12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

11. mál, yfirsetukvennalög

Sigurður Eggerz:

Eins og kunnugt er, var á síðasta þingi samþ. hér í þessari hv. d. frv. um launabætur yfirsetukvenna. Þessi launabót; sem farið var fram á í því frv., var þannig, að yfirsetukvennastéttin í landinu var ánægð með hana.

Svo sem lög gera ráð fyrir, fór þetta frv. til Ed. og var þar í raun og veru meiri hl. því fylgjandi líka, því atkvgr. um frv. fór þannig, að 7 þm. greiddu atkv. með frv., 6 þm. greiddu atkv. móti frv., en 1 þm. greiddi ekki atkv. En þrátt fyrir þennan raunverulega meiri hl. í Ed. féll frv. samt á úrskurði hæstv. forseta. Þar sem hæstv. forseti, sem þennan úrskurð felldi, er ekki í þessari hv. deild, skal ég ekki gera þetta hér að umræðuefni. Þó vil ég benda á það, að svo fremi sem þessi úrskurður er réttur, er sannarlega þörf á að breyta þingsköpunum. Það má ekki koma fyrir aftur, að frv., sem 7 greiða atkv. með en 6 á móti, strandi á þingsköpum. Ég vil því mjög alvarlega skjóta því til hæstv. stj., að hún láti sem fyrst breyta þingsköpunum svo, að slík ósköp sem þessi komi aldrei fyrir oftar. Því ef verulega stór mál geta strandað á öðru eins og þessu, ef úrskurður hæstv. forseta er réttur — en inn á það skal ég ekki fara hér —, þá geta allir séð, að þörf er að breyta þingsköpunum. En þessu verður ekki breytt nema með lögum.

Þessi tilraun til að bæta kjör yfirsetukvenna hefir haft allmikið bergmál hér á Alþingi. Þó hafa steinar sem þessir hvað eftir annað verið lagðir í götu þessa máls, og nú byrjar hæstv. fjmrh. nýja herferð móti yfirsetukonunum með þessu frv., því hér er dregið verulega úr þeim bættu launakjörum, sem voru í frv. í fyrra. Í hv. Ed. kom líka fram brtt. við þetta frv., sem var samskonar og var í frv. í fyrra, en hún var felld með 6:6 atkv.

Nú skyldi maður ætla, að þetta þýddi það, að þessi skoðun væri í minni hl. í Ed., en það er ekki rétt, því einn þm., sem var þessari brtt. fylgjandi, var veikur, af hverju, veit ég ekki. (Fjmrh.: Þetta er víst misskilningur). Nei, ég held að þetta sé rétt.

Ef maður lítur á sögu málsins, sem hæstv. stj. hefir rakið í frv., sem komið hefir fyrir Ed., þá sér maður kannske af þeirri sögu betur en af nokkru öðru, hve illa hefir verið farið með þessa stétt. En það er beinlínis ill meðferð, þegar hver yfirsetukona hafði ekki nema 3 kr. árlega. Þessi saga sýnir ennfremur, að þessi stétt, sem ég verð að líta svo á, að sé einhver þarfasta stétt þjóðfélagsins, hefir alltaf verið olnbogabarn löggjafarinnar. Loksins þegar málið er komið svo langt á síðasta þingi, að í raun og veru var fenginn meiri hl. í báðum deildum, kemur hæstv. fjmrh. — ég vil ekki segja hæstv. stj., því hæstv. forsrh. mun hafa verið með því — með frv. til þess að eyðileggja þær raunverulegu bætur, sem bornar voru hér fram í fyrra.

Ég ætla alls ekki að vekja upp allt það, sem ég sagði um þetta mál á síðasta þingi. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á það, að ein af höfuðástæðunum, sem ég færði fyrir bættum kjörum yfirsetukvenna, var það, að það vantaði yfirsetukonur í 31 umdæmi. Þessu var margneitað í þessari hv. d. En hvað er nú komið á daginn? Það hafa komið svarskeyti frá 46 héraðslæknum um það, hvort ljósmæður vanti, og samkv. þeim fyrirspurnum vantar 31 ljósmóður. Ég verð ennþá að spyrja: Hvernig stendur á því, að það vantar svo margar ljósmæður? Það er af því, að launakjörin eru svo ill, að engin fæst til að sinna þessum starfa. Sérstaklega kemur þetta fram í afskekktum héruðum, þar sem langt er til læknis. En þar mega menn allra sízt án þeirra vera. Launakjörin mega ekki vera svo lág, að engin fáist í þau umdæmi sem vantar þær.

Annað atriði, sem deilt var um á síðasta þingi, var það, hverjum þessi bættu launakjör kæmu aðallega að gagni. Sumir héldu því fram, að það væru þær lægst launuðu. Rannsókn í málinu hefir líka staðfest þetta.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en mér sýnist, að allt, sem haldið var fram fyrir þessu máli á síðasta ári, sé nú staðfest. Ég verð að segja það, að mér finnst það skrítið hjá hæstv. fjmrh. að koma nú með þessar till., þegar hann veit að meiri hl. þings samþ. í fyrra það frv., sem þá var hér í þessari hv. d., og aðeins var fellt vegna þess, hve þingsköpin eru mikill vanskapnaður. Ef þau hefðu verið réttlát, hefði það frv. nú verið orðið að lögum.