07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

238. mál, útvarp

Jóhann Jósefsson:

Þau eru ekki gömul lögin um ríkisrekstur á útvarpi, sem hér á að breyta, því þau eru frá þinginu 1928. Þessara breyt. álítur hæstv. stj. þörf, og það áður en farið er að starfrækja útvarpið. Ég fæ nú ekki annað séð en að óhætt hefði verið að sjá, hvernig það fyrirkomulag gæfist, sem sett var með 1. frá 1928, áður en farið var að breyta því. En það er þó eitt, sem er áreiðanlegt, að með því að samþ. þessar breyt., sem fara fram á það að fjölga mönnum í útvarpsráði og gera sjálfstjórn stofnunarinnar meiri, með því að nota ekki aðstoð frá landssímastjóra, þá er séð um, að kostnaðurinn við þetta verði nógu mikill. Ég tók eftir því, að hv. frsm. var að tala um þetta atriði. Og af því, að sá hv. þm. er þannig gerður, að honum verður einatt nokkuð starsýnt á kostnaðarhlið málanna, þá þótti mér það undarlegt, að hann taldi kostnaðarhlið þessa máls ekkert aðalatriði. Mér skildist það vera af því, að hér væri um menningarmál að ræða. En ég vil nú segja, að þó svo sé, þá er sjálfsagt að hafa þetta ekki meira bákn né dýrara en þörf er á.

Hv. frsm. benti á, að landssímastjóri væri andvígur því, að þessar breyt. væru gerðar á lögunum. Hv. frsm. talaði aðallega um eitt atriði af mörgum, sem landssímastjórinn leggur á móti að sé upp tekið. Það var, að ekki væri gott að skilja sundur yfirstjórn landssímans og útvarpsins, vegna útsendinga veðurskeyta. Hann tók fram, að veðurstofan annaðist afgreiðslu veðurskeytanna sjálf. Ég held nú kannske, að ýmsar aðrar ástæður, sem landssímastjóri færir á móti frv., séu veigameiri en þessi. Landssímastjóri telur eina ástæðuna móti þessu vera þá, að það geti valdið óþægindum, ef þetta sé í tvennu lagi með útsendingu og hvor hafi sína öldulengd. Og hann telur, að þetta geti valdið glundroða, ef forstöðumenn útvarps og landssíma verði ekki á eitt sáttir. Og það er satt að segja broslegt, að fámenn þjóð fari að hafa tvær yfirstjórnir þessara mála, sem vel má koma undir einn hatt, en aðrar þjóðir, stærri og fjölmennari, hafa aðeins eina yfirstjórn. Það kemur skýrt fram hjá landssímastjóra, að með þessu væri gengið hér inn á nýja braut.

En það er annað meginatriði í frv., sem engir aðrir hafa tekið upp, og það er einkasala á útvarpstækjum. Það hefir verið hamrað á því af formælendum frv., að einkasala á tækjum væri vissasta leiðin til að tryggja notendum góð og ódýr tæki. Þessi tæki, og reyndar allt, sem útvarpinu heyrir til, er tiltölulega nýtt á heimsmarkaðnum. Og framfarir í gerð þeirra hafa verið hraðar og stórstígar, og verða það sennilega enn um skeið. Er sjálfsagt langt þar til, að þau verða svo fullkomin, að ekki verði hægt að gera þau betri. Er því nauðsynlegt, að sala tækjanna fylgist með framförunum. En það verður bezt gert, ef frjáls samkeppni er um söluna.

