12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Ég get að miklu leyti vísað til ræðu minnar í dag, en í tilefni af ræðu hv. þm. Ísaf. vil ég gera nokkrar aths. Hv. þm. var að rekja sögu Íslandsbanka. Sú saga varð í hans munni aðallega saga tapanna. Það vantaði ekki stóryrðin hjá hv. þm., og ég verð að segja, að mikið væri þjóðin illa stödd, ef það væri rétt, að reikningar, sem eru undirskrifaðir af æðstu mönnum hennar, væru falskir. Hv. þm. talaði um 16–17 millj. tap. En eins og ég hefi bent á, er þegar búið að afskrifa tæpar 11 millj., og ef þar við bætist hlutaféð, 4½ millj., verður þetta 15½ millj. Og það er fróðlegt að athuga, að þegar litið er á hag bankans 1914, í byrjun stríðsins, er varasjóður hans 376 þús. Þar við bætist hlutaféð, 3 millj. Þess vegna hlyti niðurstaðan nú að vera sú, að hlutaféð væri farið, og varasjóðurinn farinn.

En nú verður ennþá að gæta eins í sambandi við þetta mál, sem sé veltu bankans. Í stríðsbyrjun var veltan 88 millj., 1921 311 millj., 1927 287 millj. og 1928 319 millj. Á þessu sést, að veltan hefir aukizt frá 1927 til 1928. Þá er fróðlegt að athuga það, að 1928 voru innborgaðar í Hambrosbanka 13 millj. 800 þús.,en 1929 voru innborgaðar 23 millj. 300 þús. kr. Og innheimtan hefir aukizt um 2 millj. Allt þetta er ljós vottur þess, hversu mikill lífskraftur er í bankanum. Og þegar maður athugar þessa miklu veltu, er augljóst, hversu þungt það hlyti að grípa inn í allt viðskiptalíf þjóðarinnar, ef bankinn verður stöðvaður. Ég skal líka geta þess, að veltan var meiri 1929 en 1928. Þrátt fyrir alla þá miklu örðugleika, sem bankinn hefir átt við að stríða, er lífskrafturinn svo mikill, að veltan var 319 millj. árið 1928, og ennþá meiri 1929. Þá hefir Íslandsbanki á síðastl. ári lánað 6 milljónir til sjávarútvegarins.

Hv. þm. Ísaf. talaði um það, að stundum hefðu verið taldir til gróða bankans vextir af fé, sem í raun og veru hefði verið tapað. Það má vel vera, af því að menn hafa verið svo bjartsýnir um, að ýmislegt væri ekki tapað, þó að sýndist vera svo.

Enn get ég bent á eitt atriði í lífi bankans. Íslandsbanki var einu sinni skyldugur til að yfirfæra fyrir Landsbankann. Þegar sá atburður skeði, að munur varð á danskri og íslenzkri krónu, var skilningur manna svo lítill, að þeir trúðu ekki, að svo gæti farið, að verðmunir yrði á dönsku og íslenzku krónunni. Íslandsbanki varð að taka á sig mikil töp vegna gengismunarins. Þá var því mjög fast haldið fram, hvílík vanræksla hefði átt sér stað. Íslandsbanki hefði svikið þjóðina, af því að hann gat ekki haldið áfram yfirfærslum. Þetta sýnir skilningsleysið. Enginn banki gat haldið áfram yfirfærslum, þegar gengismunurinn var svona mikill.

