06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í C-deild Alþingistíðinda. (1510)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að þetta mál var í menntmn. á þinginu 1928. Samt sem áður felli ég mig vel við till. hv. flm., að vísa því til fjvn. Það stendur nú svo á, að sú n. er nálega búin að ljúka störfum sínum, að afgr. fjárl.frv. Þess vegna virðist mér hún hafa nægan tíma til að athuga þetta mál, og trúi ég n. mjög vel til þess. Það er ekki hægt að neita því, að eðlilegast er, að svo stórt framlag sem þetta verði borið undir fjvn., enda ætla ég, að það hafi verið gert á þinginu 1928, þótt sú n. fengi það ekki beinlínis til athugunar. Mér finnst því réttast, að þessu máli sé vísað til fjvn., án þess þó ég vilji gera þetta að kappsmáli.

Það er sjálfsagt rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það þyrfti að breyta orðalagi frv., og skal ég því ekki fara frekar út í það. Ég vil aðeins beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að hún útvegi sér upplýsingar um það, hvað fyrir sig hefir gengið í þessu máli. Fyrst svo stendur á, að ráðh. sá, sem mál þetta heyrir undir, getur ekki verið hér við, er sjálfsagt, að n. afli sér þessara upplýsinga. Ég segi þetta ekki af því, að ég á nokkurn hátt rengi það, sem hv. flm. hefir sagt um afskipti hæstv. dómsmrh. af þessu máli, heldur vegna þess, að hér er enginn til andsvara af hans hálfu. Þó veit ég ekki nema hæstv. forsrh. geti gefið einhverjar upplýsingar í þessu máli. (Forsrh.: Mér er málið alveg ókunnugt). Fyrst hæstv. forsrh. veit þetta ekki, er enginn úr stj. hér, sem geti tekið til andsvara í málinu. Skal ég því ekki fara frekar út í það hér, en áskil mér rétt til þess, þegar málið kemur frá n. Vona ég, að n. komi þá með upplýsingar um allt, sem gerzt hefir og máli skiptir.