14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil aðeins þakka hv. meiri hl. sjútvn. fyrir að flytja þetta frv. Ég hefi litlu að bæta við það, sem hv. frsm. sagði. Frv. er sprottið af viðtali stj. við bankastjóra Landsbankans, til þess að stuðla að því, að sem minnstar hindranir yrðu á útgerðinni vegna lokunar Íslandsbanka.

Ég hygg það megi vona, að þessari ábyrgð fylgi ekki mikil áhætta. Aðaláhættan, er fylgir slíkum rekstrarlánum, sem hér er um að ræða, er sú, að þeim skipum, sem lánin eru veitt til, hlekkist eitthvað á. Eins og frv. ber með sér, þá er hér um bráðabirgðaráðstöfun að ræða á yfirstandandi vetrarvertíð.

Það er búizt við, að á þessu þingi verði síðar teknar ákvarðanir út af því stóra máli, sem hér hefir verið til umr. undanfarið. Þó að ágreiningur hafa verið hér í hv. d. um það, hvernig ætti að afgreiða málið um stöðvun Íslandsbanka, þá vona ég, að enginn ágreiningur rísi um þetta frv.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að leita afbrigða um þetta frv. hér í d., og vona, að hv. þdm. bregðist vel við því, svo að málinu verði lokið í dag með nægilegum hraða til þess að það geti líka gengið í gegnum Ed. Nú um helgina þarf að gera ráðstafanir til þess að greiða úr lánsþörf útvegsmanna í Vestmannaeyjum.