Skuldasaga hv. þm. Ísaf. var framreidd af litlum skilningi. Það kom fram sama hugsunin hjá hv. þm. og svo oft hefir komið fram í Alþýðublaðinu. Hið pólitíska óargadýr hjá hv. þm. sýndi klærnar og heimtaði meira blóð og meiri bráð. En hv. þm. athugar ekki, að um leið og óargadýrið sýnir Íslandsbanka klærnar, er það að koma við hina fjárhagslegu líftaug þjóðarinnar. Það vita allir, að það liggja svo margþættar orsakir að þessum töpum. Það eru orsakir ófriðarins, svo ótal margar, meðal annara. Þegar verið er að tala um örlög Íslandsbanka, þegar menn eru að hampa þessum skuldatölum, þá er eins og þeir séu búnir að gleyma, hvílíkir skuldaörðugleikar hafa komið yfir allan heim, — yfir stærri þjóðir en okkur. Það er eins og þeir séu búnir að gleyma, að þessi skuldasaga hefir — því verr og miður — ekki snert Íslandsbanka einan. Það vita allir, að Landsbankinn hefir átt að berjast við alla sömu örðugleika. Og það vita allir, að Landsbankinn hefir orðið fyrir miklu tapi — það þarf ekki að vera að fela það —, en styrkur Landsb. liggur í þeirri ríkisábyrgð, sem hann hefir, þeirri samúð, sem jafnan hefir fylgt honum. Hefði Íslandsbanki notið sömu samúðar og ábyrgðar, þá vissi enginn nú, að hann væri í neinum örðugleikum. En þó að ríkisábyrgðin geri Landsbankann sterkan, þá má þó með því að ráðast á hina bankastofnunina, sem hefir fram undir 400 millj. króna veitu, vinna svo mikið óhappaverk — ekki einungis gagnvart þeirri bankastofnun, heldur gagnvart sjálfum Landsbankanum og ríkinu yfir höfuð —, að af því hljótist tjón, sem seint verður bætt.

Það var eins og hv. þm. kynni ekki nokkurn skapaðan hlut úr sögu Íslandsbanka, nema söguna um tap bankans. En væri þá ekki rétt að athuga það, þegar þetta mál er gert upp, hvaða þýðingu þessi banki yfirleitt hefir haft fyrir atvinnulíf þjóðarinnar? Má ekki segja með réttu, að þessi banki sé eiginlega faðir hinnar íslenzku útgerðar? Var það ekki fyrir aðstoð þess banka, sem fyrstu botnvörpungarnir voru settir á stofn? Var það ekki einmitt fyrir það, að þessi banki kom inn í landið, að verzlunarstéttin var leyst úr þeim böndum, sem hún var í? Hún varð áður að hafa ýmsa erlenda umboðsmenn, af því að hana vantaði fé. Þessir umboðsmenn seldu svo innlendu afurðirnar og munu hafa hagnazt allvel á því. Verzlunarstétt vor varð að beygja sig undir ýms ókjör, sem hinir erlendu umboðsmenn settu henni. En hvað skeði, þegar peningamagnið færðist inn í landið fyrir tilstilli Íslandsbanka? Þá er lagður grundvöllur að íslenzkri, nýrri og ötulli verzlunarstétt. Þá var verzlunarstéttin fyrst leyst úr hinum erlendu fjötrum. Vegna þess lánsfjár, sem verzlunarstéttin fékk hjá Íslandsbanka, gat hún sjálf leitað markaða fyrir vörur landsins og keypt á eigin spýtur erlendis þær vörur, er landið þurfti. Hún á ekkert undir erlendum umboðsmönnum, hún á allt undir sjálfri sér.

Er það nú gleymt, að þessi banki varð einmitt til þess að leysa verzlunarstéttina úr viðjum? Og hafa menn gert sér ljóst, hvaða afleiðingar það hefir í þessu efni, ef bankanum nú verður lokað? Verður það ekki ein af afleiðingunum, að hin ísl. verzlunarstétt verður kannske aftur að fara að knýja á náðir erlendra umboðsmanna? Eitt veit ég, — að þótt hv. þm. hér veitist allörðugt sumum hverjum að skilja, hve mikil alvara er á ferð, þá er alveg víst, að þeir menn, sem mest hafa með útgerð og verzlun að gera, skilja gerla, hvað hér er um að ræða. Annað er það, sem ég er fullkomlega sannfærður um, — að þeir menn, sem nú eru reiðubúnir til að taka á sig ábyrgð af stöðvun Íslandsbanka, þeir vita ekki, hvað þeir gera. Þegar banki með þeirri viðskiptaveltu, sem ég talaði um, er stöðvaður, þá ættu allir að sjá, hvílíkur voði er fyrir höndum. Og ég vil enn endurtaka það, hve ógnar lítinn kraft við höfum til þess að standa á móti þessari ógæfu. Þó að Landsbankinn hefði nú 5–6 millj. kr. til umráða, hvað dugir það til þess að vinna á móti þessari þjóðarógæfu? Ef ríkissjóður hefði haft nóg fé með höndum og Landsbankinn líka, þá væri aðstaðan önnur. En þetta er ekki svo.

