29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Þessi eldhúsdagur hefir nú staðið svo lengi, að rétt mun að taka nokkurt tillit til þess. — Annars er nú enn mikið til að segja, því syndaregistur stj. er langt. Ég mun þó af framangreindum ástæðum verða fáorðari en ella hefði orðið.

Ég hefði þurft að svara nokkrum atriðum hjá hæstv. forsrh. En þar sem hann er ekki viðstaddur, mun ég ekki fara langt út í umr. við hann. Hæstv. forsrh. sagði, að ég væri skemmtilegur, en þó tæplega eins og vant er á eldhúsdegi. Ég skal nú þakka hólið, enda þótt það sé ekkert nema venjulegur faríseaháttur hæstv. forsrh., sem liggur til grundvallar þessu þakklæti. En hitt get ég vel skilið, að hæstv. forsrh, hafi ekki þótt ég vera eins skemmtilegur og vant er. Ég snéri máli mínu í þetta sinn mest að hæstv. forsrh. sjálfum, í stað þess að ég hefi áður einkum átt orðastað við hæstv. dómsmrh. Og ég veit það, að hæstv. forsrh. er ósárt, þótt ég tukti þann samverkamann hans í stj. nokkuð til, en þykir hinsvegar ekki eins skemmtilegt, þegar hann verður fyrir því sjálfur.

Hæstv. forsrh. sagði, að við sjálfstæðismenn hefðum orðið fyrir vonbrigðum í Íslandsbankamálinu. Við hefðum verið farnir að vonast til þess, að stj. segði af sér. Ja, við erum nú orðnir svo vanir ýmsu frá þessari hæstv. stj., að við verðum varla lengur fyrir vonbrigðum þó hún taki þann kostinn, sem miður fer í hverju máli. En hitt skal ég játa, að velsæmi stj. í því máli reyndist í allra minnsta lagi og er þá mikið sagt.

Um Búnaðarbankann þarf ég lítið að segja. Hv. 1. þm. Reykv. er rækilega búinn að því. Aðalkjarni þess máls er svarið við þeirri spurningu, hvers vegna Pétri Magnússyni var ekki veitt aðalbankastjórastaðan. Pétur Magnússon er sá maður, sem í augum allra óhlutdrægra manna er sá maðurinn, sem tvímælalaust átti að fá þessa stöðu. ef velja átti góðan mann í hana. Kjarni málsins er ekki það, að Pétur Magnússon var gerður að undirbankastjóra, heldur hitt. — Hvers vegna var hann ekki gerður að yfirbankastjóra?

Viðvíkjandi því, sem ég beindi til hæstv. forsrh. um það, hvers vegna vextir bankanna væru ekki lækkaðir, svaraði hæstv. ráðh. því einu til, að nú væri búið að stofna Búnaðarbankann. En þetta er vitanlega ekkert svar. Um þetta var spurt af því, að áður hélt hæstv. forsrh. því fram, ásamt fleirum, að stj. hefði vaxtakjör bankanna algerlega á valdi sínu. Nú eru hærri vextir en þá voru. Og sú stj., sem nú situr, hefir meiri tök á Landsbankanum en sú, sem sat um þingtímann 1927. Ef stj. er sama sinnis enn, hvers vegna gerir hún þá ekki tilraun nú til að lækka vextina? — Hv. 2. þm. Árn. á líka fyrir hið sama að svara, því þá taldi hann það ósvinnu, hve vextir væru háir. Að svo mæltu yfirgef ég hæstv. forsrh., enda er hann ekki viðstaddur.

