slíka útgerð sem þar hefir verið á síðari árum, svo þessi aukning á tekjum ríkissjóðs af Vestmannaeyjum stafar eingöngu af þeim möguleika, sem höfnin hefir skapað. Og þetta á við um fleiri veiðistöðvar en Vestmannaeyjar. Væru fullkomin hafnarmannvirki í veiðistöðvum hér við Faxaflóa, mundu þær vegna bættrar aðstöðu, hliðstætt við Vestmannaeyjar, gefa auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Þannig myndi útkoman verða yfirleitt af hafnabótunum. Þess vegna er engin ástæða til þess að veifa því sem grýlu í þessu máli um áhættu ríkissjóðs, hvern skaða hann hafi beðið vegna ábyrgðarinnar á hafnarlánum Vestmannaeyinga. Þó að hún hafi verið ríkissjóði óvenjulega þungur baggi, þá hefir óbeini hagnaðurinn aukizt stórkostlega, og það bendir skýrast á, hvað hafnarmannvirki eru geysilega þýðingarmikil undirstaða fyrir útveginn og aukna framþróun og velmegun í landinu.

Nokkrir þdm., og þar á meðal hv. frsm. meiri hl., 1. þm. S.-M., hafa haldið því fram í þessum umr., að heppilegast væri að koma skipulagi á þessi mál með því að gefa út heildarlög um hafnargerðir hér við land. Ég get nú ekki skilið, í hverju það liggur, að heildarlög verði heppilegri, ef þau eru byggð á sama grundvelli og sérlög fyrir hverja einstaka höfn, þegar það er fram tekið, að í hvert sinn skuli veita fé til slíkra framkvæmda í fjárl. Þó að samþ. séu sérstök lög um hafnargerð á hverjum stað, þá þýðir það alls ekki það sama og að ákveða útgjöld til slíkra mannvirkja á því ári, sem lögin eru sett. En hin sérstöku hafnarlög innifela það í sér samt sem áður, að lagt skuli fram fé til viðkomandi hafnar úr ríkissjóði samkv. tilteknum hlutföllum og eftir því, sem geta ríkissjóðs á hverjum tíma leyfir. Þess er að vænta, að ríkissjóður geti stutt þessi nauðsynjamál og að það fáist viðurkenning Alþingis fyrir því, að úr ríkissjóði megi í hverjum fjárlögum veita nokkurt fé til hafnarbóta, eins og annara nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Þó að sett verði heildarlög um hafnargerðir, þá hefðu þau ekkert meira gildi en símalögin og vegalögin, sem alltaf er verið að breyta, nálega á hverju þingi.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, að það væri ekki rétt að gera þann mismun á hafnarmannvirkjum og bryggjum, að veita ríkisábyrgð aðeins fyrir hafnarlánum, en ekki fyrir lánum til bryggjubygginga. Fjvn. lagði þetta til, og hefir hv. þm. orðið það að hneykslunarhellu. En ég vil benda honum á, að hafnargerð er miklu kostnaðarsamari heldur en bryggjubyggingar, enda miklu þýðingarmeiri og fullkomnari til afnota. Með hafnarmannvirkjum er það tryggt, að hægt sé að leggja afla á land, og þau eru ennfremur til verndar bátum og skipastól, sem þar hefst við eða leitar skjóls. Þar er og hægt að koma upp nýjum fiskverkunarstöðvum og auka við þær, sem til eru þannig að atvinnuskilyrðin aukist stórkostlega.

Við suður- og vesturströnd landsins háttar víðast svo til, eins og á Akranesi, að stutt er á góð fiskimið, en illmögulegt til sóknar á vetrarvertíðinni, nema skip og bátar hafi aðstöðu til hafnarafnota þar, sem léttast er að sækja á miðin.

Hafnarmannvirki kosta vitanlega miklu meira fé en bryggjur, en afnotin eru líka margfalt meiri en af bryggjum. Þess vegna er fullkomið samræmi í því að veita eigi aðeins styrk til hafnargerða, heldur og ábyrgð á lánum. Án slíkrar ríkisábyrgðar er heldur alls ekki hægt að koma upp dýrum hafnarmannvirkjum, og er hún því óhjákvæmileg. Það er og vitanlegt, að hafnarmannvirki eru nauðsynlegust í þeim veiðistöðvum, þar sem svo hagar til, að aðalvertíðin er um hávetur, þegar náttúruöflin eru grimmust.