Ég hefi nú í fáum orðum skýrt frá því, hvaða þýðingu þessi banki hefir haft fyrir sjávarútveginn og verzlunina. Þegar ég nefni verzlunina, þá eru þar auðvitað innifalin kaupfélögin, því Íslandsbanki hefir lánað þeim oft. Ég skal aðeins nefna nokkrar tölur viðvíkjandi nútíðinni í þessu efni. Það eru eitthvað 14 togarar, sem lifa á viðskiptum við Íslandsbanka, fyrir utan þá togara, sem skulda bankanum nú. Ennfremur eru 236 mótorbátar, sem styðjast við fé bankans. Þessi floti allur hefir viðskipti sín aðeins við höfuðbankann. Auk þess eru ýmsir einstakir menn, sem ég get nefnt, svo sem Haraldur Böðvarsson, sem með Íslandsbankafé styrkja stóra mótorbátaútgerð, eins og hann gerir í Sandgerði. Ég gæti nefnt ýmsa fleiri. En auk þessa eru svo útibúin. Hafa menn gert sér grein fyrir, hve stórfelld útgerð er rekin í Vestmannaeyjum með tilstyrk Íslandsbanka? Hafa menn gert sér grein fyrir, hvernig velmegun hefir dafnað í þeim eyjum einmitt fyrir það, að Íslandsbanki var fær um að veita þeim fé til framleiðslunnar. Hafa menn gert sér grein fyrir, að sú duglega og ötula stétt þar er í miklum voða, ef ekki verður framvegis hjálpað á líkan hátt og áður?

Ég spyr: Hafa menn gert sér grein fyrir öllu þessu? Ég skil ekki, hvernig er hægt að verja stöðvun bankans, þegar um þetta er að ræða annarsvegar, en hinsvegar það, að með á þriðju millj. kr. í hlutafé og ábyrgð fyrir einni millj. að auk væri hægt í fyrsta lagi að láta bankann verða sterkari en nokkru sinni áður, og í öðru lagi að fá samkomulag við Hambro's Bank og Privatbanken um rekstrarfé til bankans. Og ég efast ekki um, að ríkissjóðurinn danski, sem hefir veitt Íslandsbanka mjög ódýr lán með engum tryggingum, muni una vel þessari ráðstöfun. Sá er munurinn á ríkissjóðinum íslenzka og ríkissjóðinum danska, að ísl. ríkissjóðurinn hefir fullar tryggingar fyrir því, sem hann lánar, en danski ríkissjóðurinn hefir enga tryggingu fyrir sínu fé. Er það þá ekki eðlilegt, að ríkið rétti hjálparhönd?. Er það ekki sjálfsagt, fyrst ríkið með þessari litlu hjálp getur varið lánstraust sitt, sem er líftaug þjóðarinnar? Og er það ekki sjálfsagt að öðru leyti? Hvernig fer nú um tekjur ríkissjóðs. ef útvegurinn stöðvast? Hvað verður þar margra millj. tap?

En hvað sem öllu öðru líður, þá ætti öllum að vera ljóst, að það má ekki gera neitt til að spilla fyrir því, að hinir erlendu skuldunautar — ef þeir vilja — rétti bankanum hjálparhönd til þess að vernda hans hagsmuni. Þá ábyrgð skyldi ekki nokkur þm. taka á sig.

