08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

3. mál, landsreikningar 1928

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Ég vildi aðeins, að því er snertir atriðið um ensku pundin, lýsa yfir því, að þar sem hæstv. fjmrh. hefir sagt, að hann mundi fara eftir því, sem n. leggur til um það atriði, þá er ekki þörf á að ræða það frekar.

En að því er síðara atriðið snertir, þá er það rétt, að það, sem kemur fram í nál., er ekki bindandi fyrir ríkisstj. Ég tók það líka fram í fyrri ræðu minni, að ef það hefði átt að fara að úrskurða reikninginn, þá hefði þurft að gera það með þáltill., en n. fannst ekki ástæða til að gera breyt. við þennan reikning. En hinsvegar virðist n. það vera svo sjálfsagt, að hæstv. stj. líti nokkuð líkt á þetta og nefndin, því þar sem Landsbankinn hefir afskrifað þessa upphæð og á ekkert fyrir henni, þá nær ekki nokkurri átt að telja þessa upphæð sem fulla eign ríkissjóðs.

Hinsvegar verður þetta eign fyrir ríkissjóðinn, ef Landsbankinn vinnur sig upp, sem vonandi er, og er því rétt að tilfæra hana á landsreikningnum sem eign samtímis því sem Landsbankinn færir hana eða hluta af henni á reikning sinn.

Aftur má upphæðin standa öll innan striks, til þess að minna á hana, eða sá hluti hennar, sem ekki er búið að færa utan striks.

Eins og nú stendur, veit enginn, hvers virði þessi upphæð er, og í raun og veru gæti hún verið einskis virði, ef óhöppin héldu áfram að elta Landsbankann.