Hv. 2. þm. Árn. fann hvöt hjá sér til þess að standa upp á eldhúsdegi til þess að þakka stj., þó hún naumast virðist eiga það skilið eftir alla meðferðina á honum, þó hún hafi máske verið að verðleikum. Ég sagði, að hæstv. forsrh. hefði sýnt hugdeigju gagnvart hæstv. dómsmrh. Hann hélt, að ég ætti við það, að hæstv. forsrh. væri geðveikur. En því hefi ég aldrei dróttað að honum, enda væri það ástæðulaust. En hugdeigja hæstv. forsrh. kemur fram í því, að láta hæstv. dómsmrh. leika sér í ráðherrastöðu, í stað þessa að víkja honum frá, sem hefði átt að vera gert fyrir löngu. Hv. þm. vildi halda því fram, að ég væri hugdeigur. Það er nú máske hver blindur í sjálfs síns sök. En ég er þó a. m. k. ekki hræddur við þann hv. þm. Hið eina dæmi, er hann talaði um því til sönnununar, var gengismálið. Hv. þm. sagði, að ef ég hefði ekki sýnt hugdeigju í því máli, þá hefði ég getað orðið mesti maður þjóðarinnar. Ég ætla nú ekki að fara að dæmi hæstv. dómsmrh. í því, að fara að halda yfir mér lofræður. En ég get sagt það, að þegar krónan hækkaði, var ég í gengisnefnd og því falið að hafa áhrif á það mál. Við núverandi hæstv. forsrh., sem líka var í gengisnefnd, mótmæltum ákvörðun meiri hl. gengisnefndar, sem vildi hækka krónuna. Ég var í þessari n. fyrir hönd útgerðarinnar og hæstv. núverandi forsrh. fyrir hönd Sambands ísl. samvinnufélaga. Við kröfðumst þess af stj., að hún kallaði saman aukaþing til að láta það ráða þessu máli til lykta. En ríkisstj. áleit það ekki vera á sínu valdi né þingsins að koma í veg fyrir gengishækkun. En sú gengishækkun, sem skeði frá því síðast í ágúst og fram í október, eða á hálfum öðrum mánuði, var gerð algerlega móti mínum vilja og till. Ég hefði að vísu ekki verið mjög á móti því, þó kr. hefði hækkað nokkuð. Ég hefði viljað festa hana í 25 kr. hvert sterlingspund. En þessi hækkun skeði á skömmum tíma. Og ég verð að segja, að ég lét á þeim tíma ekkert tækifæri ónotað til að tala við þáverandi fjmrh. Og ég lét hann vita það, að ef gengið væri ekki stöðvað, þá mundi ég segja mig úr miðstjórn flokksins og úr flokknum. Gengið var líka stöðvað. Og ef sá var mikilmenni, sem stöðvaði, þá er líka óhætt að líta til mín sem slíks manns.

Annars læt ég hæstv. dómsmrh. einan um grobbið. Ég fer ekki að herma eftir honum þann barnaskap. Hv. 2. þm. Árn. skal því vita það, að mín vegna er það óþarft fyrir hann að fara að kalla mig mikilmenni. (Dómsmrh: Hv. 2. þm. G.-K. veit, að hann á það ekki skilið!). Já, ég á það ekki skilið. En sá er munurinn á mér og hæstv. dómsmrh., að ég hefi nokkurnveginn óbrjálað sjálfsmat. Það hefir hann ekki.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um vaxtalækkun, þá vil ég benda honum á það, að það, sem hæstv. forsrh. sagði um það mál, leysir hann ekki frá þeirri skyldu að fylgja nú fram stefnu sinni frá 1927 um að gera till. um lækkun vaxtanna. Nú ætti hv. þm. einmitt að koma slíku máli fram vegna aðstöðu sinnar. Og hann ætti að hafa þeim mun ríkari hvöt til þessa, þar sem kjósendur hv. þm. hafa látið í ljósi ákveðinn vilja sinn í þessu máli. Hinsvegar er engin ástæða til þess, að ég beri slíka till. fram. Ég hefi aldrei neitt um þetta talað. Ég veit einmitt, að það er ekki gott að koma fram lækkun vaxtanna. Og ég hygg naumast, að það sé á valdi neinnar stj. Það eru vitanlega hin innri viðskiptalögmál, sem mestu ráða í því efni. En það er einmitt verkefni fyrir menn eins og hv. 2. þm. Árn., sem aldrei hafa skilið þau lögmál, að bera fram kröfu í þessu efni. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira við þennan hv. þm. Er það ekki vegna neinnar hugdeigju, heldur af því, að ég tel enga þörf á því. Og ég vil bæta því við, að ég álít, að hv. 2. þm. Árn. sé ekki hug- deigur heldur. Ef hann væri það, þá mundi hann tæplega láta sjá sig á Alþingi eftir þá herfilegu útreið, sem hann hefir fengið hjá sínum flokki.