Nú er komið skeyti frá sendiherra vorum, sem allir vita hvað er varfærinn maður og glöggskyggn, að hann vilji ekki ábyrgjast, að það verði ekki til truflunar fyrir endurreisn bankans, ef þetta frv. verður samþ. Þegar nú er búið að marg-, margsýna fram á, að samþ. þessa frv. hefir enga þýðingu, hvernig í ósköpunum er þá hægt fyrir menn, sem hafa ósköp lítinn snefil af ábyrgðartilfinningu, að vera með því? Ég skil þetta ofurkapp sumra hv. þm. frá einni hlið. Ég skil það frá hendi hv. jafnaðarmanna, því að þeir hafa gert sér það ljóst, að þeir vilja með köldu blóði drepa bankann. Það er eins og ég sagði áðan: nú vona þeir, að gamall draumur sé að rætast hjá þeim. En þessir menn geta aldrei sloppið frá afleiðingum gerða sinna. Greinarnar í Alþýðublaðinu undanfarið hafa ekki verið skrifaðar með neinu öðru markmiði en að reyna að fá fylgi sem flestra til að vinna það óhappaverk, að leggja bankann á höggstokkinn. Verði það gert, er það eitthvert stærsta óhappaverkið, sem hefir verið unnið í nútíðarsögu þjóðarinnar. Við stöndum nú á merkum tímamótum. Við megum ekki gleyma því, að það á að halda 1000 ára hátíð Alþingis, og í tilefni af því tala svo að segja allar menntaðar þjóðir um Ísland, sögueyjuna frægu. Það er því næsta óheppilegt að sökkva okkar fjármálalífi á sama ári dýpra og dýpra niður á við. Alstaðar gæti verið líf og fjör í atvinnulífi voru — alstaðar á öllum sviðum. En svo ætla þeir vísu feður með allskonar pyndingum að taka lífsþróttinn úr atvinnulífi voru og skilja eftir fjárhagslegt lík, þar sem allt átti að iða af lífi og fjöri. Og svo á að bjóða heiminum að horfa á þetta fjárhagslega lík. Hambro's banki hefir skilið þetta. Hann sendi okkur skeyti og varaði við því, sem er verið að gera. Ef einhverjir halda, að bankinn hafi sent þetta skeyti vegna þeirra smáhagsmuna, sem hann hefir hér að gæta, þá get ég fullvissað þá hina sömu menn, að það er misskilningur. En það hefir a. m. k. einn af bankastjórum þessa banka dvalið hér um tíma og tekið því ástfóstri við þetta land og þjóð, að það má ætla honum hinar hlýjustu tilfinningar gagnvart okkur. Enda hefir Hambro's banki stutt þetta land drengilega. En þessir fjármálamenn skilja, hvað það þýðir í þessu landi, að banka með 3–400 millj. kr. veltu er lokað. Aðvörun þeirra þýðir ekki annað en það, að þeir vilja vegna vináttu sinnar til landsins gefa okkur bendingu um það, að við megum ekki steypa þessari óhamingju yfir þjóð vora. Þjóðin á ekki skilið slíka meðferð af forráðamönnum sínum.

Því er miður, að hæstv. stj. hefir ekki þótzt sjá sér fært að vera með viðreisn bankans. En þó er það svo, að frv. þetta virðist fela í sér endurreisnarmöguleika fyrir bankann; það á að fara fram nýtt mat á bankanum. En ég er viss um, að bankaeftirlitsmaðurinn, Jakob Möller, og bankastjóri landbúnaðarbankans vissu það vel, hvað þeir voru að gera, þegar þeir framkvæmdu mat á bankanum. Ég er viss um, að það var engin hégóma yfirlýsing, að bankinn mundi vera nálægt því að eiga fyrir skuldum. Þá, eftir alla þessa örðugleika í ótal ár, eftir allar ofsóknirnar frá ýmsum ráðandi mönnum í landinu, þá átti bankinn þó loks fyrir skuldum. Sú niðurstaða er betri en fjandmenn bankans hafa haldið fram ár frá ári. Þeir héldu fram, að Íslandsbanka vantaði 10–11 millj. til að eiga fyrir skuldum. Ýmsir vinir bankans hafa látið í ljós við mig, að þeir teldu það mjög eftir vonum, að bankinn ætti þó fyrir skuldum nú. Ekki ætti þetta heldur að vera svo slæmt frá sjónarmiði þeirra manna, sem hafa fjandskapazt gegn hinu erlenda hlutafé, því að ekki sjá þeir svo mikið eftir því. Það er því aðallega erlenda féð, sem er tapað. Annað mál, að þegar erlendir menn leggja fé í þörf fyrirtæki hér á landi, þá getur enginn glaðzt yfir því, að þeir hafi tjón af því.

Ég veit ekki, hvort forlög bankans eru þegar ákveðin. En ég veit afstöðu jafnaðarmanna: Praeterea censeo Carthaginem esse delendam, — framar öllu öðru legg ég til, að Kartagóborg verði eyðilögð. Er ekki kominn tími til að standa á móti þeim óhollu áhrifum, sem okkur stafar frá þessum hv. þingmönnum, og berlegast koma fram í umr. um þetta mál? Stjórnarfylgi þeirra fer að verða dýrt, ef þeir nú einnig heimta líf Íslandsbanka.

Að endingu: Ég hefi ekki talað hér eitt einasta orð, sem ekki er mælt af þeirri allra dýpstu alvöru. Ég veit vel, hvað hér er á ferð, — það er ekki aðeins verið að stofna okkar fjármálalífi í voða, heldur er þar með okkar sjálfstæðismálum stefnt í þann stærsta voða, sem hægt er að koma þeim.