12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Hákon Kristófersson:

Ég vil leyfa mér að bera fram fyrirspurn út af brtt. á þskj. 99, en með því að hv. flm. er ekki staddur í deildinni, vona ég, að einhver verði til þess að svara fyrir hann.

Eftir mínum skilningi virðist brtt. gera ráð fyrir því, að útilokað sýnist, að bankaeftirlitsmaðurinn, Jakob Möller, yrði skipaður í nefndina. Komi nú það fyrir, að svo yrði ekki, þá verð ég þó að treysta því, að hæstv. stj., sem teljandi það sjálfsagðan hlut, muni láta bankaeftirlitsmanninn, sem sérfróðan og kunnugan mann, verða n. til aðstoðar og upplýsingar, eftir því sem þörf krefur.

Ennfremur er það rökrétt afleiðing af samþykkt þessarar till., að með öllu er útilokað, að Pétur Magnússon verði skipaður í nefndina. Þykir mér slíkt næsta óviturlega ráðstafað, því ég hefi það álit á þeim manni, að hann sé vel til slíkra hluta hæfur fyrir allra hluta sakir. Þætti mér hastarlega að farið, ef honum væri fyrirmunuð seta í n., og ekki ætti það að vera til fyrirstöðu, þótt hann hafi framkvæmt lausamat á bankanum um daginn.

Að öðru leyti hefi ég ekkert sérstakt út á till. að setja, en ég vildi aðeins fá upplýsingar um það, hvort þessu máli sé í rauninni þann veg háttað, sem till. virðist gera ráð fyrir. Ef svo er, mætti ætla; að stj. sé þegar búin að slá föstu um það, hverjir skuli eiga sæti í n., og ef einnig það er rétt til getið, væri ekki úr vegi, að stj. léti deildina vita um það þegar í stað, áður en frekari umr. fara fram í deildinni um þetta mál, og áður en gengið er til atkv.