11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

361. mál, fjáraukalög 1929

Pétur Ottesen:

Í þessu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1929, sem hæstv. stj. hefir borið fram, er að venju gerð í aths. grein fyrir greiðslum þeim, sem standa í frv. Frá þessu er þó ein undantekning, sem sé 9. liður, 3.000 kr. utanfararstyrkur til Magnúsar Torfasonar, sýslumanns í Árnessýslu. Fyrir þessari greiðslu er engin grein gerð. Við 1. umr. þessa máls var hæstv. stj. spurð, hvað lægi til grundvallar þessari greiðslu. Ekkert svar. Í fjvn. var hæstv. stj. spurð um hið sama. Ekki heldur neitt svar. Við 2. umr. þessa máls var stj. enn spurð. Enn sama þögnin. Í tilefni af þessu höfum við nú þrír úr fjvn. flutt brtt. um að fella þennan lið niður af fjáraukalögum, og tilgangurinn er, að Alþingi samþykki ekki greiðsluna. Okkur finnst það vera hið minnsta, sem þingið getur farið fram á, þegar stj. greiðir eitthvað án heimildar, að stj. geri fulla grein fyrir greiðslunni. Það er og yfirleitt svo, að þetta er gert, og þetta mun vera eina undantekningin, a. m. k. í þetta sinn. Við höfum því gert þessa tilraun, til þess í fyrsta lagi að knýja fram svar, og í öðru lagi að leggja það á vald þingsins, hvernig það lítur á heimild stj. til greiðslu utan fjárlaga; hvort stj. er heimilt að greiða fé í heimildarleysi, án þess að gera grein fyrir. Þetta liggur nú fyrir hv. deild, og verður eftirtektarvert, hvernig atkvgr. fellur.