Hv. þm. Ísaf. hélt hér langa ræðu og deildi mjög á hæstv. ríkisstj. Í lok ræðu sinnar snéri hann máli sínu að okkur sjálfstæðismönnum og sagði, að þó stj. væri vond, þá hefði þó íhaldsstj. verið verri. Og hann sagði, að núverandi stj. lifði eingöngu á syndum íhaldsstj. Það er vitanlega mjög gott fyrir hæstv. stj. að fá þá yfirlýsingu, að hún megi lifa og láta eins og hún vill. Alþýðuflokkurinn muni ávallt fylgja henni. Hin væri þó ávallt verri.

Að lokum kom hv. þm. með dæmi úr Njálu, sem átti að sýna það, hvers vegna við sjálfstæðismenn kæmumst ekki að völdum aftur. Dæmið var það, þegar Flosi leitaði vígis í Almannagjá, en Snorri goði, varði. Urðu orðaskipti milli Flosa og Snorra goða, og las hv. þm. þau upp. En af því að frásögnin er góð, þá vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa þennan kafla upp aftur. Hann hljóðar svo: „Snorri goði kallaði þá til Flosa: „Hví farið þér svá geystir, eða hverir elta yður?“ Flosi svarar: „Ekki spyrr þú þessa af því er eigi vitir þú þat áðr. Enn hvárt veldr þú því, er vér megum eigi sækja til vígis í Almannagjá?“ „Eigi veld ek því“, segir Snorri, „enn hitt er satt, at ek veit, hverir valda — ok mun ek segja þér, ef þú vill, at þeir valda því Þorvaldr kroppinskeggi ok Kolr“. Þeir váru þá báðir dauðir ok höfðu verit hin mestu illmenni í liði Flosa“. — Þetta átti nú að vera dæmi um það, hvers vegna íhaldsmenn næðu ekki aftur völdum. Sagan er góð. En ef finna á hliðstæðuna út frá því, sem nú er, við þessa frásögu, þá leika hv. jafnaðarmenn hlutverk gömlu illvirkjanna, Kols og Kroppinskegga. En viljið þið nú ekki, hv. jafnaðarmenn, hætta að leika þetta hlutverk? Sitjið þið bara hjá og sjáið til, þá mun ykkur skiljast, hverjir verið hafa illvirkjarnir. Þá mun sjást, hvort við sjálfstæðismenn náum ekki víginu.

