24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í þetta skifti mun ég aðeins taka til athugunar útjaðrana í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (MJ), en geyma mér þangað til í kveld að svara ýmsum öðrum atriðum úr henni, þegar fleiri hv. þm. eru búnir að víkja að því sama. Hv. þm. talaði aðallega um embættaveitingar stjórnarinnar, og hélt því fram, að þar væri eingöngu farið eftir pólitísku flokksfylgi eða persónulegu. — Ég vil í þessu sambandi minna á það, þegar hv. 3. landskj. var fjármálaráðherra, og lét fara fram mat á Landsbankanum, þá var matsnefndin eingöngu skipuð flokksmönnum stjórnarinnar og á meðal þeirra var mesti fjandmaður bankans, Björn Kristjánsson, sem áður hafði með ofsóknum og árásum á bankann í ræðu og riti sýnt fullan vilja á því að vinna honum tjón.

Þegar fundið var að þessu vali á mönnum í matsnefndina, sagði hv. 3. landskj. (JÞ), að það stafaði af því, að þáverandi stjórn hefði ekki talið neinn mann til þess hæfan í andstöðuflokki stjórnarinnar, að vinna slíkt verk. Ég skal ekki fara lengra út í þetta nú, en vil aðeins geta þess, að úr því að íhaldsstjórnin fylgdi svo nákvæmlega þessari reglu, að finna ekki hæfa menn til vandasamra starfa nema í sínum eigin flokki, þá þarf hv. þm. ekki að vera neitt hissa á því, þó að núverandi stjórn treysti samflokksmönnum sínum betur til þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum, sem hún þarf að skipa menn til, heldur en Morgunblaðsmönnum. En þó hefir það oft komið fyrir, að hún hefir falið stjórnmálaandstæðingum sínum sérstök opinber störf, og sýnt með því meiri mildi gagnvart andstæðingum heldur en fyrrverandi stjórn. Hv. þm. talaði talsvert um Þingvallamálin og undirbúning alþingishátíðarinnar. En í hátíðarnefndinni, sem skipuð er mönnum úr öllum þingflokkum, eigum við báðir sæti. Hefir þar verið hið bezta samkomulag um undirbúning hátíðarinnar á Þingvöllum. Mér finnst að það hefði verið viðkunnanlegra fyrir hv. þm. að geyma slíkar aðfinnslur, þangað til að nefndin hefir lokið störfum sínum, eftir nokkrar vikur, en vera ekki að flytja hér inn í þingið missagnir um störf nefndarinnar, og það sögur sem hv. þm. veit að eru með öllu rangar. Í hátíðarnefndinni á hv. þm. að taka fyrir þessi atriði, sem nefndinni einni kemur við, og hún á að skera úr sjálf, að meira eða minna leyti. Ef ég færi að bera hér út um hann í þinginu ýmislegt broslegt, sem komið hefir fram hjá honum í nefndinni, þá býzt ég við að honum þætti það ekki viðeigandi, enda mun hvorki mér eða öðrum samnefndarmönnum hans koma það til hugar. Hv. þm. þóttist fá tilefni til þess, í sambandi við Þingvallanefndina, að halda því fram, að það væri einhver „tendens“ hjá mér, að færa ýmiskonar eyðslu eða útgjöld á kostnaðarreikning við undirbúning hátíðarinnar, sem kæmi henni ekkert við. En það hefir ekki við neitt að styðjast.

