09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. Páll Hermannsson:

Fjvn. þessarar deildar hefir nú sem að undanförnu reynt að hraða störfum sínum svo, sem auðið var. Þess virtist líka þörf, þar sem 76 dagar voru liðnir frá þingsetningu þar til frv. var lagt fram hér til 1. umr. En þar sem frv. er þó komið hér til 2. umr., mætti ætla, að fjvn. hefði kastað til þess höndunum með því að hafa það ekki lengur en eina viku hjá sér. Í raun og veru hefir þó fjvn. hér haft frv. lengur til meðferðar. Stafaði það frá þeirri nýbreytni Nd. að ganga frá 3. umr. þar, að því er allar brtt. snerti, áður en eldhúsdagur var háður. Við það vannst það, að fjvn. hér fékk frv. 10 dögum fyrr og gat notað þann tíma til að athuga það og vinna að því. N. hefir því í raun og veru haft talsvert lengri tíma en í fyrra og nokkru lengri en í hitteðfyrra til athugunar á frv.

Þess má geta, að n. hefir starfað á líkan hatt og undanfarið. Hún hefir kynnt sér þær breytingar, sem eru á frv., samanborið við fjárl. nú og fjárl. fyrri ára. Þá hafa þær breytingar, er Nd. gerði á frv., verið athugaðar. Eins þau erindi og skjöl, sem til n. hafa borizt. Á þessu hefir n. svo byggt sínar till.

Þess er og vert að geta, sem öllum mun þykja eðlilegt, að n. hefir ekki verið sammála um allar brtt. sínar. Er slíks vitanlega aldrei að vænta. Hygg ég þó, að sá ágreiningur muni ekki koma svo mjög fram í umr. en vitanlega kemur hann fram við atkvgr. á sama hátt og í n. sjálfri.

Frv. það, er stj. lagði fyrir þingið, gerði ráð fyrir útgjöldum að upphæð 12157 þús. kr. Nd. skildi við frv. þannig, að útgjöldin voru 12783 þús. kr. Reikningsleg hækkun var því 626 þús. kr. En í því sambandi má þó geta þess, að af þessari hækkun eru 90 þús. kr. aðeins jafnaðarfærsla; þannig að 2 liðir, sem ekki heyra ríkissjóði til, eru teknir inn í 4. og 5. lið 5. gr., sem er Menningarsjóður. 15 þús. kr., og Þjóðleikhús, 75 þús. kr., eða samtals 90 þús. kr. Þessir liðir eru færðir til útgjalda á 48. og 49. lið 15. gr., þar sem þeir eiga að vera. Sú raunverulega hækkun er því 536 þús. kr.

Af þessum 536 þús. kr. eru 100 þús. kr. leiðréttingar á frv. stj., sem. ýmist hefir gleymzt eða hækkað síðan stj. samdi frv. sitt, vegna nýrra upplýsinga. Má því í raun og veru segja, að sú raunverulega hækkun Nd. nemi. rúmum 400 þús. kr.

Þegar nú á það er litið, að þessi mikla hækkun varð á fjárl. í Nd., þá má vitanlega búast við, að hér komi einnig fram till. til hækkunar. Allir þm. hafa einhverjar óskir um góðar og gagnlegar framkvæmdir. Og þar sem hér er 1/3 þm., þá má gera ráð fyrir, að þær komi fram eins hér og í Nd. En þegar hinsvegar er litið á það, að útgjöld fjárlagafrv., eins og það er nú, eru 870 þús. kr. hærri en áætlun gildandi fjárl., þá er einnig eðlilegt, að nauðsynlegt þyki að draga úr þessum útgjöldum. Rétt er þó að geta þess, að þótt frv. bendi til hærri útgjalda en á yfirstandandi ári, þá stafar það að nokkru frá réttari áætlun en er í fjárl. 1930. Ég vil sem dæmi nefna 9. lið 11. gr., landhelgisgæzluna. Hún er í gildandi fjárl. áætluð úr ríkissjóði 200 þús. kr. En í frv. er áætlað 300 þús. kr. Ætti það að vera nær hinu rétta. Sama er að segja um 1. lið 17. gr., berklavarnastyrkinn. Nú er hann 600 þús., en í frv. 800 þús. áætlaður. Enda þótt sá liður fari árlega hækkandi, þá ætti hann þó að fara minna fram úr áætlun en áður. N. hefir í áliti sínu sundurliðað þá útgjaldahækkun, sem varð á frv. í Nd. Kemur þá í ljós, að mest hefir hækkað á 4 liðum, og þá mest á liðnum til samgöngumála, s. s. vita, hafna, flugferða o. fl., 200 þús. kr.; þá um 75 þús. kr. til verklegra framkvæmda og 70 þús. kr. til skóla. Loks hafa persónustyrkir numið 45 þús. kr. N. þótti sárt að minnka liði til verklegra framkvæmda. Vill hún tæplega gera það nema í hinni brýnustu þörf, og þá til þess að fá nauðsynlegan jöfnuð á tekjur og gjöld ríkisins. Hefir hún því tekið þann kost að lækka persónustyrki og styrki til einstakra félaga, og þá einkum þeirra, sem ekki hafa undirbúið starfsemi sína eða gefið þá raun, að n. telji, að rétt sé að halda áfram að styrkja þau.

