12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég vil byrja með því að segja nokkur orð fyrir hönd samgmn. N. hefir borið fram eina brtt. við þennan kafla fjárl. (þskj. 270,I), og er gerð nokkur grein fyrir þessari till. í nál., sem prentað er á þskj. 261.

Eins og að undanförnu hafa n. borizt margar óskir um aukinn styrk til flóabátanna, en n. sá sér ekki fært að taka þessar óskir til greina. Bæði er nú það, að n. vill gæta allrar hófsemi um fjárframlag úr ríkissjóði, og auk þess hefir n. ekki getað fengið fullnægjandi upplýsingar um starfsemi nema nokkurra flóabátanna. N. hefir hvað eftir annað óskað eftir því frá þeim, sem halda þessum bátum úti, að þeir gerðu nauðsynlega grein fyrir starfsemi bátanna, en n. hefir lítið sem ekkert orðið ágengt um að afla sér þessara upplýsinga. Aðeins þrjú bátafélög, Djúpbáturinn, Flateyjarbáturinn og Hvalfjarðarbáturinn, hafa sent n. reikninga og áætlanir. En til þess að n. sé þess megnug að gera sér grein fyrir nauðsyninni á auknum styrk til flóabátanna, þarf hún að fá í sínar hendur til athugunar rekstrar- og efnahagsreikninga þeirra, fargjalds- og farmgjaldsskrár, ferðaáætlanir og skýrslur um flutningsmagn og farþegafjölda. Til þess að herða á hlutaðeigandi bátafélögum í þessu efni, leyfir n. sér að mælast til þess við ríkisstj., að hún borgi ekki út síðasta fjórðung styrksins til þessara báta, fyrr en henni hafa borizt áðurnefnd skilríki í hendur. Þess skal getið, að ekki þykir ástæða að setja þetta sem skilyrði fyrir útborgun styrks til hinna smærri báta, heldur nær þetta einungis til stærri bátanna, en þeir eru þessir: Borgarnesbáturinn. Djúpbáturinn, Hornafjarðarbáturinn, Eyjafjarðarbáturinn og Flateyjarbáturinn. Hafa aðeins þrír af þessum bátum, eins og ég áður tók fram, sent n. reikninga sína og áætlanir, en hinir bátarnir hafa enga skýrslu gefið, svo að engin vissa er fyrir því, að þeir hafi farið þær ferðir, sem samið var um, að þeir skyldu fara. Það virðist ef til vill nokkuð hart að borga bátafélögunum ekki út nema 3/4 styrksins, ef þau fullnægja ekki þessu skilyrði um að senda skýrslu um starfsemi sína, en nefndin sér ekki aðra leið til að knýja fram nauðsynlegar upplýsingar.

Það verður varla sagt, að n. hafi gert neinar brtt. við þá fjárveitingu, sem stj. hefir áætlað til bátaferða að þessu sinni, þar sem hún leggur til, að fjárhæð sú, sem stj. gerir ráð fyrir í þessu skyni, hækki úr 90.000 kr. upp í 91.200 kr. Að öðru leyti er ekki um neinar brtt. að ræða frá hálfu n., nema hvað hún leggur til, að framlagið til Borgarnesbátsins verði 31.000 kr., gegn því að báturinn fari 10 ferðir til Breiðafjarðar; í stað 8 nú. Ef hægt verður að koma Borgarnesbátnum meira við um Breiðafjarðarferðir en nú er, er um mikinn sparnað að ræða fyrir ríkissjóð, með því að þá er hægt að draga úr ferðum Esju til inn-Breiðafjarðar, en Esja er mjög dýr í rekstri, svo sem kunnugt er, svo að það sparar ríkissjóði útgjöld, ef hægt er að spara í rekstri hennar. Þeir forstjóri Suðurlandsfélagsins og útgerðarstjóri Esju hafa komið sér saman um, hversu haga skuli ferðum Borgarnesbátsins um Breiðafjörð, svo að vænta má alls hins bezta um þessa tilhögun. Jafnframt væntir n. þess, að nokkuð megi spara í framtíðinni með því að stækka siglingarsvæði nokkurra flóabáta, svo sem Djúpbátsins og Hornafjarðarbátsins, og jafnvel Breiðafjarðarbátsins líka. Þó hefir n. ekki séð sér fært að bera fram neinar ákveðnar till. í þessu efni enn sem komið er. Þó skal ég geta þess, að n. hefir við fljóta yfirvegun sýnzt, að heppilegast væri að einn bátur stundaði allar ferðir um Breiðafjörð með endastöð í Stykkishólmi, á sama hátt og Djúpbáturinn annast allar ferðir innan N.-Ísafjarðarsýslu. Hinsvegar bjóst n. við, að slík till. mundi, ef fram kæmi, mæta mótspyrnu, og þótti því ekki ráðlegt að slá neinu föstu í þessu efni nú. Þá var n. það einnig ljóst, að ýmsum héruðum er hin mesta þörf á að fá betri og hentugri farkosti en þau nú hafa, og að nauðsynlegt er að endurnýja ýmsa flóabátana, svo sem Djúpbátinn, en vegna ónógs undirbúnings heima í héraði, sá n. sér ekki fært að gera nú neinar ákveðnar till. í þessa átt.