Ég mun nú fella niður ýms atriði, er ég hafði skrifað hjá mér til þess að teygja ekki tímann. Sný ég mér þá að hæstv. dómsmrh. Ég skal þá fyrst víkja að einu eða tveimur atriðum út af ummælum hæstv. ráðh., er hann viðhafði vegna ræðu hv. þm. N.-Ísf. (Dómsmrh: Stendur í prestinum?). Ég skal áður en lýkur láta hæstv. ráðh. finna til þess, að svo er ekki. Prédikun mín skal vera skýr og ákveðin. Hitt er annað mál, að líklega er syndaselurinn forhertur. Hæstv. ráðh. sagði, að hv. þm. N.-Ísf. hefði viljað gera sér mat úr því, að Magnús heitinn Kristjánsson væri látinn og eigna honum ummæli, sem hann hefði aldrei sagt. Ég veit nú, að þetta er rangt hjá hæstv. ráðh., enda bendir allt til þess, að svo sé. Þarf ekki annað en athuga það, hvað það er afarólíklegt, að jafnærlegur maður og Magnús heitinn Kristjánsson hafi getað verið vinur og náinn samverkamaður hæstv. ráðh. Hitt muna og allir, að til er skjalfest sönnun fyrir þessu áliti. Þegar hæstv. dómsmrh. ætlaði að kúga M. K. í máli því, er reis út af kosningu hv. þm. N.-Ísf. (Forseti hringir). Já, mér þykir gott, að hæstv. forseti hringi undir ræðu mína. Þetta verður þá alveg eins og við kirkju! — En þegar hæstv. dómsmrh. ætlaði að kúga hinn aldurhnigna sómamann, þá reis hann upp úr sæti sínu og sagðist ekki mundu láta kúga sig. Hann ætlaði að kúga hann inn á þessa braut, en hinn aldni sómamaður sagði: Ég læt ekki kúga mig inn á braut svívirðinganna.

Um 9 millj. kr. lánið skýrði hv. þm. frá því, að ráðh. hefði sagt ósatt, þegar hann í blöðum sínum hvað eftir annað endurtók, að „skuldakóngarnir“, hv. 3. landsk. og hv. l. þm. Skagf., hefðu með þessari lántöku lagt 100 kr. skuldabagga á hvern landsmann, jafnt karlægt gamalmennið og barnið í vöggunni. Þetta voru ósannindi og það vísvitandi ósannindi. Hæstv. ráðh. sýndi líka með ræðum sínum, að eins og menn vissu var lánið ekki tekið handa ríkinu, heldur bönkunum, og þeir áttu að endurgreiða það, og þetta var því enginn skuldabaggi á þjóðinni.

Ég tók eftir þessum tveim atriðum úr seinustu ræðu hæstv. dómsmrh. og hugsaði mér, að jafngott væri að svara þeim, þar sem hv. þm. N.-Ísf. fær ekki að taka til máls í bráð. Annars er ég ekki vanur að leggja eyrun svo mjög við ræðum hæstv. dómsmrh.; ég kann þær flestar utan að.

Þegar ég hélt mína fyrri ræðu, hafði ég deilt allfast á hæstv. dómsmrh. Og ég var satt að segja að taka eftir stuðningsmönnum hans hér í deildinni, þegar hann svaraði mér. Ég sá, að margir þeirra voru í upphafi ræðu hans eins og kvíðnir, og mér var ljóst, fyrir hverju þeir kviðu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að hæstv. ráðh. hefir oft orðið sér til minnkunar hér í deildinni með ofsa og æsingi, og ég vissi, að það, sem stuðningsmenn hans kviðu fyrir, var, að eins færi í þetta skipti. En ég skal játa, að svo fór nú í þetta sinn, þegar hæstv. ráðh. var að svara, að hann varð sér á engan hátt til minnkunar, þannig að hann sleppti sér. Mér væri það ákaflegt gleðiefni, ef ráðh. gæti tamið svo skap sitt, að hann yrði sér sjaldnar til skammar með geðofsa sínum. En það var gaman að sjá, hvernig breyttist útlit stuðningsmanna hans, þegar þeir sáu, að hann gætti sín. Þeir stóðu upp, drógu andann léttilega og brostu eins og fargi væri létt af þeim.

Annars var ráðh. að rabba vingjarnlega, sérstaklega við pallagestina. Hann þekkir marga á pöllunum, sem þekkja sálarástand hans. Margir hafa hér deilt þunglega á hann, en hann hugsaði ekki um að svara því, heldur að hann gæti fengið pallagestina til að brosa. Það var því ekki mikið í ræðu hæstv. ráðh., sem gaf tilefni til andsvara.