Ég geri nú ráð fyrir því, að hv. þm. þyki þessi inngangur orðinn nægilega langur. —Vík ég þá að brtt. n. í sömu röð og þær standa á þskj. 436. En fljótt verð ég þó að fara yfir sögu, þar sem brtt. eru 50, en d. er. þegar orðin fáskipuð.

1. brtt. er við 11. gr. Er það, að liðurinn til endurskoðunar skipamælinga falli niður. Þetta er aðeins tilfærsla og upphæðin sett á 22. lið 16. gr., sem er um eftirlit skipa og báta. Fer betur á því, að þessir liðir, sem eru sömu tegundar, standi saman.

Við 12. gr. eru 3 brtt. Sú fyrsta er, að 8. liður 12. gr. falli niður. Í þessari gr. eru nokkrir sérfræðilæknar, sem njóta styrks með því skilyrði, að þeir kenni við læknadeild háskólans og veiti auk þess fátæku fólki læknishjálp á ákveðnum tímum. Eina undantekningin frá þessu er Jón Kristjánsson nuddlæknir. Er honum ekki gerð að skyldu nein kennsla og er svo að sjá, að læknadeild háskólans telji þess ekki þörf. Hinsvegar lítur n. svo á, af sínu leikmannsviti, að slík læknishjálp sem þessi komi almenningi að litlum notum, þótt ókeypis sé veitt 4 sinnum í mánuði, og leggur því til, að styrkurinn sé felldur niður.

Þá er einnig 3. og 4. brtt. n. á þskj. 436, við 12. gr., 16 o og 16 p. Hið fyrra er 1000 kr. sjúkrastyrkur til Unnar Vilhjálmdóttur, en hið síðara 2 þús. kr. sjúkrastyrkur til Lúðvígs Guðmundssonar, til þess að leita sér lækninga erlendis. N. var sammála um það, að litlar líkur væru til, að þingið gæti úthlutað sérstökum sjúkrastyrkjum þannig, að réttlátt yrði. Það er langt frá, að n. hafi þá skoðun, að ekki kunni að vera til margir menn í landinu, sem þurfi á slíkum styrk að halda. En hún álítur í fyrsta lagi tilviljun, hverjir sæki um slíkan styrk, og í öðru lagi líka tilviljun, hverjir umsækjendur kæmu til greina hjá þinginu. Því vill n. leggja til, að þingið leiði hjá sér að veita slíka styrki.

Í raun og veru er það sama að segja um marga aðra persónulega styrki. Af þessum ástæðum leggur n. til, að ýmsir slíkir styrkir falli niður, án þess þó að leggja dóm á þessi sérstöku tilfelli að öðru leyti.

Við 13, gr. er aðeins ein brtt., um það, að stafliður F verði stafliður D, og er það gert til samræmis. N. þótti fara betur á því, að vitamálin væru látin fylgja öðrum þeim liðum, sem heyra til samgangna á sjó.

Þá er ég kominn að 14. gr. 6. brtt. er, að liðurinn A. b. 7 falli niður. Það er 3000 kr. fjárveiting, fyrsta af þremur, til þess að reisa kirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, sem helguð sé nafni og minningu Hallgríms Péturssonar. Ráð er fyrir því gert, að þessi bygging kosti 45 þús. kr. Nú er til samskotafé, að upphæð 16834 kr., sjálf Saurbæjarkirkja á 1245 kr., loforð frá Saurbæjarsöfnuði er fyrir um 5000 kr. til byggingarinnar. Þetta er til samans 23079 kr., eða rétt um helmingur af áætluðum byggingarkostnaði. N. þótti þetta fé, sem fyrir hendi er, of lítið til þess að ráðast þegar í verkið, en gert var ráð fyrir að hefjast þegar handa á næsta ári. Vill n. láta meira fé safnast fyrst. En enginn skyldi líta svo á, að n. ekki fullkomlega viðurkenni það, að skylt væri það þjóðinni að halda í heiðri nafni og minningu Hallgríms Péturssonar.

