09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

2. mál, fjáraukalög 1928

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. meiri hl. kveður í nál. og brtt. vera farið eftir þeirri tilhögun, sem höfð var á fjáraukalögunum 1920—21. Þetta getur ekki komið heim um stærstu liðina, sem meiri hl. vill fella niður, greiðslur samkv. berklavarnalögunum og jarðræktarlögunum, því að þeir voru þá ekki til. Berklavarnalögin voru samþ. á þingi 1921 og gengu í gildi að ég ætla 1. jan. 1922. (HJ: Það er þó vitnað í þau lög). Nei, þar er að ræða um önnur lög, fátækralögin; samkv. þeim var hlaupið undir bagga með fátækum hreppsfélögum, sem þurftu að greiða með berklasjúklingum í sjúkrahúsum. Ef til vill ætlar hv. þm. líka, að jarðræktarstyrkur sé í fjáraukalögunum 1920—21, þó að þau lög hafi ekki verið sett fyrr en 1923. Annars þarf ég ekki að deila lengi við hv. frsm. meiri hl., því að ég finn, að hann er í raun og veru sammála okkur hv. frsm. minni hl. Einungis vill hann nú fella niður þessa liði, til þess að lækka fjáraukalögin fyrir sinni eigin stj., og þykist ég vita að nóg atkv. mun fást til þess nú. En ég er í þessu máli að hugsa um framtíðina.

Ég heyri á hæstv. fjmrh., að verði brtt. meiri hl. samþ., sem auðvitað verður, þá ætli hann ekki að breyta neitt til um tilhögun fjáraukalaganna. Ég leyfi mér þá að spyrja hv. frsm. meiri hl. og meðnm. hans, hvort þeir vilji taka höndum saman við okkur og kippa þessu í lag með þáltill., því að ég fer ekki fram á, að þeir geri hæstv. stj. það til miska, að þetta verði fært í rétt horf nú með því að hætta við að lækka fjáraukalögin. Ég vænti, að hv. þm. svari þessu.

Við erum sammála um, að ýmsar greiðslur í 25. gr. ættu að koma í fjáraukalög. Það er aðeins um þessar stóru greiðslur, sem okkur skilur á, en um það skal ég ekki þrefa meira. Annars svaraði hv. frsm. meiri hl. engu því aðalatriði í mínu máli, að stj. getur ráðið miklu um, hve háar þær verða. Hæstv. fjmrh. viðurkennir, að svo sé um berklavarnakostnaðinn og sagði, að lægi við málsókn á hendur stj. vegna sparsemi hennar. Þarna sér hv. frsm. meiri hl., að stj. hefir mikinn íhlutunarrétt, hve há gjöldin verða. Þá verður ekki sagt, að sá liður sé lögákveðinn. Upphæðin sjálf er það ekki, og getur oltið á hundruðum þúsunda. Ef fella ætti alla þá liði úr fjáraukalögum, sem hafa einhverja stoð í lögum, þá mundu aðeins örfáir standa eftir. Eða ætla nokkrir þm., að stjórnir greiði stórfé úr ríkissjóði án þess að nokkur stoð sé fyrir því í lögum? Það er ákveðið, að halda skuli uppi sjúkrahúsum, póstferðum o. s. frv., en upphæðin er ekki fastákveðin. Margar af þessum framyfirgreiðslum eru teknar í fjáraukalög, og hefir ekki verið að fundið. En af því að þeir liðir, sem hér ræðir um, eru svo háir, á 6. hundrað þús., þykir hv. meiri hl. slægur í að strika þá út og lækka frv. um þetta.