Hæstv. ráðh. sagði, að vegna veitingar læknisembættisins í Keflavík, hefði fylgi sitt aukizt þar suður með sjó. Minnkað gat það náttúrlega ekki, en hitt skil ég ekki, að það hafi aukizt, því að það vita allir, að af mörgu hróplegu ranglæti, sem dómsmrh. hefir framið, er fátt eins hert og þetta. Þetta segi ég ekki af því að ég vilji fara nokkrum hallmælum um Sigvalda Kaldalóns, en það mun vandfundinn sá maður þar suður frá, sem ekki er fullur vanþóknunar á þessum verknaði ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef Jónas Kristjánsson hefði sótt um embættið á venjulegan hátt, en ekki gegnum Læknafélagið, hefði hann fengið embættið. En geta menn hugsað sér aðra eins spillingu og þessa? Hæstv. ráðh. þykist byggja veitingar í læknisembætti á því, að hann sé að gera það sem fólkið vill. Nú efast hann ekkert um, að fólkið vildi fá Jónas Kristjánsson. En vegna þess að umsókn hans kemur á annan hátt en ráðh. óskar, þá hefnir hann sín á fólkinu. Það lýsti sér mikil spilling í veitingunni sjálfri, en það er þó hámark spillingarinnar að lýsa þessu yfir úr ráðherrastóli. Stjórnarfarið er orðið slæmt, þegar ráðh. skilur ekki, hve gagnsýrt þetta er af spillingu.

Það er búið að ræða svo mikið um veitingu rektorsembættisins við menntaskólann, að ég skal ekki bæta miklu þar við. Ég vil aðeins andmæla því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði talið sjálfsagt að reka úr skóla piltana, sem hefðu gert uppreisn. Ég hefi ekkert um það sagt. En ég sagði, að hæstv. ráðh. hefði orðið tvísaga, þegar hann skýrði frá sínu áliti. Fyrst sagði hann: Piltarnir höfðu í raun og veru á réttu að standa; en svo segir hann síðar: Ég skal játa, að piltarnir höfðu gert mikið af sér og höfðu á röngu að standa. Þetta sýnir, að hann hefir enga hugmynd um, hvort ætti að reka þá eða ekki. Dómur hans byggist ekki á réttarmeðvitund, heldur á þeirri þörf, sem rektorinn hefir til þess að halda fullu vinfengi piltanna. Hann hefir fengið stöðuna í óréttlátri samkeppni við mætustu kennara skólans. Piltarnir vita, að öll uppreisn gegn honum er ákaflega auðveld. Rektorinn veit það líka, og þess vegna verður hann að kaupa vínfengi þeirra dýrara en heppilegt er fyrir skólann. Ég þekki ekki rektorinn og veit ekki, hvort honum tekst að afstýra þeim voða, sem skólanum er búinn af slíku ástandi, en ef honum tekst það, skal ég verða fyrstur til þess að telja hann miklum hæfileikum búinn, en ég hefi enga trú á, að þetta lánist. En hvernig sem það fer, stendur þó það alltaf eftir, að veitingin er blettur á ráðh., og sá blettur verður aldrei þveginn af honum.