7. brtt. er við I. d., að niður falli 1000 kr. fjárveiting til kennslu í söng við háskólann. Þetta er tiltölulega nýr liður, er ætlaður er sérstaklega til kennslu í tóni. Meiri hl. n. kom saman um það, að komast mætti hjá þessari kennslu, og prestar hefðu tónað vel áður en þessi kennsla kom til, og leggur því til, að liðurinn falli niður.

Þá er 8. till. við I. i. Það er rekstrarstyrkur til rannsóknarstofunnar. Lagt er til, að reksturskostnaður verði 6000 kr. í stað 2500, en þar falli niður sérstök borgun, sem dósentinum er ætlað fyrir forstöðu stofunnar, að upphæð 5000 kr. Höfuðástæðan er sú, að n. þykir líklegt, að sameina megi forstöðu rannsóknarstofu háskólans við forstöðu rannsóknarstofu í þarfir atvinnuveganna, sem á sínum tíma á að stofna samkv. lögum frá þinginu í fyrra. Það komu reyndar fram raddir í n., að þessi liður, sem ætlaður er til forstöðumannsins, 5000 kr., væri fullhár, sérstaklega þegar litið er á það, að einmitt með lögum frá þessu þingi eru bætt talsvert launakjör dósenta við háskólann, og þegar litið er líka á það, að þarna er um að ræða algert aukastarf. En það, sem mestu réð um þetta, var það, að n. bjóst við að sameinuð yrði forstaða þessara tveggja stofnana, og gæti þá svo farið, að hennar dómi, að Niels Dungal yrði valinn fyrir starfið.

Ég hefi þá einnig gert grein fyrir 9. brtt., um að fella niður fjárveitingu til Niels Dungals.

Þá er 10. brtt., við 14. gr. B. II. c., um að niður falli 1200 kr. styrkur til Jens Jóhannessonar. Mér þykir rétt í þessu sambandi að minnast á námsstyrki yfirleitt, sérstaklega til náms erlendis. Nú er það svo, að í fjárl. og í fjárlagafrv. eru ætlaðar 24 þús. kr. til styrktar ísl. stúdentum við erlenda háskóla. Auk þess eru nú í fjárlagafrv. ætlaðar 12 þús. kr., sem menntamálaráðuneytið úthlutar til námsstyrkja erlendis. Þarna er því um að ræða 36 þús. til styrktar námsmönnum í öðrum löndum. Ég held ég megi segja, að það hafi verið álit n. að æskja, að þingið yrði algerlega laust við að úthluta svona styrkjum. Það var líka ætlazt til þess af þinginu í heild, þegar það gekk inn á þá braut að hafa ákveðna upphæð handa menntamálaráðinu til úthlutunar, að niður félli algerlega styrkveiting þings til íslenzkra námsmanna erlendis. Það hljóta allir að sjá, hvaða vandkvæði eru á því að úthluta þesskonar styrkjum réttlátlega. Til þingsins berast margar umsóknir, og þingið getur ekki haft aðstöðu til að gera sér ljósa grein fyrir réttmæti þeirra yfirleitt. Og svo er það einu sinni þannig, þegar um persónulega styrki er að ræða, að þm. standa misjafnlega vel að vígi að taka ákvörðun um þá. Kunningsskaparbönd koma þar til greina. Mönnum er annara um þá, sem þeir þekkja, — og þekkja að góðu, — heldur en hina, sem þeir ekkert þekkja. Af þessu leiðir, að þm. geta tæplega orðið algerlega réttlátir í sínum ákvörðunum.

Líka má benda á það, hvaða ógurlegur tími fer í það að ræða um þessa styrki og prenta síðan allar þær ræður. Það er víst, að þinginu yrði heppilegra að láta eina upphæð og fela öðrum að úthluta, heldur en margar smáar með ýmsum aukakostnaði utan um. Vitanlegt er það þó, að styrkumsóknir hafa nokkurn eðlismun, og í n. líta sumir svo á, að það væru stúdentarnir, sem búið væri að sjá vel fyrir, þar sem 24 þús. kr. fjárveitingin er eingöngu ætluð þeim og 12 þús. kr. liðurinn, sem menntamálaráðið úthlutar, lendir einnig að mestu hjá stúdentum.