Hv. frsm. meiri hl. hefir gert sér mikið far um að benda á þann voða, sem stefnt sé út í með endurteknum heimildum til stj. til þess að binda ríkissjóð ábyrgðum fyrir lántökum til hafnargerða o. fl., og í ræðu sinni í gær komst hann svo langt, að skýra frá því, að hingað hefðu borizt aðvaranir frá erlendum fjármálamönnum, sem Landsbankinn og ríkisstj. hafa viðskipti við, um að ástæða væri til að fara varlega í því efni að binda ríkissjóð ábyrgðum. Ég hefi ekki heyrt um þetta getið áður. En í öðru sambandi hefi ég heyrt talað um verndun á lánstrausti landsins erlendis, og aðvaranir í þá átt, sem hv. 1. þm. S.-M. var þá ekki uppnæmur fyrir, í stærra og alvarlegra máli en því, sem nú liggur fyrir. Það kemur því úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. skuli bera fram aðvaranir gegn ábyrgðum ríkissjóðs fyrir lánum til mannvirkja, sem eru undirstaða undir þróun og framtíð landsmanna. — Það er ennfremur kunnugt, að þessi hv. þm. hefir á þremur undanförnum þingum farið fram á að fá ábyrgð ríkissjóðs fyrir lántöku til margskonar fyrirtækja í sínu kjördæmi. Á Alþingi 1927 fyrir tóvélaverksmiðju á Reyðarfirði, ábyrgðarheimild, sem ég veit ekki, hvort notuð hefir verið; nam hún 25 þús. kr.; á þinginu 1928 flutti 1. þm. S.-M. beiðni um ábyrgð á 125 þús. kr. láni til skólahússbyggingar á Norðfirði. Á þinginu 1929 fékk hv. 1. þm. S.-M. ríkisábyrgð fyrir 80 þús. kr. rafveituláni fyrir Búðahrepp, og á þessu þingi fer hann fram á að fá ríkissjóðsábyrgð fyrir 100 þús. kr. láni til samvinnufélags Eskfirðinga til skipakaupa. Þar bindur hann sig ekki við 1/3 hluta af verði bátanna, heldur ¾ af kostnaðarverði þeirra.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að á síðustu tveimur þingum hafa verið samþ. ábyrgðarheimildir fyrir fullri 1 millj. kr. á hvoru þinginu fyrir sig, og hv. 1. þm. S.-M. hefir lagt blessun sína yfir þær, en engu andmælt.

Hv. þm. sagði hér áður í ræðu sinni, að ríkissjóður væri nú bundinn ábyrgðum fyrir 11 millj. kr., sem að mestu væri fyrir lánum til hafnarmannvirkja. Ég hefi nú leitað mér upplýsinga um þetta efni í stjórnarráðinu, og þegar þetta var athugað síðastl. haust, þá hafði ríkissjóður gengið í ábyrgð fyrir 5548 þús. kr. lántökum. Gamalt máltæki segir, að fáir ljúgi meiru en helming, og það er nú svo, að hv. 1. þm. S.-M. hefir tekizt svona hér um bil að tvöfalda þessar ábyrgðir. Ég veit til þess, að ýmsar ábyrgðarheimildir eru til, sem ekki hafa verið notaðar, og þessar upplýsingar hefi ég fengið hjá skrifstofustjóranum í fjármálaráðuneytinu. Við þetta má að vísu bæta ábyrgðarheimild fyrir 1200 þús. kr. vegna Landsbankans; um þá heimild greiddi hv. þm. atkv. og var henni fylgjandi. Hv. þm. gaf í skyn, að þessar ábyrgðir ríkissjóðs væru að mestu leyti fyrir lántökum til hafnarmannvirkja, sem að ýmsu leyti hefðu orðið vanskil á. En síðastliðið haust voru ábyrgðir ríkissjóðs fyrir lánum til hafnarvirkja 1270 þús. kr. Það var nú allt og sumt.

Með þessum skýringum, sem ég nú hefi gefið, ætlast ég til, að kveðinn sé niður sá draugur, sem hv. 1. þm. S.-M. hefir vakið upp og beitt með ýmiskonar ógnunum, til þess að sporna við því, að ríkissjóður yrði bundinn ábyrgðum samkv. ákvæðum í frv. þeim, sem. fyrir þinginu liggja um hafnargerðir. Þar sem hann hefir látið mjög ákveðin ummæli falla í þessa átt í umr. um hin hafnarlagafrumvörpin, þá fannst mér skylt að láta þessar upplýsingar koma fram nú.

