05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jón Baldvinsson:

Það, sem mér og hv. landbn. ber á milli, er nú orðið svo ljóst, að ekki er þörf að rifja það upp. En hv. frsm. vildi gera ráð fyrir, að einhver rökvilla fælist í því að tala um „kot“ með stórar lendur. Það er nú víða svo til afdala, að þar eru smábæir með lítil eða engin tún og litlar engjar, en víðáttumikið fjallerindi, sem tilheyrir jörðinni. Þetta er algengt á Vestfjörðum, þar sem ég er alinn upp og þekki bezt til. Á þessum slóðum halda sig oft margar tófur. Því var það alveg rétt, sem ég sagði um þetta atriði.

Vel þekki ég máltækið, sem hv. frsm. var eitthvað að tæpa á, „sjaldan bítur gamall skolli nærri greni sínu“. Ef þetta væri rétt, eins og hv. frsm. virtist halda fram, ætti það að vera beinn vinningur að hafa tófur í landi sínu, til þess að gæta kindanna. Þær væru þá einskonar varðhundar og hið mesta skaðræði fyrir eigandann að fá þeim útrýmt. Ég held raunar, að þetta sé einskonar hjátrú, sem e. t. v. styðst við einstök dæmi, en yfirleitt munu tófur bíta fé í námunda við gren sín eins og fjarri því, þótt þær bíti kannske ekki alveg við þau. Reynslan mun og hafa sannað það, að mest er dýrbitið af fé hjá þeim bændum, er hafa gren í landi sínu.

Hv. frsm. vildi ekki leggja kostnaðinn af dýralækniseftirlitinu á refabúin, af því að refarækt gæti orðið svo arðvænlegur atvinnuvegur. Einmitt þess vegna finnst mér nú, að ekki þurfi að horfa í þannig smákostnað við refabúin. Mér finnst ekki hafa komið fram fullkomin rök fyrir því að fella niður þetta eftirlit. Ég er ekki heldur viss um, að frv. fái eins góðar viðtökur í hv. Nd., ef þessu verður breytt.

Brtt. þá, sem ég talaði áðan um að koma með, hefi ég hér að vísu til skriflega, en ætti samt líklega að fresta því til 3. umr. að bera hana fram. En hv. þd. veit nú, hver ágreiningurinn er.