En út frá þessum almennu ástæðum leggur n. til, að niður falli fimm persónustyrkir af 14. gr.: Til Jens Jóhannessonar, Gunnars Bjarnasonar, til þess að ljúka námi í vélaverkfræði í Þýzkalandi, 1 þús. kr., til Jóns Sigurðssonar, til þess að nema nýjustu aðferðir við að byggja hús úr steinsteypu, 1 þús. kr., til Unnar Jónsdóttur, til að fullnuma sig í íþróttakennslu erlendis, 1500 kr., og til Helga Tryggvasonar, til þess að kynna sér hraðritunarkennslu og skólamál, 1500 kr.

Ég get þó getið þess, að í sambandi við þennan síðasta lið heyrðust raddir um það, að það væri dálítið óviðkunnanlegt, að taka hann út, af því að hann væri borinn fram af forseta Sþ., og það er álit forsetans, að þetta sé í raun og veru gert fyrir þingið að því er hraðritunarkennsluna snertir. En meiri hl. n. varð þó með að fella þennan lið niður, og ætla ég, að a. m. k. sumir hafi gert það til samræmis við annað.

Þá er við 14. gr. IX. a. till. um, að liðurinn til Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur, til skólahalds, hækki úr 6000 kr. upp í 7500 kr. Iðnaðarmannafélagið sótti um 3 þús. kr. styrk til framhaldskennslu, einkum fyrir þá, sem ættu að verða húsameistarar. N. viðurkenndi fullkomlega þörfina á þessu framhaldsnámi, þó að hún yrði ekki að öllu við umsókninni, en leggur til, að aftan við liðinn bætist: Þar af til framhaldskennslu 1500 kr.

Þá er við B.XIV. nýr liður, 9000 kr. til vatnsveitu við Eiðaskóla. Lá fyrir n. umsókn og upplýsingar með kostnaðaráætlun. Þarna hagar svo til, að þetta fjölmenna skólaheimili hefir undanfarin ár alltaf orðið að notast við lélegan brunn, og dæluútbúnaður við hann var oft í ólagi, enda hæpið, að nokkru sinni verði með dælu nægilega mikið vatn dregið að svo fjölmennum heimilum. Hinsvegar er aðstaða til vatnsleiðslu erfið. Þarf að leiða vatnið 1¼ km., og hallinn er lítill, svo að pípur þurfa að vera víðar. En n. lítur svo á, að hér sé um fyllsta nauðsynjamál að ræða, og leggur því til að veita 9 þús. kr. í þessu skyni.

Einnig lá fyrir n. umsókn frá Laugaskóla um 12 þús. kr. fjárveitingu til þess að reisa leikfimishús við þann skóla, gegn jafnmiklu framlagi. annarsstaðar frá, eins og tíðkast um þessa skóla. N. varð að fallast á, að slíkum skóla, sem í eru um 90 nemendur, væri nauðsynlegt að eiga leikfimihús, og leggur því til, að 10 þús. kr. verði varið til þessa.

Þá eru einnig hér í 14. gr. tveir skyldir liðir, til íþróttakennslu og til Íþróttasambands Íslands. Til íþróttakennslu hafa undanfarið verið ætlaðar 4 þús. kr. En á síðasta ári mun þessi liður ekki hafa verið notaður; ekki fyllilega a. m. k. N. þótti því alveg óhætt að lækka hann um 1000 kr. Liðurinn til Í. S. Í. var hækkaður mikið í fyrra, með alveg sérstöku tilliti til, Alþingishátíðarinnar. Þykir n. óþarfi að hafa þennan lið jafnháan framvegis, og leggur því til að færa hann úr 6 þús. kr. niður í 4 þús. kr.

Þá er ég kominn að 15. gr. 23. brtt. er við 30. lið gr., um það, að niður falli 1000 kr. fjárveiting til Karlakórs Reykjavíkur, til að afla sér kennslu í söng. N. þótti ekki rétt að veita slíkan styrk einstöku söngfélagi. Þau eru mörg, söngfélögin á landinu, sem gætu eins vel átt tilkall til sama styrks, og því leggur n. þetta til.

Þá er 25. brtt., við 32. lið, um það að taka upp 2 þús. kr. styrk til Guðmundar Kambans, til ritstarfa, burt af 18. gr. og færa í 15. gr. N. þykir þessi maður nokkuð ungur til þess að vera settur í 18. gr. Það hefir jafnan verið litið svo á, að þar skyldu ekki aðrir vera en þeir, sem þingið hefir beint hugsað sér að hafa þar áfram.