Ég ætla síðar að minnast á það, hvaða lífsskoðanir koma fram í sambandi við þetta. Þingvallamál hjá talsmönnum flokkanna. Um það er fyrst deilt, hvort Þingvellir eiga að vera ruslakista Reykjavíkur eða helgistaður allra Íslendinga. Ég efast ekki um, að hv. 1. þm. Reykv. sé í hjarta sínu hlynntur því, að Þingvellir verði helgistaður þjóðarinnar. — Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið farið fram hjá Þingvallanefndinni um framkvæmdir viðvíkjandi vegum og brúm á Þingvöllum; en hann getur deilt um það við flokksbræður sína og fulltrúa nefndarinnar, formanninn Jóh. Jóh. og framkvæmdarstjórann Magnús Kjaran. Ég veit ekki betur en að nefndin hafi falið vegamálastjóra yfirumsjón með öllum vega- og brúargerðum og beðið húsameistara, í samráði við framkvæmdastjórann, að sjá um húsin og útvegun á byggingarefni. Og ef það er meiningin að áfella þessa tvo menn fyrir vegabæturnar og aðrar framkvæmdir er snerta húsin á Þingvöllum, þá koma þær ásakanir fyrst og fremst niður á hátíðarnefndinni og sérstaklega framkvæmdastjóra hennar. En í raun og veru er engin ástæða til slíkra ásakana. Sama máli gegnir um bókfærslu á reikningum eða greiðslum úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. — Ef það hefði átt að ávísa öllu því fé, sem varið hefir verið til vega-, brúa- og húsagerða á Þingvöllum — fyrst til formanns nefndarinnar og framkvæmdastjóra og svo aftur frá þeim til vegamálastjóra og húsameistara, þá hefði það sennilega verið óþarflega margbrotið. Það hefir enginn í hátíðarnefndinni ætlazt til þess að slíkt væri gert. — En það eru tveir liðir í þessum reikningum, er hv. þm. nefndi, sem mér skilst að þar séu ranglega tilfærðir. Og skal ég játa, að það hefði átt að leiðrétta það, en mér var ekki kunnugt um þetta fyrri en ég heyrði hv. þm. geta um það í ræðu sinni.

Það kemur vitanlega ekki til mála, að telja hið nýbyggða prestssetur á Þingvöllum á kostnaðarreikningi alþingishátíðarinnar. Ég átti tal um þetta við húsameistara í gær, og sagði hann þá, að það mundi rétt vera, að endurbygging Þingvallabæjarins væri bókfærð undir öðrum lið en ætti að vera.

Um hitt atriðið var mér einnig ókunnugt, að fjárgreiðsla til Laugarvatnsskólans, sem húsameistari hafði yfirumsjón með, hefði verið færð á reikning Þingvallahátíðarinnar. Annars hafði húsameistari um 20 hús síðastl. sumar, sem hann varð að sjá um útboð á, efni og vinnu. Það væri með öllu óhugsandi, að hann geymdi peningana til hverrar byggingar í sérstökum peningakassa. Hann hefir vitaskuld sameiginlegan sjóð fyrir allar byggingar, en sérstakt bókhald fyrir hverja þeirra. Síðan jafnast greiðslurnar upp úr áramótum hjá honum og ríkisbókara, alveg eins í þessum tilfellum og öðrum. Húsameistari og ríkisbókari hafa reynt að láta Mbl. leiðrétta þessar missagnir blaðsins og samherjanna, en það tókst ekki. Úr því að íhaldsmönnum þykir ástæða til að blása svona fjárstæðu upp, þá seilast þeir langt til loku.

Háttv. 1. þm. Reykv. sagði, að við sem erum í Þingvallafriðunarnefndinni, ég og háttv. 1. þm. Skagf. og 4. landskj. þm., hefðum leikið á hátíðarnefndina með húsaflutninginn á Þingvöllum. Hv. þm. veit, að meiri hluti nefndarmanna voru sammála um að færa húsin, og flestir játa nú, að það hafi verið bæði þarft og gott. Vitanlega varð að gera það á kostnað ríkisins. Háttv. þm. er í raun og veru ánægður yfir því sjálfur, að húsin voru flutt; og úr því að það var rétt að gera þetta, þá var sjálfsagt að framkvæma það nú rétt fyrir alþingishátíðina, heldur en að fresta því eitthvað lengur, og halda Þingvelli í niðurlægingar ástandi á þessu merka afmæli, þegar þangað koma flestir gestir.

