17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Magnús Jónsson:

* Ég skal ekki tefja lengi, en ég hefi samt ástæðu til að gera grein fyrir minni afstöðu til málsins.

Það vill svo til, að ég get hvorugum hluta n. fylgt alveg. Um það er í raun og veru ekki að ræða, hvort menn vilja gera eitthvað til þess að létta byrði Skeiðamanna vegna áveitunnar. Ég lít svo á, að þegar sé slegið föstu, að svo skuli gert, en að hæstv. stj. hafi viljað bera undir þingið sína skoðun á því, hvernig það skuli gert. Mér þykir vænt um, að hæstv. stj. sýnir í þessu frv., hvernig hún hugsar sér fyrirkomulagið.

En ég get á engan hátt verið því samþykkur að fara þá leið, sem stungið er upp á. Að mjög miklu leyti get ég vísað til þess, sem hv. minni hl. sagði um þetta mál. Ég álít, að með því að leggja verðhækkunarskatt á eignir sé gengið inn á alveg nýja braut, sem ekki sé ráðlegt né heldur leyfilegt. Það er venjulega hugsunarvilla í því fólgin, þegar menn eru að brjóta meginreglur, sem þeir annars vilja fylgja, fyrir eitthvert sérstakt tilfelli. Það er miklu réttara að gera engar undantekningar og halda sínu striki, en láta ekki ástæður, sem virðast vel í svipinn, brjóta sínar meginreglur.

Þetta er ekki annað en partur af „Georgisma“, sem þingið hefir ekki ennþá viljað ganga inn á. Og ég fyrir mitt leyti vil á engan hátt ganga inn á þá braut hér. Þar að auki er bent á það með rökum, sem mér finnst ómögulegt að hrekja, að þetta er fjarska erfið og óþægileg leið. Það verður erfitt að ná þessum verðhækkunarskatti inn. Og þó að ríkissjóður ætti ef til vill í réttu lagi að fá svo og svo mikla upphæð með þessu móti, þá hygg ég, að alltaf verði til fjöldi af leiðum til þess að komast í kringum skattinn. Ég verð líka að segja, að mér finnst ákaflega óviðkunnanlegt að fara að binda þessa aðstoð skilyrðum, sem eiga að grípa yfir svo langan tíma, að eftir að ríkissjóður er búinn að ljúka öllum sínum skuldbindingum, þá séu hjálpþegar undir ýmiskonar fordæmingu. Þeir þurfa að vera að greiða þessa lágu vexti, sem eru kallaðir partur af höfuðstólnum, og sömuleiðis hvílir þessi vonda kvöð á þeirra eignum. Ég er þess vegna sammála hv. minni hl. um það, að ríkissjóður eigi að gera þetta upp í eitt skipti fyrir öll, — taka á sig þann part af skuldbindingum, sem nauðsynlegur þykir, en skilja eftir það, sem Skeiðamönnum er talið fært að inna af hendi og rétt þykir að láta þá greiða, með nokkru tilliti til þess, að þeir hafa fengið skilyrði til aukins afrakstrar af búum sínum. Ég mundi því geta fallizt á till. hv. minni hl. fjvn., ef ekki fylgdi þetta skilyrði, að eftirgjöf komi til úr viðlagasjóði, og þó sérstaklega úr veðdeild Landsbankans. Ég get fallizt á rök þeirra, sem telja þetta mjög varhugavert. Og þótt bent hafi verið á, að ráðstafað hafi verið varasjóði 1. flokks veðdeildarinnar, þá finnst mér það ekki fullkomlega hliðstætt þessu. Því að þótt svo kunni að vera ákveðið, að varasjóður fyrri flokka skuli renna til tryggingar bréfum seinni flokka, þegar skuldbindingum hvers um sig er lokið, þá er það ekki hliðstætt því, sem hér er um að ræða. Því að við búum þannig um hvern flokk fyrir sig með lögum, að bréf þess flokks þykja vera trygg. Ég hygg, að enginn telji þau ekki fullkomlega trygg, svo lengi sem ríkissjóður grípur ekki inn í ráðstafanir hvers flokks sérstaklega. En hér er beinlínis verið að því. Og það er alveg fullkomlega víst, að það er ekkert, sem fjármálamenn óttast í þessu efni eins og ef löggjöfin fer að nota þann rétt, sem hún hefir, til þess að veita fé úr ríkisstofnunum, í stað þessa að veita það beint úr ríkissjóði. Ég get þess vegna ekki greitt atkv. með a-lið 2. brtt., sem gengur út á þetta.

Ég vil benda í þessu sambandi á annað, sem ekki hefir komið hér fram. Það er sem sé ekkert líklegra en að allt málið mundi stranda á þessu atriði, ef það er sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði. En hinsvegar er stjórn veðdeildarinnar alls ekki skyldug til að ganga að skilyrðunum; og ef hún gerir það ekki, þá er þessi bjargráðaráðstöfun frá hálfu ríkissjóðs úr sögunni.

Ég hefði álitið, að það væri heppilegasta lausnin á þessu máli, að ríkissjóður greiddi 2/3 hluta af áveituskuldunum, en að hlutaðeigendur bæru sjálfir 1/3 hluta, en losnuðu svo undan þeirri fordæmingu að greiða verðhækkunarskattinn. Ég ætla þó ekki í þetta sinn að koma með skriflega brtt. í þá átt við till. hv. þm. Borgf.; ég vil fyrst sjá, hvort þær till. hans sem minni hl. nefndarinnar ná samþykki þessarar deildar, og get ég þá flutt brtt. við 3. umr. En hallist deildin ekki að till. hv. minni hl., þá þarf ég ekki að koma fram með slíka brtt.