16.04.1930
Efri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

361. mál, fjáraukalög 1929

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég mun, þar sem liðið er af miðnætti, ekki halda langa framsöguræðu. N. hefir tekið fram á þskj. 548 það, sem þurfa þykir. En ég vil þó taka það fram, að n. hafði lítinn tíma til starfa, enda ber nál. það að nokkru leyti með sér. Í því er nefnil. einn misgáningur, sem ekki hefði átt að vera. Þar er sagt, að hv. Nd. hafi setið á þessu frv. nærri allt þingið. En þetta er skylt að leiðrétta, því frv. var ekki lagt fram þar fyrr en seint í marz. En frv. er ótölusett og því illt að átta sig á því, hvenær það var lagt fram. Hinsvegar vissi n., að fjáraukalagafrv. var lagt fram í Nd. snemma þings, en það var fyrir árið 1928. Þetta villti. En það er þá stj., sem hefir verið seint tilbúin með það.

N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Hyggur hún, að þær greiðslur, er það getur um, séu hvorki verr né betur rökstuddar en gerzt hefir á undanförnum þingum um fjáraukalög. En sú almenna röksemd fylgir frá n., að æskilegast sé, að sem allra minnst sé gert að því að greiða upphæðir utan fjárlaga.

Skal ég svo ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu, en vil fyrir n. hönd leyfa mér að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.