03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla ekki að svara hv. 4. landsk. þm. almennt. Það hefir hæstv. forsrh. gert.

Það fyrsta, sem hv. þm. beindi til mín, var um landsspítalann. Ég svaraði þessu nokkuð í Nd. um daginn, og ætla að geyma mér að svara því hér, þar sem það liggur hér fyrir fyrirspurn frá hv. 2. landsk. um þetta efni, sem ég býst við að svara næstu daga. Vona ég, að hv. þm. láti sér það nægja.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði dregið viðbúnað spítalans. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Ég er almennt stuðningsmaður spítala landsins.

Þá talaði hv. þm. um þann möguleika að koma á sjúkrastarfsemi á Reykjum í Ölfusi með nokkuð öðru móti en áður hefir þekkzt. Þetta verður náttúrlega ekki nema með stuðningi Alþingis, og ég vona, að hv. 4. landsk. styðji það mál fyrst honum er svo annt um spítala.

Það, sem hv. þm. mun hafa átt við, er sú sparnaðarviðleitni, sem hver stj. verður að sína í rekstri þjóðarbúsins. Og það er rétt, að heilbrigðisstjórn með stuðningi landlæknis hefir gert ráðstafanir til meiri eyðslu til spítala en verið hefir. Almennt talað álít ég það ekki lastvert. Mín stefna er, að það séu hæfilega margir spítalar, og þeir séu skynsamlega reknir. Það er því engri óþarfa eyðslu til að dreifa. Hvort þetta lánast í einstökum atriðum, skal ég ekki segja, en þetta er mín viðleitni.

Þá gat hv. þm. þess, að það hefðu verið nokkuð miklar umframgreiðslur, einkum til Laugarvatnsskólans. Það er mála sannast, að það hafa orðið nokkrar umframgreiðslur til skóla yfirleitt, t. d. til menntaskólans. Vona ég, að aðgerð við þann skóla verði lokið í sumar. Um Laugarvatnsskólann er það að segja, að byggingarnefnd skólans hefir sýnt mikinn dugnað í því að koma því verki ááfram með þeim grundvallarskilyrðum, sem Alþingi byggði á. Það hefði ekki verið lagt út í þetta síðastliðið ár, ef það hefði ekki verið tiltölulega gott ár, og því áleit ég rétt að koma skipulagi á þessa skóla. Það lítur líka út fyrir, að næstu ár bætist ennþá a. m. k. einn skóli við í sveit. En sérstaklega eru það þó skólarnir í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum, sem skipta máli, og þegar búið er að gera það, sem þarf fyrir þá skóla, þarf ekki að gera það aftur. Frv. um alþýðuskóla í kaupstöðum sýnir slíka, að umhyggja stj. er ekki bundin við einn stað, heldur miðar hún að því að þoka fræðslumálunum áfram í landinu.

Þá er nú í Borgarfirði samskonar mál á ferðinni og var austan fjalls. Það lítur úr fyrir, að Borgfirðingar og Mýramenn hafi nú um 80 þús. kr. og búist við að fá jafnmikið á móti úr ríkissjóði. Það er ekki alveg víst, hvernig því lýkur. Það getur verið, að það verði ekki nema um tvennt að velja fyrir stj., annaðhvort að taka lán til að framkvæma þetta, eða að málið verður að stranda á því, að ríkið getur ekki lagt á móti. Ég vil benda á það sem lofsvert fordæmi, að hv. þm. Dal., þegar hann var í stj., lét verja um 70 þús. kr. til aðgerðar á húsi gagnfræðaskólans á Akureyri á þeim erfiðu tímum 1923. Sú aðgerð, sem fram hefir farið austan fjalls og nauðsynleg hefir verið, hefir líka borið góðan árangur.