Það er vitanlegt, að sumir líta svo á, og þeirra á meðal útgerðarstjóri ríkisskipanna, að engin þörf sé á því, að Eyjafjarðarbáturinn hafi stærra svæði til yfirferðar en Eyjafjörð einn saman. Átti n. þess engan kost að gera sér grein fyrir, hvað heppilegast væri í þessu efni, með því að þessi bátur hefir ekki sent n. neinar skýrslur um starfsemi sína. Þó veit n. til þess, að þessi bátur hefir farið til Húsavíkur og Skagafjarðar, en vel má vera, að um svo litla flutninga sé að ræða á þessum ferðum, að þær megi leggjast niður án þess að bagi verði af. (JS: Stj. hefir lagt niður póstgöngur um austurhéruð Skagafjarðar). N. hefir enga hugmynd um, að svo sé, og henni er jafnókunnugt um starfsemi þessa báts, sem eins og ég áður sagði hefir aldrei gert n. grein fyrir starfsemi sinni, eins og um aðra báta, sem aldrei senda neinar skýrslur, en láta þó hinsvegar ekki á sér standa með að hirða þann styrk, sem þeim er veittur. Væri því mjög æskilegt, að þeir þm., sem hafa hagsmuna að gæta í þessum efnum, sæju um það, að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi bátanna yrðu eftirleiðis sendar stjórn og þingi, svo að hægt yrði að taka þetta mál í heild sinni til rækilegrar athugunar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. samgmn., með því að þær eru hinar sömu í öllum aðalatriðum sem í fyrra, en mun þá víkja að þeirri brtt., sem ég á við þennan kafla fjárl. Þessi brtt. er á þskj. 260, VIII og fjallar um, að fjárveitingin til nýrra símalagninga hækki um 20.000 kr., sem skuli verja til nýrrar símalínu frá Sandeyri til Staðar í Grunnavík og frá Arngerðareyri til Melgraseyrar.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru norðurhreppar Ísafjarðar símalausir. Það var ekki fyrr en á síðasta ári, að fé var veitt til símalínu til Snæfjallahrepps, en hinir hrepparnir eru símalausir ennþá. Þó að loftskeytastöð sé að vísu á Hesteyri, kemur það þessum hreppum að litlum notum, svo sem menn munu geta skilið. Er því hin brýnasta þörf á því, að úr þessu verði bætt, einkum þó hvað snertir Grunnavíkurhrepp. Það vita allir, hvílíka þýðingu það hefir fyrir atvinnurekstur eins héraðs að hafa síma, ekki sízt þegar svo stendur á, að nærliggjandi héruð hafa síma. Símaleysið veldur því, að þessi héruð verða útundan og bíða lægra hlut í samkeppninni. Auk þess er á það að líta, að úr þessum hreppum er mjög erfitt til læknissóknar. Íbúar Grunnavíkurhrepps eru svo settir, að þeir þurfa 3 daga til læknisvitjunar, ef farið er á landi. Sjóleiðin er að vísu ekki mjög löng úr vesturhluta hreppsins, en þá líka ófær úr austurhlutanum. En þar er sá galli á gjöf Njarðar, að oft vill svo fara, að þegar komið er til Hesteyrar, þar sem læknirinn býr, er hann kominn á annan enda sveitarinnar, og verður þá að fara eftir honum þangað. Eru þess dæmi frá síðasta ári, að það hafi tekið sólarhring fyrir sex menn á bát að ná til læknis. Mega allir sjá, hvílíkir erfiðleikar þetta eru fyrir héraðsbúa.

