08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

3. mál, landsreikningar 1928

Hákon Kristófersson:

Það er misskilningur, ef hæstv. fjmrh. heldur, að ég hafi ætlað að byrja á nýjum eldhúsdegi. Ég vildi bara heyra álit hæstv. stjórnar um ýms atriði, er um var spurt, (Forsrh.: Um hvað?). Úr því að stj. álítur sæmandi að svara ekki kurteislegum spurningum, verð ég víst að árétta þær. Hvernig stendur á þessum greiðslum? Það virðist eins og hæstv. stj. vilji ekkert uppi láta um þessar eða aðrar gerðir sínar.

Hv. þm. Dal. er kominn héðan, enda skal ég ekki ráðast á hann. Hann talaði um hatur hjá mér. Ég held, að þó ég sé haldinn af mörgum ókostum; þá sé ég algerlega laus við haturs- eða hefndarhug til nokkurs manns. (ÓTh: Alveg rétt). Það er engin haturshugsun, sem þarf að vera því valdandi, þó ég tali um málið með fullri hreinskilni. Þau ummæli hv. þm., að ég hafi viljað setja skólann í Barðastrandarsýslu, eru algerlega ósönn. Ég hefi ekkert um það sagt. Hinu hefi ég fyrr og síðar haldið fram, að skylda hefði verið að fara eftir fyrirmælum gjafabréfs frú Herdísar Benediktsen, sem m. a. ákvað, að leitað skyldi umsagnar allra sýslunefnda í Vesturamtinu, en slíkt hefir aldrei verið gert. Þó er það vitað, að samkv. konunglegri tilskipun frá 1908 var það bein skylda.

Hv. þm. talaði um, að það væri ágætt að koma að Staðarfelli. Ég efa það ekki. Það er ágætt að koma á marga bæi. Það finnast dæmi til þess, að menn hafi fengið dannebrogskross fyrir að gefa gestum gott að borða. Hv. þm. Dal. kom að Staðarfelli í fyrravor, og mér er svo tjáð, að þar muni hafa verið góður matur á borðum, enda mátti svo vera, því sagt er mér, að sú fyrirgreiðsla hafi kostað ríkissjóð 1.000 kr.