Ástæðan til þess, að áður fyrr var vikið frá stjskr. í þessu efni, hygg ég að hafi verið sú, að ef lög heimiluðu fjárgreiðslu, þá var litið á þau lög sem fjáraukalög að þessu leyti. Þetta gat gengið, meðan þau lög voru fá, sem heimiluðu fjárgreiðslur. En nú er greitt eftir mýmörgum lögum, og sumum harla óákveðnum, og er þessi regla því nú orðið áhafandi. Því verður nú að skipta um. Ég hefi ekki sagt, að þingið hafi brotið stjskr. í þessu efni. En ég segi, að stjskr. hafi smátt og smátt verið teygð lengra en góðu hófi gegnir með þessari skýringu, að lög, sem heimili greiðslur úr ríkissjóði, séu í raun og veru fjáraukalög.

Það er venjulega svo, að flestar stj. eru heldur á móti því, að mikið sé tekið upp í fjáraukalög. Þess vegna held ég, að hyggilegast sé að búa til og fylgja svo skýrum reglum um þetta, að ekki orki neinna tvímæla, og þá sé ég ekki, að nein regla sé betri en sú, sem orð stjskr. benda til, að taka allt, sem greitt er umfram fjárlög, upp í fjáraukalög.

Svo spurði hæstv. fjmrh., hvernig stj. gæti svo sem sparað eftir jarðræktarlögunum, og mér virtist hann álíta, að þetta væri einhver voðaleg fjarstæða. (HJ: Hvernig er það með sýsluvegasjóði og fjárveitingar til þeirra? Er það framkvæmdaratriði?). Það er ekki framkvæmdaratriði, sem stj. hefir ráð yfir, heldur sýslunefndir, og tel ég sjálfsagt að taka það upp í fjáraukalög, til þess að fylgja ákvæðum stjskr. Ég viðurkenni, að það er breyting frá því, sem áður hefir verið; en ég vil breyta til, og mér skilst, að hv. þm. V.-Húnv. vilji það líka.

Svo að ég víki aftur að jarðræktarstyrknum, þá sagði hæstv. fjmrh., að stj. gæti engu ráðið um hann. Það hafa nú um nokkurn tíma drifið að mér bréf frá bændum, um að stj. hafi lækkað þennan styrk, og ég get ekki annað en viðurkennt, að stj. hafði fulla lagaheimild til þess. Það var nefnilega ekki eins og hæstv. fjmrh. sagði, að stj. hefði enga hlutdeild í þessu. Hún ákveður, hve mikið eigi að fara í hvert dagsverk, og svo er styrkur veittur fyrir dagsverk. En það sjá allir, að því meira, sem lagt er í dagsverk, því minni er styrkurinn. Svo að það er hárrétt, sem ég sagði, að stj. hefði vald til þess að ráða miklu um jarðræktarstyrkinn.

En það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., ef hann hefir skilið orð mín og hv. þm. Dal. þannig, að stj. væri undir öllum kringumstæðum óheimilt að fara fram yfir fjárveitingar. Það hefir mér aldrei dottið í hug að segja. Ýmis gjöld eru þannig, að það er óhjákvæmilegt oft og tíðum. En það, sem við hv. þm. Dal. höfum haldið fram, er, að allar umframgreiðslur eigi að taka upp í fjáraukalög á eftir.

Ég skildi á hæstv. fjmrh., að hann vill ekki breyta frá þeirri reglu, sem fylgt hefir verið, nema fram komi sérstök þáltill., eða ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo. Hann kvaðst mundu fara í þessu efni eftir því, hvort till. meiri hl. féllu eða yrðu samþ. Nú getur auðvitað ekki orkað tvímælis um, hvort þær verði samþ.; það er gefinn hlutur, að það, sem stjórnarflokkarnir standa saman um, verður samþ. Og enga ástæðu hefi ég til að ætla, að þeir fari að tvístrast um þetta atriði, sem að vissu leyti er mjög lítilsvert.

En það, sem ég á einungis eftir, er að endurnýja fyrirspurn mína til hv. frsm. meiri hl. um það, hvort hann vill vera með í að flytja þáltill. um að taka framvegis upp í fjáraukalög allt, sem greitt er umfram fjárlög.