Ég hafði vænzt þess, að landssímastjóri gerði till. um, að þessi lína yrði tekin upp með hinum nýju línum, en hann tjáði mér, að sér hefði skotizt yfir hana. Hin línan, sem hér er um að ræða, liggur um þéttbýla sveit og er því mikil þörf á henni, en þó ekki svipað því eins knýjandi og um línuna til Grunnavíkur.

Þá vil ég drepa með nokkrum orðum á till. hv. fjvn. viðvíkjandi styrknum til bryggjugerða og lendingarbóta. Vil ég taka undir þau ummæli hæstv. fjmrh., að ekki sé rétt að taka allar þessar fjárveitingar á einu ári, vegna þess hve erfitt sé að framkvæma mörg slík mannvirki á sama árinu, auk þess sem með öllu er óvíst um, að öll hlutaðeigandi héruð fái útvegað sér lán til þess að leggja fram sinn hluta kostnaðarins. Er hin fyllsta nauðsyn á, að þessi mannvirki séu styrkt af opinberu fé, og tel ég fyrir mitt leyti réttara að láta þessa styrki vera hærri, en minna dreifða en till. fjvn. gerir ráð fyrir.

Ennfremur vil ég benda á það, þar sem hv. fjvn. leggur á móti því, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir hlutaðeigandi héruð um lán til þessara framkvæmda, að allar líkur eru til þess, að héruðunum veitist fullerfitt að útvega sér lán, þó að ríkisábyrgð komi til. Ég gæti jafnvel trúað, að í sumum tilfellum yrði það hið sama sem að synja um fjárframlag í þessu skyni, ef neitað verður um ábyrgð ríkisins fyrir þessum lánum. Það er auðvitað ekki nema sjálfsagt, að hlutaðeigandi sýslusjóðir standi ábyrgir fyrir þessum lánum hreppsfélaganna gagnvart ríkissjóði, en auk þess tel ég rétt, að það sé sett sem skilyrði fyrir styrkveitingum af opinberu fé til þessara mannvirkja, að héraðsbúar legðu svo há gjöld á sig fyrir afnot þessara mannvirkja, að árlegar tekjur nægðu til viðhalds, afborgana og vaxta af byggingarkostnaði.

Með þessu yrði ábyrgð ríkissjóðs áhættulaus.

Út af því, að hæstv. fjmrh. sagði, að tekjur og gjöld hefðu verið áætluð svo í stjfrv., að ekki væri gerlegt að breyta til neinna muna, verð ég að segja það, að ég álít það mjög illt, ef stj. gengur svo frá fjárlfrv., að þinginu gefst ekki svigrúm til þess að hafa hönd í bagga með fjárveitingum ríkissjóðs, því að með því ræður stj. ein fjárl. og tekur þannig fjárveitingarvaldið úr höndum þingsins. Það er vitanlegt, að fjárl. hljóta alltaf að hækka um nokkur hundruð þúsund í meðferð þingsins. Liggja til þess meðal annars þær orsakir, að stj. berast ekki ýms erindi, heldur koma þau fyrst fram eftir að þing er komið saman og stj. hefir gengið frá fjárlfrv. Kemur því til kasta þingsins um að taka afstöðu til þessara erinda, jafnframt því sem fjárlfrv. gengur í gegnum hreinsunareld þess, því að það er siðferðisleg skylda þingsins að standa á verði gagnvart því, að stj. taki sér einræðisvald í fjármálum ríkisins.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að stj. hefðu ekki borizt neinar umsóknir eða erindi um styrk, til bryggjugerða. Það er nú svo. Mér er a. m. k. kunnugt um, að fyrir þinginu í fyrra lá beiðni um styrk til bryggjugerðar í Hnífsdal, og verð ég að líta svo á, að stj. beri skylda til að athuga, hvaða erindi hafi legið fyrir undanförnum þingum, þegar hún semur fjárl. frv. fyrir næsta ár. Ef stj. bindur sig eingöngu við þau erindi, sem henni berast í hendur um það leyti sem hún semur frv., en lítur ekki á þær þarfir, sem óuppfylltar eru frá fyrri þingum, þá er ég hræddur um, að æðimargt kunni að verða útundan.