19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Svo sem sjá má af nál. á þskj. 126, þá vill meiri hl., að frv. verði samþ. Íslandsbanki er nú lokaður og hefir tilkynnt stj. og þingi, að hann sjái sér ekki fært að opna aftur, nema ríkið taki ábyrgð á öllum skuldbindingum hans. Nú hefir Alþingi, eins og kunnugt er, neitað að verða við þeirri kröfu bankans, a. m. k. að svo stöddu máli. Till. um að endurreisa bankann á þennan hátt var felld í hv. Nd. með miklum atkvæðamun. Hér í þessari deild er um enga slíka till. að ræða, og þess vegna horfir málið að því leyti öðruvísi við. Hér er aðeins um að ræða löggjöf til þess að vernda bankann fyrir því, að einstakir lánardrottnar hans leggi löghald á eignir bankans; sömuleiðis löggjöf um það, að ríkið ábyrgist seðla bankans, þá er í umferð eru, og undirbúi skiptameðferð bankans á sem skynsamlegastan hátt. Meiri hl. telur rétt að undirbúa, með samþykkt frv. í dag, að hægt sé að afgreiða það til fullnustu frá þinginu í skjótri svipan, ef þörf krefur. Hitt er aftur á móti álitamál, hvort hraða skuli fullnaðarafgreiðslu málsins svo sem þingsköp frekast leyfa, eða draga endanlega afgreiðslu málsins úr deildinni, þar til bankamálið er búið. Úr því sem komið er, tel ég það ekki skipta svo miklu máli að hespa málið af, fyrr en þá einhver ný hætta kemur fram. Ég gæti svo í rauninni látið hér með máli mínu lokið, nema frekara tilefni gefist.

Saga Íslandsbanka hefir verið sannkölluð raunasaga síðasta aldarfjórðunginn. Ríkið veitti honum í upphafi þau mestu fríðindi, sem það gat fjárhagslega, seðlaútgáfuréttinn. Síðan hefir það tvisvar hlaupið undir bagga með bankanum. 1921 útvegaði það honum enska lánið, sem var mesta ókjaralán, og var það einkum notað til þess að greiða skuldir bankans erlendis, en varð þar á móti ekki til að auka rekstrarfé í landinu. 1926 hljóp ríkið enn undir bagga með bankanum og útvegaði honum dollaralánið, og landsfólkið sýndi bankanum það traust, að trúa honum fyrir sparifé sínu, þótt það uppskeri nú ekki annað en eiga á hættu að tapa meira eða minna. Ennfremur hefir það komið í ljós, að bankinn hefir ekki verið fær um að standa við skyldu sína um seðlainndráttinn, og hefir hvað eftir annað orðið að fá undanþágu frá lögunum. Á hinn bóginn hefir rekstrarfé bankans stórum minnkað og starfsemi hans yfirleitt gengið mjög saman. Yfirleitt virðist stj. bankans á þessum árum hafa verið mjög ábótavant, og verðskuldar sízt traust manna. Það virðist því lítið æskilegt, að ríkið fari nú að blanda sínum fjárreiðum saman við fjárreiður bankans meira en orðið er. Skellurinn nógur samt. Ef til vill tekst að útvega ný og betri skilyrði fyrir rekstri bankans; ég virði viðleitni þeirra manna, sem að því vinna. Um þau skilyrði er enn ekki hægt að ræða.

Skal ég svo láta staðar numið að þessu sinni og óska, að málið verði látið ganga til 3. umr.