28.06.1930
Sameinað þing: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

Þinglausnir

Forseti (ÁÁ):

Áður hefir verið skýrt frá úrslitum þingmála. Að þessu sinni er aðeins að geta einnar till. til þál., sem samþ. hefir verið hér á Þingvöllum — um gerðardómssamning við önnur ríki á Norðurlöndum. Það er í fyrsta sinni um margar aldir, sem íslenzka ríkið hefir gert samning við önnur ríki án milligöngu erlendrar þjóðar, og minnir á þann atburð, sem gerðist hér á Þingvöllum árið 1022, þegar lögrétta gerði samning við Ólaf konung Haraldsson um gagnkvæman rétt Íslendinga og Norðmanna. Sá milliríkjasamningur var fyrstur gerður af íslenzkum stjórnarvöldum.

Það kunna sumir að mæla, að fátt hafi gerzt á þeim þingfundum, sem hér hafa verið haldnir, en þó hygg ég, að það verði dómur framtíðarinnar, að afrek þessa þinghalds á Þingvöllum hafi verið mikil og með sérstökum hætti. Það eru ekki samþykktir eða lög, sem hér hafi verið sett, heldur er það þinghaldið með fornum hætti, það er þjóðfundurinn og þjóðarfagnaðurinn mikli á Þingvöllum, sem mun geymast í minni þjóðarinnar og varðveitast henni til blessunar.

Hér höfum vér reist mikla borg til fárra nátta, á líkan hátt og Alþingi var í gamla daga, borg í borgarlausu landi. Þessi hin mikla borg, sem staðið hefir stutta stund, er með öðrum hætti en nokkur önnur borg á Íslandi. Það er borg allra landsmanna. Hér hafa menn dvalið í sátt og samlyndi, eins og Einherjar á kvöldum í Valhöll, þó að barizt sé bæði undan og eftir. Deilur liggja nú niðri, og engin mál eru sótt eða varin. Hér hafa þingstörfin verið meir að hætti Halldórs Snorrasonar, er hann sagði sögur á þingi, að hætti afreksmanna, er sýndu íþróttir sínar; að hætti Ólafs pá, er hann settist hjá Þorgerði Egilsdóttur, — eða Gunnlaugs ormstungu, er hann horfði eftir Helgu hinni fögru. Þessi hinn mesti þjóðfundur, sem haldinn hefir verið á Þingvöllum, mun varðveitast í huga þeirra, sem hér hafa dvalið. Þinghátíðin boðar þjóðinni heill og hamingju. Ég vil biðja þess, að áhrif hennar verði óafmáanleg. Afrek Úlfljóts standa enn í gildi, eins og gjáin, þar sem nú stöndum vér. Alþingi er orðið 1.000 ára; það lofar miklu um ókomnar áraþúsundir.

Í þinglok minnumst vér eiðsins, sem allsherjargoðinn vann að baugi. Hann hét því, að vinna svo öll sín verk á þingi, sem hann vissi sannast og réttast og helzt að lögum. Þessi forni eiður á enn að vera eiður þingmanna. Og nú undir lokin vinna þingmenn, í hinni fornu merkingu þessa orðs, þennan eið hver í sínu hjarta.