17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég mun ekki deila mikið um þau smáatriði, sem hv. 2. þm. G.-K. drap á. En ég álít, að hátíðisdagana sé alveg sérstök þörf fyrir góða bifreiðastjóra. Þeir þurfa að geta farið nákvæmlega eftir settum reglum, t. d. ekið alltaf með sama hraða, til þess að góð regla verði á umferðinni og mögulegt verði að koma þeim fjölda fólks til Þingvalla, sem þangað vill komast. Nú eru lögboðin tvennskonar bílstjórapróf, og það getur jafnvel komið fyrir um menn, sem hafa tekið þau bæði, að þeir séu ekki nægilega vanir, til þess að rétt sé að láta þá aka þessa daga. Ég tel því rétt að setja sérstök ákvæði um þetta.

Viðvíkjandi hátíðarmerkinu get ég sagt það, að ég tel það fremur þýðingarlítið, þó ég hafi ekki viljað setja mig upp á móti því.