Um verðið er það að segja, að landssímastjóri hefir gert samanburð á 10 tegundum tækja hér og sömu teg. í Danmörku. Er umsögn hans prentuð með nál. meiri hl. Niðurstaða þess samanburðar er sú, að þessi tæki séu 30% dýrari í Danmörku en hér að meðaltali. Þetta virðist benda á, að samkeppni í sölu tækja hér á landi leiði af sér lægra verð, og það svo lágt, að tækin verða ódýrari hér en í Danmörku, þar sem þau þó eru framleidd. (HJ: Er ekki frjáls samkeppni um sölu þar?). Jú, því eftir því sem ég bezt veit, þá hefir ekki verið reynd einkasala í Danmörku. Það má líka sjá á umsögn útvarpsstjóra, sem prentuð er sem fskj. með nál. meiri hl. Hann hefir verið að athuga þetta í Danmörku og fiskað þar upp hálfgerð meðmæli með einkasölu. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir einkasölu á útvarpstækjum er ekki fordæmi í nágrannalöndunum. Hinsvegar skal ég geta þess, að merkir menn við útvarpið danska töldu, að með því yrðu fyrirkomulagi okkar tryggðir yfirburðir og að sneitt yrði hjá óþægindum, sem danska útvarpið hefir átt við að stríða“.

Það getur verið rétt, að sneiða megi hjá einhverjum óþægindum fyrir útvarpsstjórann með þessu. En það er líka stefnt til mikilla óþæginda fyrir annan aðilja, notendur útvarpsins.

Ég hefi heyrt því haldið fram, að þeir, sem verzla með þessi tæki, mundu gylla vöru sína, en selja þó óvönduð tæki. Þetta mætti með sama rétti segja með alla vöru, hvort sem hún er seld í frjálsri samkeppni eða ekki. Ég held samt, að þeir, sem verzlað hafa með slík tæki á undanförnum árum, hafi bæði haft góð tæki og selt þau hóflegu verði, enda sannar samanburður landssímastjóra það bezt. Það er því eins með þetta og margt annað. Þeir, sem selja útvarpstæki, hafa ekkert til þess unnið, að sú sala sé af þeim tekin.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að mikill hagnaður yrði af einkasölunni, ef góð tæki verða seld fyrir mjög lítið verð. Ef á hinn bóginn hugsað er til að gera þessa einkasölu að tekjulind fyrir ríkissjóð, eins og oft vill verða með einkasölur, þá mun fara svo, að notendur bíða tjón af því þegar fram í sækir. Má til samanburðar nefna Spánarvínin og verzlun ríkisins með þau. Þau gefa nú svo miklar tekjur, að mörgum þykir nóg um hvað sukkað er með þá vöru. En þetta er orðin svo mikill tekjustofn, að menn, sem annars eru á móti óhóflegri vínnautn, líta nú mest á þetta sem tekjulind fyrir ríkissjóð. Nei, þegar á að taka einhverja vöru í einkasölu, þá má ekki hampa því, að það verði til hags fyrir notendurna. Einkasölufyrirkomulagið leiðir ávallt til alls annars.

Hv. frsm. taldi það einn af kostum frv., að eftir því yrðu fastari tök á yfirstjórn útvarpsins, þar sem útvarpsstjóri yrði einráður með útvarpsráði. En helzta dæmið, sem hann nefndi um það, var, að betra yfirlit fengist um útvarpsnotendur, og hægara yrði að ná inn árgjöldum, ef ríkið verzlaði með tækin. Ég geri nú ekki mikið úr þessu. Hann meinar víst, að útvarpsstjórnin geti með þessu haft skrá yfir tækin eða þá, sem kaupa þau. Ég veit nú ekki, hvort þetta er öruggt. Oft kaupa aðrir tæki en þeir, sem nota þau. Og nú eru til hundruð tækja víðsvegar um land. Hinsvegar er hér í fámenninu enginn vandi að vita, hverjir nota tæki, án þess einkasala sé viðhöfð. Að þessu öllu athuguðu held ég, að enginn skaði hefði verið skeður, þó þessar breyt. hefðu beðið nokkuð, þar til reynsla var fengin á þá tilhögun, sem fyrst var ákveðin. Alltaf mátti breyta, ef það hefði komið í ljós, að landssímastjórinn hefði ekki ráðið við það að hafa yfirumsjón með þessum málum. Ég veit, að með þessu er útvarpsstjóranum gefið meira vald og honum veitist hægara að veita mönnum atvinnu við þetta, fleirum en þörf er á, ef landssímastjóri hefir yfirstjórnina.