Þá er 26. brtt., við 39. lið. Er þar 2 þús. kr. ritstyrkur til þess að rita bók um eðliseinkenni Íslendinga. Aftan við liðinn bætist: Lokagreiðsla. Þessi liður kemur fyrst inn í fjárl. fyrir 1927. Þegar næsta fjárhagstímabil er útrunnið, er styrkur þessi búinn að standa fimm ár og búið að greiða 10 þús. kr. fyrir þetta væntanlega rit. Nú veit n. ekki til, að það hafi enn sem komið er neitt verulegt birzt frá höfundi þessum um þetta efni. Vill því n., eins og til að benda á þetta, láta þessa aths. fylgja. Náttúrlega gæti komið upp næst, að það þætti þess vert að halda styrkveitingu áfram. En n. þykir rétt, að því sé veitt eftirtekt, að fyrir svona framlag komi líka eitthvert verk.

Er þá til að taka um 16. gr. 27. brtt. n. gerir ráð fyrir, að 18. liður 16. gr., landmælingar, hækki um 10 þús. kr. Þetta er aðeins einskonar leiðrétting: Það hefir komið í ljós, að verkið muni kosta þetta, og þá þýðir ekki annað en áætla til þess rétt. Um hitt mætti máske frekar deila, hvort verkið eigi að framkvæma, en n. lítur svo á, að það sé sjálfsagt.

28. brtt. gerir ráð fyrir, að 20. liður 10. gr., 90 þús. kr. styrkur til Fiskifélagsins, lækki um 10 þús. kr. N. varð þess vör, að Fiskifélagið hefir fyrst og fremst yfir talsvert miklu fé að ráða. Það á allstóran sjóð, en auk þess hefir það nokkru meiri tekjur heldur en það hefir gert ráð fyrir í sinni áætlun, og það er aðalatriðið. Auk þessa hefir það komið í ljós, að þetta félag leggur fé í fyrirtæki, sem að vísu eru góð í sjálfu sér, en ríkið sjálft styrkir með beinum fjárframlögum. Sem dæmi þessa mætti nefna, að Fiskifélagið hefir veitt Slysavarnafélagi Ísland 6000 kr. styrk, og hefir þó þetta félag notið opinbers styrks. Má að vísu ef til vill færa nokkrar ástæður fyrir því, að þetta sé eðlilegt, þar sem hér er um að ræða félag, sem enn er í bernsku; en auk þessa hefir Fiskifélagið varið nokkru af því fé, sem ríkið leggur því til, til styrktar fyrirtækjum, sem beint heyrir undir Alþingi að styrkja, ef þau á annað borð eru styrkt, t. d. 2000 kr. til bryggjugerðar á Akranesi, 3897 kr. til bryggjugerðar í Þorlákshöfn, til brimbrjótsins í Bolungarvík 5000 kr. og til sjóvarnargarðs á Skálum á Langanesi 5000 kr. N. lítur svo á, að úr því þetta félag veitir þannig styrk til fyrirtækja af því fé, sem það nýtur úr ríkissjóði, geti það komizt af með minni styrk, og leggur því til, að styrkur þess verði færður úr 90 þús. kr. niður í 80 þús. kr.

Þá kem ég að 29. brtt. n., við 16. gr. 22. Í frv. er gert ráð fyrir 8000 kr. til eftirlits með skipum og bátum og öryggi þeirra. Lágu fyrir upplýsingar um, að þetta væri of lítið, og leggur n. því til, að skipaskoðunarstjóra verði veitt 6800 kr. laun og auk þess 5000 kr. til skrifstofukostnaðar. Er um að ræða hækkun á þeim lið en undir þennan skrifstofukostnað fellur 1. brtt. n. á sama þskj., sem er við 11. gr. A. 8., og ræðir um, að sá liður, 1000. kr., falli niður.

Þá leggur n. til, að styrkurinn til Mjallar verði felldur niður. Hefir þetta fyrirtæki lengi notið opinbers styrks, og verður þó að telja, að starfsemi þess sé mjög vafasöm hvað árangurinn snertir. Félagi þessu virðist ganga illa, og hefir það þó notið allmikils opinbers styrks, eða sem svarar 3–4 aurum á hvern lítra mjólkur, og þegar litið er til þess, hvað bændur fyrir austan heiði fá lítið fyrir mjólk sína, þá er þeir selja til Mjólkurbús Flóamanna, sem er 18 aurar, þá sést, hve styrkur þessi til Mjallar er mikill. Ef þörf er á að styrkja þetta fyrirtæki svo mjög, er hæpið að slík vöruvinnsla geti borgað sig. Er það álit n., að félagið eigi við þá staðháttu að búa, að það verði ekki rekið með núverandi skipulagi til frambúðar.

