17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Magnús Jónsson:

* Það sé fjarri mér að fara í deilu við hv. þm. Borgf., enda er þetta lítið hitamál fyrir mér. Ég sagði náttúrlega ekki, að frv. gripi ekki inn í þjóðlífið; það gera að vísu allar þessar ráðstafanir. En ég þóttist vita, að það yrði ekki mikið, og það get ég enn fullvissað hv. þm. Borgf. og aðra um. Þegar samskonar frv. var á ferðinni í fyrra, kom það fram, að menn voru hræddir við allt, sem fór í svipaða átt og þetta, og það var eins og menn héldu, að allt ætti að hneppa í hreinan þrældóm, ef það væri samþ. Menn halda, að nú eigi að setja af heilan hóp af bifreiðastjórum og dæma óvegfæran allan fjölda af bifreiðum hér. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt.

Það er óhætt að fullyrða, að ákvæðið, að n. megi taka í sínar hendur umráð yfir leigubifreiðum, verður aldrei notað. En það var notað til þess að setja hámarksverð á bifreiðataxta. Af því að ég skoða mig ekki sem málsvara n. sérstaklega, hefi ég ekki hjá mér neina skýrslu um þetta, en mig minnir, að sætið í fólksflutningsbifreiðum ætti að kosta 10 kr., og ég held 6 kr. í yfirbyggðum flutningabifreiðum til Þingvalla hvora leið. Af hverju sæti er svo tekinn einnar krónu skattur, sem gengur til nefndarinnar fyrir að annast allan kostnað við bílastöðvar, gæzlu og eftirlit á vegunum og annað slíkt. Það hefir verið reynt að ná inn með slíkum sköttum nokkurnveginn kostnaðinum við hvern sérstakan lið þessara starfa, sem nefndin þarf að láta vinna við hátíðina. Hv. þm. Borgf. vildi kannske láta veita til þess beint á fjárlögum. En annars töldum við réttara að láta þessi störf bera sig sjálf eins og mögulegt er. Fargjaldið þótti nokkuð hátt. En eftir mjög ítarlega samninga við bifreiðastjórana var að lokum gengið inn á þennan taxta. Og þær ástæður, sem réðu því, að ég taldi þetta sanngjarnt, voru upplýsingar bifreiðastjóranna um allan kostnað, og svo það, að þeir þurfa ekki að hugsa til að fá flutning nema aðra leiðina. Fyrst vilja allir til Þingvalla, en eftir hátíðina þurfa allir að komast heim hingað, en enginn austur. Því verður að reikna með því, að bifreiðin verði alltaf tóm aðra leiðina. Það voru lagðir fyrir n. nokkuð greinilegir útreikningar, sem sýndu, hvað hægt væri að hafa upp úr 5 manna og 7 manna bifreiðum, og það virtist ekki hugsanlegt, að bifreiðastjórarnir gætu tekið menn fyrir minna en þetta. Ef allt hefði verið frjálst, mátti búast við, að þá kæmi fram lögmál hinnar frjálsu samkeppni, þar sem verðið takmarkast af framboði og eftirspurn. Þá gat það farið upp úr öllu valdi.

Hv. þm. Borgf. gerði 5. gr. áðan allógurlega með því að lesa upp, hvað forboðið sé að gera þessa hátíðardaga. Þetta er þó ekki annað en það, sem verður að þola á hverjum sunnudegi. Það hefir verið talið rétt að láta hátíðardagana njóta sömu verndar og sunnudaga venjulega, eins og t. d. 17. júní. Ætlazt er til, að þeir, sem langar til Þingvalla, geti notað þessa fyrstu daga. Einnig getur verið rétt að vernda eitthvað af laugardeginum, en leyfa í staðinn að hafa búðir opnar að einhverju leyti á sunnudaginn næsta eftir, af því að það getur verið óþægilegt fyrir þá, sem koma heim seint á laugardagskvöld, að fá ekkert keypt. Af því mundi stafa sultur og seyra. Annars snerist nú þetta ógurlega upp í það að verða ekki neitt, af því að engin refsing fylgir.

Hv. þm. talaði um, að ófært væri að taka af mönnum rétt, sem þeir væru búnir að fá að lögum. Ég býst ekki við, að honum hafi þótt það eins leiðinlegt, þegar vínsöluleyfi var tekið af mönnum.

Hér er ekki farið fram á annað en að þessir menn fái ekki að aka til Þingvalla þessa fáu daga. Hér er ekki verið að taka menn af lífi, heldur aðeins svipta þá réttindum einn vikutíma. Þeir bifreiðarstjórar, sem hv. þm. sagði, að mundu koma úr Borgarfirði og Norðurlandi, hefðu með því að stýra bifreiðum þaðan sýnt fyllilega, til hvers þeir væru færir, og gæti vist enginn bannað þeim að aka. Það, sem hætt er við, er, að menn keppist við að ljúka prófi fyrir þessa daga, aðeins til þess að geta stýrt bifreiðum þá. Ég veit ekki, hvort þeir, sem hamast fyrir réttindum þeirra manna, eru viðbúnir að taka afleiðingunum af þessu, þeim slysum, sem af þessu getur leitt. Því að vissulega verða nógu mörg bílslys milli Reykjavíkur og Þingvalla þessa daga, þó að allt sé gert, sem hægt er, til að koma í veg fyrir þau.

Ég held, að hv. 2. þm. G.-K. hafi talað um, að það mundi verða hörgull á bifreiðarstjórum. Það verður áreiðanlega ekki í þágu nefndarinnar að hafa þá sem fæsta. Allt neyðir n. til að dæma sem allra fæsta ófæra. Ákvæðið um þetta er náttúrlega nokkuð óákveðið, svo að það má blása það upp í að verða einhver lifandi ósköp. En það er engin hætta á, að n. geri það, þó að hún vilji hafa þessa heimild.

Ég þarf víst ekki að standa lengur til varnar fyrir n., en ef miklar sakir verða bornar á hana, vona ég að fá leyfi hjá hæstv. forseta til að gera aths.