Þá er það þessi einkasala á móttökutækjunum. Náttúrlega verður einhverri verzlun, einstakling eða félagi falið að velja tækin, og síðan verða allir að kaupa aðeins þessi tæki, sem vilja fá sér einhver móttökutæki, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Ég kann ekki við, að verið sé að taka svona fram fyrir hendurnar á fólki og leyfa því ekki að vera sjálfráðu um það, hvaða tæki það hefir. Þar sem útvarpstæki eru mikið útbreidd, þar er fólk farið að fylgjast með, hvaða gerð tækja er heppilegust, og hefir því vit á að velja sér tækin sjálft.

Mér þykir undarlegt, að hv. meiri hl. fjhn. skyldi fara að birta svona skjal frá landssímastjóra með nál., af því að það er allt mótmæli gegn þessu frv. Landssímastjóri ræður eindregið frá því, að þessi leið sé farin og segir, að hann telji einkasöluna út af fyrir sig alls ekki heppilegustu leiðina til þess að tryggja notendum góð og ódýr tæki. Ef ríkissjóður á að hafa nokkurn hag af sölunni, verður hann að selja tækin dýrara en þau eru seld nú. Landssímastjóri hefir bent á þá leið, að ef þarf að hugsa um að tryggja ríkissjóði hagnað af þessu, sé nær að leggja gjald á tækin, en hafa verzlunina frjálsa. Hv. meiri hl. fjhn. hefir líka fundið, að ummæli landssímastjóra voru heldur lítil meðmæli með frv., því að hann fékk líka umsögn um þetta frá öðrum af starfsmönnum símans, til að draga úr þeim mótmælum, sem fólust í ummælum landssímastjóra. Þessi maður er verkfræðingur landssímans. Hann segist halda sér aðallega við þá verkfræðilegu hlið málsins, og hans umsögn ber því að skoða sem ummæli, sem snerta framkvæmd málsins frá vélfræðilegu sjónarmiði, en síður frá almennu sjónarmiði, en sjálfur virðist hann ekki hugsa svo mjög um, að þurfi að spara, því að hann segir svo á einum stað í skjalinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í húsakynnum útvarpsins í Reykjavík situr útvarpsstjóri, verkfræðingur útvarpsins, gjaldkeri og annað skrifstofu- og aðstoðarfólk eftir þörfum“.

Sem sagt, það er ekki ætlazt til, að verið sé að spara neitt, heldur bara taka aðstoðar- og skrifstofufólk eftir þörfum, í viðbót við yfirstjórnina. Mér þykir það nokkuð „flott“, ef þannig á að stofna til meiri kostnaðar en nauðsynlegt er að óreyndu.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl. talaði um það í svari sínu til hv. þm. Dal., að hann væri alltaf með þennan einokunarsöng. Það er nú svo, en ég held, að hv. þm. Dal. og við aðrir, sem alltaf höfum verið á móti þessari einokunarstefnu, gætum sagt um hv. frsm. meiri hl. og flokksbræður hans, að þeir væru alltaf með einokunarsöng. Það hefir alltaf verið ráðið hjá hæstv. stj. og flokki hennar og helzta lækningarmeðalið við ágöllum á verzluninni, að koma á einokun. Þetta stingur upp höfðinu þing eftir þing, og alltaf er hæstv. stj. og flokkur hennar að reyna að fikra sig áfram lengra og lengra á þessari einokunarbraut. Þar ber ekki mikið á milli hjá sósíalistum og framsóknarmönnum. Þar er enginn stefnamunur, heldur aðeins stigmunur.