Þá kem ég að 31. brtt. n., við 16. gr. 32. Frv. gerir þar ráð fyrir 10 þús. kr. styrk til Kvenfélagasambands Íslands. Þetta samband hyggst að taka í sínar hendur yfirstjórn á starfsemi hinna ýmsu kvenfélaga úti um land og bera fram til sigurs hin ýmsu mál, er þau starfa að, svo sem heimilisiðnað, menntun kvenna o. s. frv. Nd. ætlaði þessu sambandi 10 þús. kr., en n. leit svo á, að það hefði eigi nægilega búið sig undir þá starfsemi, sem það ætlar að framkvæma, og leggur því til, að því verði veittar 2000 kr. til undirbúnings starfsemi sinni, en hinsvegar, að fjórðungssamböndunum verði veittir svipaðir styrkir sem að undanförnu, eða 450 kr. til Sambands norðlenzkra kvenna, 300 kr. til Sambands austfirzkra kvenna, 450 kr. til Sambands sunnlenzkra kvenna.

Þá er ég nú kominn að 17. gr. Er fyrst brtt. n. við þá gr. við 7. lið, þess efnis, að styrkur til slysavarna lækki um 4000 kr., úr 18 þús. kr. niður í 14 þús. kr., og jafnframt leggur n. til, að aths. sú, sem við þennan lið stendur, falli burt, en í stað hennar komi svo hljóðandi aths.: Enda sé stjórnarráðinu send skýrsla um starfsemina. Þessi liður komst þannig inn í fjárl., að til var ætlazt, að fjárhæð þessari væri varið til vegagerðar frá Sandgerði til Stafness. Það má segja, að þetta sé ekkert aðalatriði, því hafi það verið nauðsynlegt í fyrra, er það jafnnauðsynlegt nú, þar sem vitanlegt er, að vegurinn kemur ekki að gagni nema fullgerður sé. Meiri hl. n. lítur svo á, að hæpið sé að byggja slysavarnir á vegagerðum, heldur eigi fyrst og fremst að miða þær við skipin. Það liggur í augum uppi, að vegalagningar geta sjaldnast komið að, liði við slíka björgunarstarfsemi, svo sem glögglega hefir sýnt sig í vetur, þar sem tvö skip hafa strandað þarna tiltölulega skammt frá. N. vill láta það verða einkamál Slysavarnafélagsins, hvort það lætur byggja þessa vegi eða ekki, og leggur því til, að þessi aths. falli niður, sem ég áður drap á. En til þess að sýna þessu félagi fulla sanngirni, þá leggur n. til, að ekki verði felldur niður nema helmingur þeirrar fjárhæðar, sem gert var ráð fyrir í fjárl. að gengi til þessarar vegagerðar, og að félagið ráðstafi þessu eins og því sýnist sjálfu.

Þá kemur 34. brtt. n., við 17. gr. 11., um að hækka styrkinn til Stórstúku Ísland úr 8000 kr. upp í 10000 kr. Var það samróma álit n., að sjálfsagt væri að virða hina gagnlegu starfsemi stúkunnar, sem gengur út á að vinna á móti áfengisbölinu, og með hliðsjón af því og eftir tilmælum stórtemplars, áleit n. rétt að hækka þennan lið um 2000 kr.

35. brtt. n. ætlast til þess, að fjárveitingarnar til hinna ýmsu sjúkra- og styrktarsjóða séu bundnar því skilyrði, að jafnmikið fé komi annarsstaðar frá, og að þessi félög sendi skýrslu til stj. um starfsemi sína. Fyrst ríkið er að styrkja félögin í þessu skyni, þá er ekki nema sjálfsagt, að fé sé lagt til þessarar starfsemi annarsstaðar frá, og ekki nema eðlilegt, að skýrslur séu gefnar um starfsemina, svo að hægt sé að vita, hvernig starfsemi félaganna gengur.

Þá kem ég að 36. brtt. n., við 17. gr. 20., og gengur út á það, að fella niður þær 500 kr., sem veittar eru til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur. Er þessi till. ekki sprottin af því, að n. viðurkenni ekki starfsemi þessa sjóðs, heldur er þess að gæta, að margir áþekkir styrktarsjóðir eru til víðsvegar um landið, og myndi skapað fordæmi fyrir opinberum styrk þeim til handa, ef þessi sjóður er tekinn út úr um styrkveitingu.