En það var eitt atriði, sem háttv. þm. virtist ekki gera sér ljóst, um þörf fyrir hina nýlögðu vegarspotta á Þingvöllum. Eins og honum mun vera kunnugt, þá hafði formaður hátíðarnefnd. Jóh. Jóh., uppástungu að því, að hinn nýi vegur var lagður yfir Mosfellsheiði til Þingvalla. Sá hv. þm. hélt því fast fram í ræðu í Ed., að hann vildi ekki vera í nefndinni og bera ábyrgð á þeim bílslysum, sem áreiðanlega myndu verða mörg, ef flytja ætti 20 þús. manna á 3 dögum fram og aftur frá Þingvöllum, eftir hinum gamla og lélega Þingvallavegi. Þetta var réttmæt skoðun og í samræmi við hana var ráðizt í dýrustu framkvæmdina við hátíðina, veg til Þingvalla fyrir 300 þús. kr. Þessi vegur, sem að vísu átti að byggja síðar, hefir nú fengizt fyrr en ella myndi. Og þó að ýmsir segi sem svo, að það hefði verið meira gagn og gaman að því, að hafa þennan veg annarsstaðar á landinu, þá held ég að allir séu nú samt ánægðir með hann. — Þá var háttv. 1. þm. Reykv. að gagnrýna það, að vegur hefir verið lagður frá völlunum upp að fossinum og einnig að tjaldastaðnum norðan við Þingvelli. Ennfremur var hann óánægður yfir því, að vegur var lagður sunnan við Þingvallatún og brú gerð þar yfir ána, svo að komizt yrði að Valhöll, sem vitanlega var óhjákvæmilegt eftir að búið var að flytja húsið, enda hefir enginn ágreiningur orðið um það í Þingvallanefndinni. Mér skilst, að það sé eðlilegast, að kostnaðurinn við þessar vegalagningar á Þingvöllum verði bókfærður ásamt nýja Þingvallaveginum, og greiddur með því láni, ef með þarf. Menn verða þó að komast frá aðalveginum, eftir þessum þremur vegaspottum heim að tjöldunum, Þingvallabænum og gistihúsinu.

Ég veit ekki betur en að þegar hafi farið fram glöggir samningar á milli forsætisráðherra og framkvæmdarstj. hátíðarnefndarinnar annarsvegar og útlendra aðila hinsvegar, um prentun á hátíðarfrímerkjunum, og að hinn mikli gróði, sem væntanlega fæst af sölu frímerkjanna, minnispeninga og af ýmsum leyfum í sambandi við hátíðina, ca. 700 þús. kr., gangi upp í þá „ópródúktivu“ eyðslu í sambandi við hátíðina.

Það er svo ótalmargt, sem nauðsynlegt er að laga á Þingvöllum; og hvað er þá eðlilegra, ef landið græðir eitthvað á hátíðahöldunum, en að því sé þá varið til þess að prýða hátíðarsvæðið og fegra Þingvelli? — Vegina þurfti að gera hvort sem var, fyrr eða síðar, og þeir eru varanleg eign. Og þó að flutningurinn á húsunum sé kostaður af „lotteri“-gróða hátíðarinnar, þá er það vel við eigandi.

Þá minntist háttv. 1. þm. Reykv. á, að Þórði Sveinssyni lækni hefði verið vikið frá forstöðu búsins á Kleppi. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál nú. Það verður síðar sýnt fram á, að þetta var aðeins gert með hagsmuni búsins fyrir augum. En í sambandi við þetta má benda á, að um sama leyti sparka íhaldsmenn hér í bænum Þórði Sveinssyni út úr bæjarstjórninni, þó að hann vildi vera þar kyrr og hefði verið sauðspakt atkvæði borgarstjóra. Hvers vegna? Er það ekki af því, að þeir treystu honum ekki lengur? — Hvers vegna eru þeir þá að furða sig á því, þó að búsforstaðan sé tekin af honum, þegar það liggja fyrir athugasemdir og aðfinnslur um rekstur búsins og reikningsfærslu bústjórans frá endurskoðendum landsreikninganna síðan 1923, er Hjörtur Snorrason var endurskoðandi, og aldrei hefir fengizt úr bætt.

Ég hleyp þá hér yfir nokkur atriði og kem að „Esju“-útgerðinni. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég hefði skrifað grein fyrir nokkrum árum, þar sem ég hefði haldið því fram, að ferðir Eimskipafélagsins og strandferðirnar yrðu tengdar í eitt kerfi. En þá bjóst ég ekki við, að þeir menn ættu sæti í stjórn Eimskipafélagsins, sem, eins og hv. 3. landsk., hafa beitt sér á móti auknum og bættum strandferðum. Hann hefir ávalt haft ótrú á strandferðunum og sýnt þeim óvináttu. Þegar „Esja“ var byggð, skrifaði hv. 3. landsk. blaðagrein, þar sem hann hélt því fram, að „Esja“ ætti að hafa stórt lestarrúm með lausum milligerðum fyrir farþega, svo að hægt væri að nota skipið til fiskflutninga til Spánar á vetrum. Ég átti minn þátt í því, að „Esja“ var miðuð við íslenzka menn en ekki íslenzkan þorsk. Síðar, þegar rætt var um að byggja nýtt strandferðaskip, þá leggst hv. 3. landsk. á móti því og flokkur hans, og með hinni mestu frekju.