Ég geri ekki ráð fyrir, að framsóknarmenn mundu vilja eins og nú standa sakir koma á einkasölu á saltfiski, en jafnaðarmenn hafa oft verið að brjóta upp á því. Aftur á móti hefir það verið lagt til af framsóknarmönnum á öðrum sviðum, að gengin væri þessi einokunarbraut. Er þar skemmst á að minnast, þar sem er nál. meiri hl. um einkasölu á tóbaki. Þar eru það þingmenn Framsóknar, sem skrifa allir undir það, að þeim þyki rétt að taka upp einkasölu á tóbaki. Rökstuðningur þessara þm. á því skjali er næsta eftirtektarverður. Þeir segja, að með því að ýmsar vörutegundir hafi þegar verið teknar í ríkiseinkasölu, þá þyki þeim rétt að taka upp einkasölu á tóbaki líka. Þessi rökstuðningur í þessu máli á þá náttúrlega við í öllum öðrum málum. Sem sagt, það virðist vera nokkuð ríkt hjá báðum stjórnarflokkunum, að ríkið taki í einkasölu ýmsar vörur eða vörutegundir, eftir því sem hentugast þykir í hvert skipti. Það er öllum vitanlegt að því er snertir útflutning á síld, að þar hefir framsóknarmönnum og jafnaðarmönnum ekkert borið á milli í þinginu. Þeir hafa verið alveg sammála um að koma á einkasölu með því fyrirkomulagi, sem á henni er nú, sem enn sem komið er hefir ekkert leitt af nema tjón fyrir þjóðina. (LH: Það er ekki satt). Ég ætlast til þess af hv. þm. V.-Sk., ef hann er sannfærður um, að einkasala á síld hafi gert gagn, að hann leggi fram einhver fleiri gögn en að grípa fram í fyrir mér. (LH: Það er vandalítið). Hv. þm. hefði átt að standa í sporum smábátaeigenda hér á Suðurlandi, sem hafa orðið að hætta síldarútgerð fyrir norðan fyrir aðgerðir hans og annara hv. þm. viðvíkjandi síldareinkasölunni. Nei, það er það, sem alltaf er að koma betur og betur í ljós, að þeim er svo einkarljúft að koma einkasölu á sem allra víðast. Það er þeirra bjargföst trú, að þetta sé það bezta fyrirkomulag. Þá eru framsóknarmenn og jafnaðarmenn sammála. Ef hv. frsm. meiri hl. heyrir einhvern söng um einokun, þá er það áreiðanlega hann og hans fylgifiskar, sem hafa byrjað á þeim söng, en ekki við Sjálfstæðismenn.

Hv. frsm. minntist á það í sinni framsöguræðu, að útvarpsmálið væri eitthvert stærsta menningarmál þjóðarinnar. Það hefir verið drepið á það hér oftar af ýmsum hv. þm., bæði þegar sett voru lögin um útvarpið og oftar, að einmitt hjá okkur, þar sem strjálbýli er mikið, þá sé líklegt, að nota megi útvarpið til að mennta þjóðina. Mér finnst því, að ríkisstj. hafi alveg að óþörfu aflað þessu menningarmáli andúðar hjá miklum hluta þjóðarinnar fyrirfram. Ég tel það óheppilegt, vegna þess að ég er einn af þeim, sem trúa því, að vel rekið útvarp á Íslandi geti verið mikið menningarmeðal. En með því að fela yfirstjórn útvarpsins einhverjum þeim svæsnasta pólitíska ritstjóra, sem hér hefir nokkru sinni verið, og gera tækin, sem almenningur þarf að kaupa, að einokunarvöru, þá tel ég, að hæstv. stj. hafi gert nokkuð til að veikja tiltrú þjóðarinnar til þessarar stofnunar, og er slíkt illa farið. Það er ekki aðgerðum hæstv. núv. ríkisstj. að þakka, þó að útvarpið vinni menningu okkar mikið gagn, og það er ekki henni að þakka, þó að takist að sigla framhjá þeim skerjum, sem nú er stefnt á í þessu máli.