Þá leggur n. til, að inn í 17. gr. verði bætt 3 nýjum liðum, sem fjalla um, að veittur verði 10 þús. kr. byggingarstyrkur til Elliheimilisins hér í Reykjavík, og auk þess rekstrarstyrkir til gamalmennahælanna á Ísafirði og Seyðisfirði, 1000 kr. til hvors. Eins og þdm. er kunnugt, er verið að reisa hér í Reykjavík gamalmennahæli. Verður það allmyndarleg bygging, og mun koma til með að kosta ½ millj. kr. Það má segja, enda kom sú skoðun fram í n., að framfærsla gamalmenna væri sérmál hinna einstöku staða, en þegar um er að ræða fyrirtæki eins og Elliheimilið hér í Reykjavík, verður að gæta þess, að líkur eru fyrir að fleiri njóti góðs af en Reykvíkingar einir saman. Leggur n. því til, svo sem í viðurkenningarskyni fyrir þessa starfsemi, að veittar verði 10 þús. kr. sem styrkur upp í þann stofnkostnað, sem húsbygging þessi hefir í för með sér. Auk þess leggur n. til, eins og ég áður sagði, að veittur verði styrkur til gamalmennahæla á Ísafirði og Seyðisfirði, samtals 2000 kr. Get ég getið þess, að til þessara stofnana hefir áður verið veitt fé úr ríkissjóði, 2500 kr. til gamalmennaheimilisins á Seyðisfirði, og 2000 kr. til gamalmennaheimilisins á Ísafirði. Má segja að með þessu sé gert upp á milli þessara stofnana, þar sem ekki eru veittar nema 10 þús. kr. til hinnar myndarlegu byggingar hér í Reykjavík, en á hitt má þó benda, að undir afkomu Reykjavíkur renna fleiri sterkar stoðir en undir afkomu Seyðisfjarðar, enda er það fyrir mestu, að sá vilji og viðleitni, sem kemur fram í þessu, njóti viðurkenningar hins opinbera. Um hitt er minna vert, þó að um lágt tillag sé að ræða.

Við 18. gr. hefir n. komið fram með ýmsar brtt. Eru þær flestar leiðréttingar, sem sjálfsagt þótti að gera, svo sem lagfæringar á tölum o. s. frv. En auk þess leggur n. til, að teknir verði upp nýir liðir í þessa grein, sem samkv. fengnum upplýsingum þótti sjálfsagt að taka upp. Vil ég þar fyrst geta þess, að n. leggur til, að styrkur til Þórðar Ólafssonar verði færður úr 555 kr. niður í 370 kr. Er þetta gert til samræmis við aðra. Þessi eini prestur er tekinn út úr, þar sem honum er ætlað meira en 1000 kr., sem er hámark þeirra eftirlauna, sem uppgjafaprestar njóta.

Næsta brtt. n. við þessa grein er um það, að veita Helga P. Hjálmarssyni 475 kr. eftirlaunastyrk. Þessi prestur hefir verið talinn efnaður, en n. komst að raun um, að hann er ekki eins efnaður og sumir prestar aðrir, sem notið hafa eftirlaunastyrks, og er hann auk þess heilsulaus og hefir fyrir heimili að sjá.

Þá kemur 40. brtt. n. á þessu þskj., sem fjallar um það, að hækka styrkinn til Guðrúnar Ólafsdóttur úr 100 kr. upp í 300 kr. Þessi prestsekkja nýtur langsamlega lægstra eftirlauna. Meiri hl. prestsekknanna hefir yfir 300 kr. í eftirlaun, nokkrar meira, en sumar minna, allt niður í 100 kr. Leggur n. því til, að þessi liður verði hækkaður um 200 kr.

Næsta brtt. n. er í 2 liðum. Fjallar fyrri liðurinn um það, að styrkurinn til Þórodds Bjarnasonar verði færður úr 1200 kr. niður í 600 kr. Þessi maður hefir verið bæjarpóstur hér í Reykjavík, og þó að n. efist ekki um, að þessi gamli maður þurfi á styrk að halda, verður að gæta þess, að póstar úti um land hafa við miklu minni eftirlaun að búa, eða 300 kr., að undanteknum einum manni, sem hefir 450 kr. í eftirlaun. Er ekkert samræmi í því, að þessi maður sé tekinn út úr, þó hann hafi verið bæjarpóstur hér í Reykjavík, og leggur því n. til, að þessi upphæð verði lækkuð niður í 600 kr.

Síðari liður þessarar brtt. er um það, að Sigríði Guðmundsdóttur, ekkju Böðvars Þorlákssonar póstafgreiðslumanns á Blönduósi, verði veittar 300 kr. í eftirlaun.

45. brtt. n. á sér þá eðlilegu skýringu, að hlutaðeigandi styrkþegi er dáinn. 46. brtt. gerir ráð fyrir, að gamalli ljósmóður, sem starfað hefir í 40 ár, en er bláfátæk, verði veittar 200 kr. í eftirlaun. Um styrkveitinguna til Guðm. Kambans rithöfundar hefi ég áður getið, og þá fært fram ástæður n. fyrir því að flytja hann af 18. gr. í 15. gr., og tel ég mig ekki þurfa að gera það aftur.