Það hefir verið talað um það af mörgum, hvað ráðh. er afskaplega raupsamur. Alltaf stendur hann upp og segir: Þetta hefi ég gert og þetta hefi ég gert. Það er ekki Framsóknarflokkurinn, sem hefir gert það. Það er ráðh. sjálfur. Hann var með afsökun út af þessu. Það gleður mig, ef hann er farinn sjálfur að finna til þessarar raupsemi sinnar, og það væri æskilegt, ef hægt væri að venja hann af henni. Ég skal ekki nefna önnur dæmi en vindsnældurnar sem eiga að vera áttunda furðuverk veraldarinnar, og Íþöku, sem ráðh. fann og enginn hafði séð í 70 ár. En ég vil nota tækifærið til þess að svara því, sem ráðh. hefir eftir mér í grein sinni „Stóru bombunni“. um eiturnautn. Hann segir, að ég hafi borið honum á brýn, að hann notaði kókain eða eiturmeðul. Ég hefi ekkert sagt um þetta. Hitt er rétt, að á fundi austur í Vík sagði ég, að gefnu tilefni: „Ég vil fá að vera í friði með þetta gutl mitt, sem ráðh. er alltaf að stagast á að ég noti, og ég skal láta hann í friði með það, sem hann vill ofan í sig láta, hvað sem það er“. En það spaugilega er, að ráðh. leggur þetta út þannig, að andstæðingarnir telji hann slíkan afburðamann til vinnu, að hann hljóti að nota einhver slík meðul. Ég skal játa, að mér hefir einstöku sinnum dottið í hug, að ráðh. notaði eitthvað slíkt, og það er af því, að ég hefi aldrei þekkt slíka menn, sem rjúka upp með þessum ægilega geðofsa og falla svo saman á eftir eins og dula. En það get ég sagt, að þótt einhverjir andstæðingar hans kunni að hafa haft. áður grun um eiturnautn hans, þá hefi ég engan grun um það nú. En það verður hæstv. ráðh. að skilja, að það eru engin óheilindi, þótt andstæðingar hans leiti að einhverri skýringu á þessum geðofsa, sem annars er óþekktur á Alþingi. Hann má ekki vera svo barnalegur að halda, að við teljum hann nokkurn afburðamann, þótt hann geti látið eins og vitlaus maður.

Að öðru leyti gaf ræða hæstv. ráðh. ekki tilefni til andsvara, þó að segja megi fremur, að hún hafi gefið tilefni til nokkurra hugleiðinga.

Í einni ræðu sinni hélt hæstv. ráðh. ræðu fyrir minni Dana. Í upphafi ræðunnar hélt hann því fram, að nafn og stefna Sjálfstæðisflokksins væri hættulegt fyrir þjóðina og móðgun gagnvart Dönum. Hann gat ekki rökstutt þetta nema með ósönnum fullyrðingum, enda fór svo, að í lok ræðunnar tók hann það aftur. Hann sagði, að frelsinu væri borgið með tveim skilyrðum. Hið fyrra væri það, að vel væri stýrt fjármálum ríkisins, en hið síðara, að innri baráttan stjórnist af góðvild og skynsemi, því annars gæti svo farið, að hér hæfist önnur Sturlungaöld. Þótt ég sé hæstv. ráðh. ekki oft sammála, er ég þó sammála honum um þetta. En hinu er ekki að neita, að þetta fer talsvert undarlega í munni ráðh.

Það er eðlilegt, að vakni hjá manni sú spurning, hverja hluttöku hann eigi í því, að þessi grundvallaratriði fyrir því, að þjóðin haldi sjálfstæði sínu, séu vel tryggð.

Ég mun ekki vera margorður um fjármálin. Það er víst, að aldrei hefir verið óvarfærnari fjármálastjórn á Íslandi en nú. Og það vita menn, að aldrei hefir verið meira sukk, bruðlun og siðleysi í stjórnarfarinu, og um þetta þrennt kenni ég hæstv. ráðh. öðrum mönnum meir. Hann ber á því þyngri sök en aðrir. En hann hefir engan skilning á fjármálum til þess að taka á sig þann ábyrgðarþunga, sem leiðir af hinum stærri misfellum. Það er skemmst að minnast á stærsta fjármál, sem komið hefir fyrir Alþingi um mörg ár, Íslandsbankamálið. Þar var um að ræða allra viðkvæmasta þátt fjármálaviðskiptanna; það var barizt um skilvísi og heiður íslenzku þjóðarinnar. Þá talaði ráðh. um það „að velta af sér“ og „hafa engin afskipti af þessu stærsta gjaldþrotabúi, sem hefði verið á Íslandi“. Fyrir honum vakti ekkert annað en að koma á kné höfuðviðskiptamönnum bankans, sem væru stjórnmálaandstæðingar hans. Þess vegna vildi hann, að svikið yrði lánstraust landsins, og bankinn tekinn með harðri hendi til gjaldþrotaskipta, allt til þess eins að þjóna hefnigirninni og heiptinni.

