09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Ég gerði allrækilega grein fyrir till. minni hl. í fyrri ræðu minni, að framvegis þyrftu að gilda um það ákveðnar reglur, hvernig semja skuli fjáraukalög. Um það ætti ekki að vera ágreiningur. Það var viðurkennt af hv. 1. þm. Skagf., sem er endurskoðandi landsreikninganna, hv. frsm. meiri hl. og hæstv. fjmrh., að um samningu fjáraukalaga giltu nú engar fastákveðnar reglur. Þessi vandkvæði vill minni hl. leysa með till. sínum, og það er þeim mun léttara að koma með lausnina, sem hún er ákveðin í sjálfri stjórnarskránni. Ætti því ekki að vera þörf á að deila um, hvernig fjáraukalög skuli samin, en til áréttingar skal ég leyfa mér að lesa upp það ákvæði stjskr., sem lýtur að þessu, enda þótt ég hafi lesið það upp áður, því að aldrei er góð vísa of oft kveðin. Vænti ég, að hæstv. forseti leyfi mér að hafa þessa góðu vísu aftur yfir hér í deildinni: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Þegar svo skýrt er kveðið að orði, ætti ekki að þurfa um það að deila, að svo á að vera sem minni hl. leggur til.

Hæstv. fjmrh. kvaðst fallast á till. meiri hl. En í þessu efni eru till. meiri hl. líkar till. minni hl. Meiri hl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin vill vekja athygli stj. á því, hvort ekki muni rétt að taka upp annað form á fjáraukalögunum en verið hefir, þannig að teknar yrðu í fjáraukalögin allar frávikningar frá fjárlögum“. Í þessu kemur fram, að meiri hl. vill einnig fara eftir stjskr. í þessu efni. Hann kveður aðeins veikar að orði, ef til vill af því, að hann er hræddur við að styggja sína eigin stjórn. En þar sem meiri hl. nefnir „allar frávikningar“, þá getur minni hl. auðvitað ekkert haft á móti því, að það sjáist, ef minna er eytt á einhverjum lið en fjárlög heimila. En minni hl. vill taka strax á næsta ári upp þá sjálfsögðu reglu, sem felst í stjskr., að taka allar greiðslur á fjáraukalög, og er þetta aðalástæðan til þess, að hann vill samþ. frv. óbreytt, eins og stj. lagði það fyrir þingið. Hann vill ekki gera nú breytingar á fjáraukalögunum, sem eru brot á þeirri meginreglu, sem hann vill fylgja í framtíðinni.

Auk þessarar aðalástæðu minni hl. hefir hv. 1. þm. Skagf. dregið fram önnur rök til þess, að liðir eins og umframgreiðslur samkv. berklavarnalögunum og jarðræktarlögunum séu teknir á fjáraukalög. Þótt þessi gjöld séu ákveðin í lögum, þá getur það farið mjög mikið eftir ráðsmennsku stj., hvort þau verða mikil eða lítil. En þá er fyllsta ástæða til að láta þessar greiðslur koma í fjáraukalög.

Ég skal fúslega játa, að það skiptir litlu máli, hvort frv. verður látið standa svo, sem hæstv. stj. vildi í upphafi, þegar hún lagði það fram, og minni hl. vill, eða hvort brtt. meiri hl. verða samþ. En hitt skiptir miklu máli, að sú meginregla sé upp tekin að fara eftir stjskr. í þessu efni. Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. stj. sjái sér fært að lýsa yfir, að þessi regla verði tekin upp.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. þá yfirlýsing hans, að hann féllst á þær almennu hugleiðingar mínar um framyfirgreiðslur bæði fyrr og síðar. Hæstv. ráðh. gat þess, að sumar greiðslur er stj. skylt að inna af hendi, svo sem þær, sem ákveðnar eru með sérstökum lögum. Einnig getur breytt aðstaða og önnur atvik valdið því, að stj. neyðist til þess að greiða fé umfram heimild í fjárlögum. En meginreglan á þó að vera sú, að stj. fari beinlínis eftir fjárl. sem öðrum lögum. Þetta nær ekki til þeirra liða, sem eru áætlaðir, en um alla fasta liði er stj. skylt að fara eftir ákvæðum fjárl. Þetta þarf að komast skýrt og ákveðið inn í hug og meðvitund þingsins.

Eitt atriði var það í ræðum hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl., sem ég get ekki fallizt á, sem sé það, að verði tekjur meiri en búizt var við, þá væri það undirskilið, að stj. mætti auka framkvæmdir í vegagerðum. Þetta álít ég ekki heimilt. (Fjmrh.: Ég sagði ekki, að það væri heimilt). Hv. frsm. meiri hl. hélt því fram. (HJ: Ég sagði það vera undirskilið). Það er alls ekki undirskilið. Ef því væri þegar slegið föstu, að stj. mætti verja til framkvæmda þeim tekjum, sem umfram væru áætlun, þá yrði aldrei afgangur. Því að þegar stj. vill framkvæmdir — og það vilja allar stjórnir, því að það er vel séð af almenningi —, þá mundi það ekki hafa heppileg áhrif á fjárhaginn, ef hún teldi sig hafa heimild til að eyða því fé, sem væri umfram áætlaðar tekjur. Sjá allir, að í góðærum yrði öllu eytt og ekkert yrði afgangs til vondu áranna. En það er svo óheppileg fjármálastefna sem mest má verða. Án þess að deila um, hvaða stj. sé sekust í þessu efni, verður að slá því föstu nú, að stj. verður að virða föstu liði fjárl. og hefir enga heimild til þess að fara fram úr þeim. Annars mun raunin verða sú, að stj. tekur fjárveitingarvaldið í sínar hendur. Það vald má þingið ekki fá stj., því að þá missir það öll tök á fjárhagnum.