09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1931

Björn Kristjánsson:

Ég á hér enga brtt. sjálfur á þskj. 454, nema ég er skrifaður sem annar maður fyrir brtt. XV., við 17. gr. 22, sem hv. 3. landsk. er aðalflm. að og hefir talað hér um. Ég fellst alveg á mál hans og ummæli um stúlkuna, og veit, að fyrirtækið er mjög nauðsynlegt.

Þá er það önnur brtt. á þskj. 436, undir 33. lið við 17. gr. 7, um að lækka styrkinn til slysavarna úr 18 þús. í 14 þús. kr., og að fella burt athugasemdina aftan við liðinn um að veita af þeirri upphæð 8 þús. kr. til vegar að Stafnesi, svo að flytja megi þangað björgunarbátinn frá Sandgerði. Kunnugir vita, að aðalhættustaðurinn milli Reykjaness og Sandgerðis eru einmitt Stafnestangar, því að þeir standa lengst út. En vegna þess að vegur náði ekki nema að Sandgerði, var ákveðið, að báturinn skyldi hafður þar, þó að það sé alllangt frá Stafnesi og lengri sjóleið á milli en landvegurinn er. Það getur því tekið langan tíma fyrir bátinn að komast á strandstaðinn, enda er mér sagt, að þessi björgunarbátur sé vélarlaus. Og í Sandgerði er mjög brimasamt og ill lending; verður að sæta lagi um sund til að komast þar út. Því getur oft farið svo, að björgunarbáturinn geti ekki komið til hjálpar skipi, sem strandað hefir á Stafnesi.

Þetta yrði ekki nema 4 þús. kr. sparnaður, og ég held, að réttast væri að láta liðinn standa eins og hann kom frá hv. Nd.

Önnur brtt., sem ég ætlaði að minnast á, er sú 36., við 17. gr. 20, um að fella niður 500 kr. til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur. Sá sjóður var stofnaður fyrir nokkrum árum með 800 kr. stofnfé, sem þessi kona ánafnaði ekkjum og börnum sjódrukknaðra manna þar syðra. En vöxtur og efling sjóðsins má heita eins manns verk, Þorgríms Þórðarsonar læknis, þess hins sama, er stofnaði þar álitlegan sparisjóð. Styrktarsjóðurinn er nú um 15 þús. kr. Alþingi lagði honum á síðasta ári 800 kr. Það er ekki lítil hvöt fyrir menn til að vinna að stofnun sjóða, ef Alþingi hvetur til þeirrar fjársöfnunar með styrkjum, þótt lítilfjörlegir séu. Þann vilja hefir hv. Nd. sýnt. Ég held því, að rétt sé fyrir þessa hv. d. að lofa þessu að ganga fram, og yfir höfuð að sýna velvild öllum sjóðstofnunum í landinu. Einmitt af sjóðum eins og þessum geta menn vænzt mestrar hjálpar, þegar þörfin er brýnust og þau vandræði, sem drukknanir og sjúkdómar hafa í för með sér.

Ég ætla ekki að gera margar sérstakar till. að umtalsefni. Þó er mér sárt um eina brtt. Það er till. um að fella niður styrkinn til séra Árna Þórarinssonar á Stóra-Hrauni. Ég veit, að þessi maður hefir gert mikið að því að safna alþýðufróðleik á Snæfellsnesi og víðar, og er mjög vel hæfur til þess. Hann hefir skýrt mér frá, — því að ég þekki hann nokkuð persónulega, — að í mörg ár hafi hann verið að safna sögum, er munu þykja mjög merkilegar. Hann er laginn á að semja og segja líkar sagnir, svo að fáum tekst betur. Mér þætti það mjög leitt, ef honum skyldi ekki verða ætlaður neinn styrkur, þegar þó hv. Nd. ætlaði honum þessi 600. Og það var víst bara slysni, að hann fékk ekki 1500 þar. — Ég veit, að menn þreytast á löngum ræðum, og skal nú hætta.