15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

41. mál, sala jarðarhluta Neskirkju og ríkissjóðs

Sveinn Ólafsson:

Það er auðvitað rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að með því að samþykkja þetta frv. eins og það nú er, þá er skyldan flutt á kirkjujarðasjóð til þess að reisa þarna prestsseturshús, en það er ekki til á þessum stað. Sú kvöð á þó ekki að verða þungbær. Verði það ofan á í þinginu að samþykkja frv. þetta, þá er hér um að ræða skipti á jarðarhluta, sem sóknarpresturinn hefir nú full afnot af, og íbúðarhúsi handa honum. Nú má ætla, að jarðarhluti kirkjunnar seljist mun hærra verði en húsverðinu nemur, og er þess vegna hér ekki um nein útgjöld að ræða fyrir kirkjujarðasjóð, en að öllum líkum óvæntar tekjur.

Skilyrði prestsins eru tilgreind í grg. frv., og um þau verður stj. auðvitað að semja að öðru leyti, jafnframt og kaup fara fram á jarðarhlutanum. Önnur skilyrði af hendi prestsins, sem sett hafa verið fyrir jarðarsölunni, koma ekki við þessu frv., enda snúa þau að Neskaupstað og eru fyrirfram samþ. af bæjarstjórninni þar.

Ég vildi aðeins segja þetta til skýringar á málinu, en býst við, að þetta atriði standi ekki fyrir góðri afgreiðslu á frv. hér í deildinni.