17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í C-deild Alþingistíðinda. (1350)

110. mál, ábúðarlög

Hákon Kristófersson:

Ég ætla ekki að hefja langar umr. um þetta mál, en ég hefði þó búizt við, að þessu að sumu leyti merkilega máli yrði fylgt með meiri röggsemi úr hlaði en hv. flm. gerði. Það má nú að vísu segja, að þetta sé gamall kunningi, en mér finnst það hálfskrítið, að þeir menn, sem álíta málið svo þýðingarmikið, skuli ekki hafa komið með það fyrr fram á þingi, því að senn hvað líður mun það nú hálfnað. Þetta sýnir, að hugir manna eru ekki óskiptir í þessu máli og framkvæmd þess.

Ég hefði kunnað betur við — og bjóst satt að segja við því —, að hæstv. stj. hefði borið þetta frv. fram, þótt flm. séu að vísu góðir. (MG: Þeir eru alveg eins góðir). Flm. eru alveg eins góðir og hæstv. stjórn, segir hv. 1. þm. Skagf., og ég verð að segja, að það er ekki lítið hrós frá þeim manni, því að allir vita, hvaða álit hann hefir á núv. stjórn!

Það er látið svo, sem þetta frv. sé flutt að tilhlutun hæstv. stj., og það má svo vera, af því að það eru mætir menn, er segja slíkt, en grunur minn er sá, að vilji hæstv. stj. standi ekki óskiptur þar á bak við. Það mun koma fram við umr. þessa máls annaðhvort fyrr eða síðar, hvort þetta hugboð mitt er á rökum byggt eða ekki.

En væri nú svo, að hæstv. atvmrh. væri frekar mótfallinn frv. í þessari mynd, þá furðar mig á því, að hann skuli ekki standa hér upp og mótmæla því, að frv. sé flutt að ósk hans. Ég vil benda á það nú, að sú hv. nefnd ætti að fá sér lögfróða menn til aðstoðar, sem úrskurðuðu um það, hvort engin ákvæði fælust í þessu frv., sem í það minnsta stöppuðu nærri því að vera stjórnarskrárbrot.

Mér er kunnugt um það, að frv. með þessu efni og formi á marga andúðarmenn á landi hér, og almennt hygg ég, að við því hafi verið búizt, að þetta frv. myndi ekki koma hér fram aftur án breytinga frá því, sem það var á síðasta þingi. En ég fæ ekki séð, að því hafi verið breytt að nokkru verulegu leyti, og ég þykist viss um, að þau umbótaákvæði, sem í frv. þessu kunna að felast, muni missa þess marks, sem þeim er ætlað að hæfa.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, en vil aðeins geta þess, að ég fæ ekki betur séð en að þetta frv. sé sami gallagripurinn og hér var á ferðinni í fyrra. Ég treysti því, að hv. deild og nefnd geri sitt til að lagfæra frv. þetta, enda hygg ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að meiri hluti landsmanna sé mér sammála um gallana.

Ég læt svo úttalað um málið, en get ekki annað en lýst yfir undrun minni á því, að hæstv. ráðh. skuli ekki láta eitt orð frá sér heyra, og grunur minn er sá, að viðkomandi ráðh. álíti ýms ákvæði frv. miður holl. Hinsvegar er nú orðið svo áliðið þings, að við því má búast, að frv. muni daga uppi, og þá verð ég að segja, að mér finnst illa varið fé og tíma þingsins með því að vekja upp slíka drauga.