Öll afskipti hæstv. ráðh. af fjármálum þjóðarinnar sýna, að hann hefir manna sízt skilyrði til þess að fullnægja því, sem hann telur nauðsynlegt fyrir sjálfstæði landsins. Ég viðurkenni, að grundvallarskilyrði fyrir sjálfstæði þjóðarinnar er, að vel sé haldið á fjármálum hennar. En það sýnir aðeins, að þessi hæstv. ráðh. má ekki koma nærri völdunum í landinu.

Ef spurt er um, hvað hæstv. ráðh. hafi gert til þess að góðvild og skynsemi ríkti í innanlandsmálum, þá hygg ég, að menn geti fremur orðið sammála um dóminn heldur en flest annað, sem á milli ber. Hv. þm. Ísaf. sagði í sinni ræðu í gær, að ekkert óhapp og skaðræðisverk væri verra en að ala á ríg og rógi milli stétta. Þetta er alveg hárrétt. En hver er frægastur fyrir rógiðjuna í þessu landi? Ekki hv. þm. Ísaf., þótt satt að segja megi dást meira að skoðunum hans en baráttu. Nei, það játa allir, að í þágu þessarar iðju hefir ráðh. unnið dyggilegar en nokkur annar Íslendingur. Enginn hefir verið ötulli sáningarmaður illgresisins en hann, og ég vona, að þess verði langt að bíða, að annar hans líki komi. Ég minni á það, að hæstv. ráðh. hefir margsinnis, svo hundruðum skiptir, í ræðu og riti valið heilum stéttum ókvæðisorð: braskarar, Grimsbylýður, ómenntaðir dónar, aurasálir og maurapúkar, allt í því skyni að ala á heipt og öfund einnar stéttar í garð annarar. Enda er nú svo komið, að enginn stjórnmálamaður er til hér á Íslandi, sem stórum hóp þjóðarinnar er meira í nöp við heldur en þennan ráðh. Það er ekki vegna málefnanna, sem hann hefir borið fram, heldur vegna hugarfarsins og hugsunarháttarins, sem kemur fram í baráttu hans og fellir hann niður í dýpstu fyrirlitningu í hugum meir en hálfrar íslenzku þjóðarinnar. Og ef það er nokkur íslenzkur stjórnmálamaður, sem hefir skapað Sturlungaöld í íslenzku stjórnmálalífi, þá er það þessi hæstv. ráðh. Hann veit það slíka vel, og hann veit, að þjóðin er að vakna til meðvitundar um framferði hans. Og hvað gerir hann þá? Hann grípur til þess að kaupa með ríkisfé það fylgi, sem stjórnmálamaðurinn á að afla sér með gerðum sínum. Ég minni á grein, sem hann skrifaði í Tímann nýlega. Þar er hann að þakka 3089 mönnum, börnum og gamalmennum, fyrir ávarp, sem honum hafi verið sent. Hæstv. ráðh. segir í þessari lofgerð sinni, að sig undri, að þetta fólk, sem hann hafi ekkert gert fyrir, skuli vera að senda sér traustsyfirlýsingu og heilbrigðisvottorð. Hann er hissa á því, að menn, sem hann hefir ekki beinlínis keypt til fylgis, skuli sýna sér hlýju. Hver stór og mikill stjórnmálamaður vinnur þó auðvitað fyrir alla heildina. En það er greinilegt, að hæstv. ráðh. sér og skilur, hvað hann fer, þegar hann er að kaupa sér fylgi, sem stjórnmálamenn eiga að fá með verkum sínum.

En hæstv. ráðh. skilur líka, að slíkt keypt fylgi er ekki einhlítt, og til hvaða vopna grípur hann þá? Hann leitar út yfir pollinn sér til stuðnings. Hann er ekki feiminn við að beita þeim vopnum að segja, að stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi vilji lifa á heipt til annarar þjóðar. Hann er ekki feiminn við að afla sér persónulegrar velvildar með því að herma vísvitandi ósannindi upp á stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu.

