25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jörundur Brynjólfsson:

Það er síður en svo, að ég lasti það, þótt frv. þetta sé brotið til mergjar við þessa umr. Mér þykir einmitt gott, að drepið sé á sem allra flest þau atriði, sem málinu geta orðið til upplýsingar, áður en það er sett til n.

Hv. þm. Borgf. þótti það helzt til fast að orði komizt, er ég kallaði það stuld að fara á afrétti óviðkomandi manna og hrammsa þar yrðlinga úr grenjum án þess að fullvinna grenin, skilja eftir nokkuð af yrðlingum, og láta fullorðnu dýrin óáreitt. Ég skal ekki segja, hvað á að kalla þetta athæfi. En hér er þó verið þannig að verki, eins og um þjófnað sé að ræða; farið með hinni mestu leynd og tekið í stórum stíl verðmæti, sem öðrum ber. Auk þess er eyðslu dýranna spillt. En aðalatriðið með grenjavinnslunni er þó vitanlega að eyða dýrunum. Annars skal ég ekki karpa um það, hvaða nafn slíkum aðförum er gefið.

Það er alveg rétt hjá sama hv. þm., að hann talaði um þetta atriði við mig fyrir fáum dögum, en þá hafði ég ekki frv. við hendina, og gat því ekki vel sagt um þetta atriði, sem okkur kom naumast til hugar, þegar við sömdum frv., því þá höfðum við ekki hugmynd um þessi dæmi. Ég var því ekki eins viss um, hvort ákvæði frv. væru nógu skýr um þetta. Ég held nú reyndar, að þau séu það. 3. og 4. gr., ásamt sektarákvæðum 15. gr. frv., ættu að taka af allan vafa um þetta. Hinsvegar hefi ég þó ekkert á móti því, að þetta sé skýrar orðað.

Þá drap hv. þm. á það, að nánari ákvæði þyrfti en í frv. stæðu um grenjavinnslu, þar sem afréttarlönd margra hreppa liggja saman. Ég held nú, að það verði aðallega sýslnanna sjálfra að gera ákvæði um það. Ég sé þó ekkert því til fyrirstöðu, að sett séu inn ákvæði um það, ef heppilegra þykir.

Þá vék sami þm. enn að því, að heppilegra myndi, að hreppsnefndir réðu vökumann með skotmanni, heldur en að grenjaskyttan réði hann sjálf. Ég er nú ekki allskostar viss um, að þetta sé rétt hjá hv. þm. Ég held, að skyttan sjálf sé færari um að velja sér heppilegan og sér samhentan mann, sem m. a. gæti farið með byssu í forföllum skyttunnar. Efast ég um, að hreppsnefndir sæju eins vel fyrir þessu atriði. Að nokkur hætta sé á því, að skotmaður geri ekki sitt til að fullvinna gren, virðist mér ekki vera. Fyrst og fremst mundu hreppsnefndir velja þann mann til grenjavinnslu, sem þær treystu sæmilega. Og svo veitir 5. gr. frv. skyttunum fullkomið aðhald, þar sem hagnaður þeirra á jafnan að fara eftir því, hversu vel þeim tekst með vinnsluna.

Hv. þm. Barð. er engu að svara. Hann styrkti aðeins mál mitt, er hann sagði, að á Vesturlandi teldu menn sér óheimilt að veiða refi í löndum einstakra manna nema að fengnu leyfi. (HK: Ég þekki ekkert dæmi þess, að menn hafi tekið yrðlinga úr greni í leyfisleysi!).

Þá var það hv. þm. N.-Þ., sem vék nokkrum orðum að þessu frv. Á ræðu hans sást glöggt, hversu misjöfnum augum menn líta á þetta mál. Hv. þm. taldi jafnvel, að til greina gæti komið að sleppa dýrunum, þeim fullorðnu, en hirða aðeins yrðlingana. Ég get að vísu skilið þá hugsun frá sjónarmiði þeirra manna, sem eiga alla sína arðsvon undir yrðlingatökunni. En frá sjónarmiði þeirra, er sauðfjárrækt stunda, horfir það öðruvísi við. Sú stefna er vitanlega óþolandi frá þeirra sjónarmiði séð. Tófur eru hinir mestu skaðræðisgripir og geta gert sauðfjáreigendum stórtjón. Einmitt fyrir þá sök þarf að vanda sem bezt til útrýmingar á henni. Og einmitt nú, þegar hagnaður af uppeldi mórauðra yrðlinga er orðinn svo geysihár sem hann er, þá þarf með löggjöf að tryggja vinnsluna sem bezt.

Hagnaður af eldri yrðlinga, ef vel heppnast, getur orðið máske um 1.000 kr. af hverju pari, þó ekki sé nú minnzt á silfurrefina, sem dæmi eru til að seldir hafa verið á 60—100 þús. kr. parið. Fyrir mórauða; yrðlinga fallega, sem fæddir eru í dýragörðum, mun mega fá 2—3 þús. kr. fyrir parið. Einmitt hugsunarháttur þeirra mann, sem mestan geta hagnaðinn haft af yrðlingatökunni, kom fram í ræðu hv. þm. V.-Þ. Ég er því ekki viss um það, að rétt sé að fela sýslunefndunum meðferð þessara mála að miklu leyti. Hitt tel ég tryggara, að almenn lög séu um það sett, er hafi það aðalmarkmið að tryggja vinnsluna sem bezt. Hitt er vitanlega sjálfsagt, að sýslunefndir hafi eftirlit með vinnslu í hreppunum. Annars er hreppunum vitanlega sjálfum kunnugast, hvað bezt hentar um tilhögun á vinnslunni.

Ég held naumast, að það geti komið til mála, að einstökum mönnum verði leyft að sjá um grenjavinnslu í landi sínu. Slíkt væri allt of mikil áhætta fyrir allan almenning, sem á svo mjög mikið í húfi um það, hvernig vinnslan tekst. Einstakir menn, sem ekki áttu því meira á hættu sjálfir af völdum refanna gætu freistazt til að sleppa fullorðnu dýrunum, hirt aðeins yrðlingana.

Þá talaði hv. þm. um það hver selja ætti yrðlingana. Það verður auðvitað hlutaðeigandi hreppsnefnd, í samráði við skotmann, sem selur þá hæstbjóðanda. Og þar sem þeir aðilar hafa aðalhagsmuna að gæta um söluna í flestum tilfellum, þá er engin hætta á því, að þeir reyni ekki að selja þá fyrir bezta fáanlegt verð.

Um hitt atriðið, hvernig skipta beri þegar gren er í einstaks manns landi, skil ég ekki í, að neinn misskilningur geti átt sér stað. Það er auðvitað, að þegar frá er dreginn allur kostnaður, sem af vinnslu grensins hefir hlotizt, þá er afganinum skipt milli landeiganda og hlutaðeigandi hreppsfélags. Þetta hélt ég, að lægi alveg ljóst fyrir. Hér er líka aðeins um fá greni að ræða. Flest eru þau í afréttarlöndum.

Að síðustu talaði hv. þm. N.-Þ. um það, að sjálfsagt væri að hætta að eitra fyrir refi. Hér er ég alveg á sama máli og hv. þm., og einnig fyrir þá sök, að flestir munu nú orðið sammála um, að eitrun sé orðin gagnslaus aðferð til að eyða refum. Sama er og að segja um not dýraboga; það er með ráðnum huga gert að minnast ekkert á þessi atriði í frv. Við töldum þess ekki þörf.