Þriðji maðurinn, sem hreyft hefir andmælum gegn þessum hafnarlagafrv., á þeim grundvelli, sem þau eru flutt, er hv. 4. þm. Reykv. Hann komst þannig að orði um okkur flm. þessara frv., hv. þm. Skagf., hv. 2. þm. Eyf. og mig, að við flyttum þessi frv. með tilliti til þess, að ef við fengjum þau samþ. í þinginu, þá þættumst við standa með pálmann í höndunum gagnvart kjósendum okkar og værum að viðra okkur upp við þá. Þetta voru nú þær hvatir, sem hann ætlaði okkur. Hv. þm. gat ekki ímyndað sér, að meiri alvara væri á bak við þennan málaflutning okkar né aðrar hvatir en þessar. Engum var betur trúandi til þess en honum að túlka þannig sinn eiginn hugsunarhátt; hann má bezt vita, af hvaða hvötum hann berzt fyrir málum. En hv. þm. skjátlast algerlega um tilgang okkar. Okkur er vel ljóst, hvað mikið veltur á þessum mannvirkjum fyrir framfarir atvinnuveganna í landinu, og þar kemst engin fordild að.

Þegar hv. þm. tók fyrst til máls um þessi hafnarlagafrv., áður en nokkur atkvgr. fór fram um þau, þá var tónninn í ræðum hans á þá leið, að hann spurði, hvort einstökum þm. ætti að liðast það að fara svo djúpt niður í vasa þjóðarinnar til fjárframlaga eins og gert væri með þessum frv. okkar. Ég skal ekkert útlista, hvað í þessu muni felast. En ég vil aðeins vekja athygli hv. þdm. á þeim hugsunarhætti, sem á bak við þetta er, ef þeir hafa ekki tekið eftir honum áður. Eins og nú standa sakir í þessum efnum, þá eru hafnarmálin, eins og ég hefi áður lýst, einhver hin mestu nauðsynjamál þjóðarinnar. Og á þeim stað, sem hér er átt við, á Akranesi, kallar þörfin svo á eftir þessum framkvæmdum, að ég vænti þess fastlega, að hv. þm. verði sammála um að veita þann stuðning, sem þarf, til þess að gera það kleift fyrir Akranesbúa að hrinda þessu máli í framkvæmd. En ef ekkert er gert og engar umbætur fást á þessu sviði, þá verður dregið svo úr framkvæmdahug og framfaramöguleikum á þessum stað, ekki einungis á sviði sjávarútvegsins, heldur og á sviði landbúnaðarins, að framtíð héraðsins, sem liggur að Akranesi, er mjög óviss. Verði höfnin ekkert bætt frá því, sem hún er nú, þá verður ómögulegt að auka útgerðina heima fyrir, auk þess sem hún er nú mjög óviss, vegna þess hvað bátalegan er slæm á staðnum og innsigling fyrir báta hættuleg í brimi. Og það kemur líka ósjaldan fyrir, að bátar verða að hverfa frá og leita nauðlendingar annarsstaðar. Þá er ekki í annað hús að venda en að reyna að komast til Reykjavíkur. Ég geri nú ráð fyrir, að hv. þdm. geti gert sér ljósa grein fyrir því, hversu notalegt það er fyrir sjómennina, sem komnir eru að landi eftir nær sólarhrings svalk við að leggja og draga línuna, og oft í vondum veðrum og úfnum sjó, að verða að hverfa frá og freista þess upp á líf og dauða að ná höfn langt fjarri heimilum sínum og sifjaliði. Ég vænti þess, að hv. þm. geti sett sig í spor þessara manna og aðstandenda þeirra, sem alvara lífsins leikur tíðum svo grátt. Það er næsta napurt fyrir heimilisföðurinn, sem leggur að landi með björgina til heimilisins, að eiga þess að síðustu engan kost að ná heim til konu sinnar og barna, heldur hleypa undan sjó og veðrum þangað, sem einhver von er um að ná lendingu. Það er sannarlega enginn barnaleikur, sem er hlutskipti sjómanna við Faxaflóa; það er hinn grimmi leikur lífs og dauða, geigvænlegt stríð við hatrammar höfuðskepnur.

Ég vil svo að lokum mega vænta þess, að hv. d. taki þessu máli vel og geri því sömu skil og hinum hafnarfrv., og láti það ganga greiðlega í gegn. Ef frv. verður samþ. á þeim grundvelli, sem það er flutt á, þá er ég þess fullviss, að með því er lagður grundvöllur að skynsamlegri framkvæmd og bygging þeirra mannvirkja, sem í framtíðinni munu verða ríkinu til tekna og atvinnulífinu til farnaðar og heilla.