Þetta minnir á það, þegar ráðh. ætlaði að neita á dönskum vettvangi að sitja með manni, sem hann hafði oft setið með hér heima, á fundum og annarsstaðar, og það seinast í gærkveldi, bara af því að þegar hann kom til Danmerkur, vildi hann gera þetta vegna þess, að hann hafði grun um, að forsrh. Dana, sem er jafnaðarmaður, væri í nöp við þennan mann. Það er þá þannig komið, að hæstv. ráðh. leitar á erlendan vettvang sjálfum sér til valda. Hann hugsar ekki um sjálfstæði þjóðarinnar, ef hann hefir pólitískan hagnað af því.

En hvaða hagnað getur ráðh. haft af því, að Danir séu honum vinveittir? Þannig kynni einhver að spyrja.

Í hvert einasta skipti, sem lofsamleg ummæli falla um hæstv. ráðh. frá dönskum manni, þá er það gleiðletrað í dálkum Tímans. Síðasta dæmið er það, þegar Arup hélt fram lofi um hæstv. ráðh: Þau voru ekki fyrr komin á prent í Danmörku en þau voru hraðsímuð hingað og prentuð í Tímanum. Og meðan enginn Íslendingur fékkst til þess að gefa hæstv. ráðh. vottorð um sálarlegt þrek, voru ummæli sótt til Danmerkur. Þar fengust þau strax. Hæstv. ráðh. hefir áður sýnt undirlægjuhátt og aumingjaskap, en þegar neyðin er mest þá er hjálpin næst, sem mest þurfti við, í Danmörku. Hjálp, sem hann ekki gat fengið hér á landi.

Svo skal ég ljúka þessum ummælum mínum með því að segja, að það er sorglegt, að maður, sem ræður svo miklu sem hæstv. dómsmrh., skuli þræða götu spillingarinnar eftir því svartasta fordæmi, sem hægt er að finna í sögunni, Sturlungaöldinni. Þegar höfðingjarnir svifust einskis til þess að koma sér til valda, heldur beittu öllum leyfilegum og óleyfilegum óþokkabrögðum. Þannig hefir hæstv. ráðh. gripið til ýmissa meðala, sem ekki hafa áður þekkzt í íslenzkri stjórnarfarssögu. Hæstv. ráðh. hefir leitað út fyrir landsteinana til þess að leita sér pólitísks stuðnings.

Ég skal ekki segja meira en ég hefi sagt um þann anda, sem hæstv. dómsmrh. hefir komið inn í íslenzkt stjórnarfar og stjórnmálabaráttu. Það, sem gleður mig mest, er það, að mér er ljóst, að hann er enn ekki kominn lengra í því að spilla pólitískum hugsunarhætti þjóðarinnar en svo, að ef hann bráðlega hverfur út úr íslenzku stjórnmálalífi fyrir fullt og allt, sem ég lengstra laga vona, þá held ég, að það geti vel gróið um heilt ennþá. Meðan hæstv. ráðh. var veikur ríkti allt annar andi í þingsölunum. Þá umgengust menn eins og vinir, en hæstv. ráðh. var ekki fyrr kominn á þingið en andinn breyttist.

Ég skal svo enda mitt mál með því að segja, að það er mín von, að það skaðræði, sem af þessum manni hefir hlotizt, megi nú fá enda og hans stjórnmálasaga fari að styttast. Og ég geri ráð fyrir, að það sé ekki aðeins mín von, sem þar kemur fram, heldur þori ég að fullyrða, að margir menn úr hans eigin þingflokki eiga enga sterkari þjóðmálaósk og jafnvel enga sterkari ósk í sínu eigin brjósti, en að hann megi hverfa út úr íslenzku stjórnmálalífi og þá heldur í dag en á morgun.