Þá kemur till. n. um það að lækka styrkinn til Stefáns frá Hvítadal úr 2000 kr. niður í 1200 kr. Þetta er gert til samræmis. Má þar til samanburðar benda á þann styrk, sem þeir njóta af opinberu fé Jakob Thorarensen, Guðmundur Friðjónsson og Sigurjón Friðjónsson. Er að vísu einatt álitamál um slíka styrki, og verður d. að skera úr því sjálf, hvað henni sýnist réttast í þessu efni. Það skal tekið fram, að það var ekki hækkunarhugur í n. í sambandi við þessa liði, þó að n. flytji till. um 200 kr. aukinn styrk til Guðmundar Friðjónssonar. Þykir mér þó rétt að skýra frá því, að þessi till. hlaut ekki einróma samþ. n., heldur lagði hv. þm. Ak., sem er bróðir Guðmundar, á móti henni. Er þó enginn vafi á því, að hann kann að meta bróður sinn og störf hans eins vel og hver annar, en hitt mun hafa valdið afstöðu hans, að n. leitaði fremur lækkunar en hækkunar á þessum liðum. Met ég hv. þm. Ak. meira fyrir þetta samræmi. Enginn neitar því, að mikið starf liggur eftir Guðmund Friðjónsson og hann hefir leyst af hendi gott dagsverk, enda geri ég ráð fyrir, að enginn leggi á móti þessari hækkun eða telji hana eftir nú, er Guðmundur stendur á sextugu.

Ég er ekki frá því, að mér hafi sézt yfir nokkrar brtt. við 15. gr., brtt., sem aðallega fjalla um, að niður falli ýmsir rithöfunda- og utanfarastyrkir. Þessir rithöfundar, sem hv. Nd. setti inn í þessa gr. fjárl., eru þeir Sigurður Skúlason, Árni Þórarinsson, Benedikt Björnsson, Margeir Jónsson og Oddur Oddsson. Að vísu er ekki um stórar fjárveitingar til þessara manna að ræða, en n. sá sér hinsvegar ekki fært að gera upp á milli þeirra; leggur hún til, að fjárveitingar til þessara manna verði felldar niður.

Þá á ég aðeins eftir 22. og 23. gr. Leggur n. til, að ábyrgðarheimildin fyrir Siglufjarðarkaupstað og sömuleiðis ábyrgðarheimildin fyrir Súðavíkurhrepp verði felldar niður. N. telur ekki rétt að veita ábyrgðarheimildir í þessu skyni, meðan ekki er komið heildarskipulag á þessi mál, eins og ætlazt er til að gert verði. Hér á þinginu hefir verið neitað um ábyrgð til raforkuveitu í Skagafirði, og álítur n. því réttast, að eitt verði látið ganga yfir öll héruð í þessu eini.

Þá hefir n. borið fram brtt. við 22. gr. þar sem ætlazt er til, að ríkissjóður ábyrgist 48 þús. kr. til húsakaupa Kvennaskólans í Reykjavík, í stað 40 þús. kr., sem ákveðnar voru í frv.

Þá eru tvær brtt. við 23. gr. Hin fyrri fer fram á, að heimilt sé að greiða Steinþóri Guðmundssyni iðgjöld hans í lífeyrissjóð. Fræðslumálastjóri hefir bent á, að ólíklegt sé, að maður þessi gangi inn í kennarastéttina aftur, og virðist n. því sanngjarnt að endurgreiða honum iðgjöldin, enda mun vera til fordæmi fyrir slíku.

Þá hefir vegamálastjóri lagt til við n., að hún flytti till. um heimild handa landsstj. til að kaupa tvær snjóbifreiðir. Hér er ein snjóbifreið fyrir, og þótti n. rétt að veita heimild til þessara kaupa, ef sú reynsla fengist af þeirri, sem fyrir er, að slíkt þætti æskilegt. Hinsvegar hefir n. ekki talið rétt að setja upphæð í þessu skyni reikningslega í fjárl. Bifreið sú, sem þegar er til, er á Hellisheiði, og verði þessar tvær keyptar í viðbót, ætlast n. til, að þær annist flutninga á Holtavörðuheiði og Fagradal, því að á þessum þrem leiðum virðist mest nauðsyn vera á, að vetrarferðir geti verið óhindraðar.

Ég hygg, að ég hafi þá tekið það flest fram, er máli skiptir, fyrir hönd n., og get því látið staðar numið að sinni.