05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (1377)

136. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. þm. V.-Húnv. Hann talaði um, að það væri heppilegast, að búnaðarfélögin væru byggð upp að neðan og grundvölluð á frjálsum samtökum bænda. Það er ekkert sem þetta snertir, í frv. og þess vegna er alveg ótímabært að tala um það. Aðstaða hinna smærri búnaðarfélaga í hreppunum til Bf. Ísl. breytist ekkert; þau komast ekki í meira samband við Bf. Ísl., þó að breytt verði um aðferð til stjórnarkosningar. Það mun því vera bezt að lofa þessu frv. að deyja, en það kemur út á eitt, hvort hv. þdm. láta það verða deginum fyrr eða seinna.

Það sannar ekkert um allsherjarálit Búnaðarþings, hvernig milliþinganefndin ein lítur á þetta mál; ég skal benda hv. þm. á það, að þegar Alþingi hefir kosið mþn., þá hefir ekki komið fram sameiginlegt álit Alþingis í till. milliþinganefnda, heldur jafnvel hið gagnstæða stundum. Þetta frv. sannar því ekkert um vilja Búnaðarþings í málinu.

Ég var áður búinn að hrekja hv. þm. Mýr. úr því vígi, að Búnaðarþingið hefði verið mjög óánægt þegar þessi stjórnskipunarfyrirmæli voru samþ. 1923. Ég veit að vísu ekki, hversu mikil óánægja kann að hafa búið í þögninni, en ekkert kom fram opinberlega annað en það, að samkomulagið væri hið bezta á milli Búnaðarþings og Alþingis um þetta mál. — Í umr. á Alþingi 1928 um breyt. á jarðræktarlögunum eða í skjölum mþn. verður ekkert fundið, sem bendir til þess, að það hafi átt að breyta mati á jarðabótadagsverkinu í þá átt, að styrkurinn yrði lækkaður. Þá var því slegið föstu, á hvaða styrk bændur mættu eiga von út á hvert dagsverk, og var styrkurinn yfirleitt aukinn, á þann hátt, að hann var líka veittur til kaupa á jarðræktarverkfærum. — Verðlagsskrá er reiknuð eftir allt öðrum grundvelli en jarðabótadagsverkið. Hafi hv. þm. nokkurntíma samið verðlagsskrá, þá hlýtur hann að vita, að kaupgjaldið er mjög lítill liður í verðlagsskrárgrundvellinum:

Ég vil mótmæla því, að bændur standi eins vel að vígi eftir þessar breyt. á dagsverkinu og áður, þegar miðað er við jarðabótastyrkinn, því að það er alkunnugt, að síðastl. ár hækkaði kaupgjald í landinu. En þó að aðstaða bænda til jarðabóta hefði batnað, sem ekki er, hvers vegna þurfti þá að sporna við því? Að vera með slíkan orðhengilshátt út af jarðabótastyrknum og halda því fram, að hann hafi ekki verið lækkaður, er með öllu óframbærilegt. Það er engrar undankomu auðið fyrir hv. þm.Mýr. á þann hátt.