Eimskipafélagið hefir aldrei viljað taka að sér strandferðirnar, nema ríkið kostaði þær að öllu leyti. Því er það, að ég er nú með því, að strandferða- og varðskipin séu gerð út sérstaklega, meðan svo hagar til. Stjórn Eimskipafélagsins hefir ótrú á strandferðunum, en ríkisstjórnin hefir trú á þeim. Við viljum reyna þessa breytingu, til að fá fjörugri strandferðir. En ef breyting verður á hugsunarhætti þeirra, er stjórna Eimskipafélaginu, um nytsemi strandferða og velvild til þess máls, mun ég snúa til minnar fyrri skoðunar.

Landið hefir nú tvö strandferðaskip, tvö varðskip og eitt vitaskip. Árseyðsla varðskipanna tveggja nemur nú um 500 þús. kr. Það skiptir því eigi litlu máli, hvort þessi útgerð er rekin vel eða illa. Síðan Íhaldsflokkurinn lét af völdum, hefir tekizt að spara 20 þús. kr. á útgjöldum varðskipanna með breyttu fyrirkomulagi á fæði. Brytarnir fengu áður kr. 4,50 á dag fyrir manninn, og var þeim þó lagt til eldhúsgögn, borðbúnaður og eldiviður. Allir sjá, að ekki nær nokkurri átt, að taka kr. 4,50 fyrir efnið í dagsfæði eins manns. Nú hefir þessu verið breytt þannig að 20 þús. kr. sparast á ári, og þó hefir fæðið ekki versnað. En brytarnir græða ekki eins og áður. Á „Esju“ var sama fyrirkomulag. Brytinn seldi fæðið sjálfur og fékk ákveðið gjald á hvern skipsmann. Talið er að sumir brytar hafi grætt um 30 þús. á ári. Næstum alstaðar annarsstaðar en hér reka félögin sjálf fæðissöluna. Þarf ekki annað en að benda á Sameinaða félagið. Nú rekur ríkið sjálft fæðissöluna á „Esju“, og lítur vel út fyrir, að góður ágóði verði á henni, og kemur það sér ekki illa upp í þær 200 þús. kr. sem íhaldsmenn hafa jafnan talið sjálfsagðan tekjuhalla á Esju.

Þá kem ég að síðasta atriðinu, um veitingu útvarpsstjóraembættisins. Hæstv. forsrh. hefir að vísu borið fram nægileg rök fyrir þeirri veitingu, en ég vil þó bæta nokkrum orðum við. Í þessa stöðu þurfti fyrst og fremst gáfaðan mann, og mann, sem þekkti hinar dreifðu byggðir landsins, þarfir og óskir og þroskaskilyrði þeirra, sem í dreifbýlinu og smáþorpunum búa. Rvík græðir að vísu á útvarpinu, en lítið í samanburði við hinar afskekktu og samgöngulausu byggðir. Jónas Þorbergsson skilur stórum betur en nokkur hinna umsækjendanna, að þeim annars ólöstuðum, líf, þarfir og óskir þeirra manna, sem þar búa, og hefir tekið manna mestan þátt í þeirri hugsjónabaráttu, að gera dreifbýlið lífvænlegan dvalarstað menntaðra manna. Það er enginn að segja, að Magnús Jónsson undir Jökli sé betri en Magnús Jónsson í Reykjavík. En útvarpið kemur að meira gagni fyrir þann fyrnefnda, en fyrir nafna hans í Reykjavík. Þeir, sem vænta sér mests góðs af útvarpinu og munu mest gott af því hljóta, munu fagna því, að í þessa stöðu hefir verið settur maður, sem bezt þekkir kjör og hugsunarhátt sveitanna og hefir í einu vit og vilja til að vinna fyrir þeirra hag.