07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. tók fram í gær, að þetta frv. hefir tekið miklum breyt. síðan það fór úr þessari hv. d. Það er sízt ofsagt, að það sé nærri því óþekkjanlegt, því að nú eru það orðin varaákvæði, sem áður voru aðalákvæði. Eins og frv. var, er það fór héðan, þá var ekki annað sjáanlegt en Íslandsbanki ætti að deyja, en nú virðist mikill meiri hl. með því að bjarga honum.

Þessu máli var vísað til bankamála, nefndar, og tók hún það fyrir strax að fundi loknum í gær. Hún fór lauslega í gegnum frv. og kvaddi síðan hæstv. fjmrh. á fund sinn. Það var eitt atriði, sem nm. voru í dálitlum vafa um, hvernig bæri að skilja: um rétt forgangshluthafa Íslandsbanka. Allir voru sammála um, einnig hv. minni hl., að forgangshluthafar Íslandsbanka ættu að hafa sama rétt og hluthafar hins nýja banka, og þessu lýsti hæstv. fjmrh. skýrt og skorinort sem sinni skoðun.

En þó að öll n. væri sammála um þetta, skildi skjótt leiðir, því að hv. 2. þm. Reykv. skarst úr leik og hefir nú komið með sérstakt nál. á þskj. 235, þar sem hann leggur til að gera allmiklar breyt. á frv. Það, sem ég segi nú fyrir n. hönd, verður því fyrir meiri hl. hennar. Ég mun því ekki taka brtt. hv. minni hl. til athugunar fyrr en hann hefir mælt fyrir þeim. Hinir nm. eru með því að samþ. frv. óbreytt. Að vísu lýsti hv. þm. V.-Húnv. því yfir í n., að hann mundi koma með brtt. En þar sem sú brtt. er ekki fram komin, býst ég við, að hann hafi horfið frá því, enda lýsti sami hv. þm. því jafnframt yfir, að þó að brtt. hans félli, mundi hann samt samþ. frv.

Þó að meiri hl. ætli að fylgja frv. óbreyttu, þá má ekki skilja það svo, að allir séu ánægðir með það. En við þóttumst vita, að ekki væri til neins að bera fram brtt., þar sem örlög þessa máls munu þegar ráðin, en hinsvegar lítur meiri hl. svo á, að una megi við þessa lausn málsins a. m. k. til bráðabirgða.

Ég held ég hafi þá ekki fleira að segja fyrir hönd n., svo að það, sem ég kann hér við að bæta, segi ég fyrir minn eiginn reikning.

Ég verð þá að taka það fram aftur, að ég er fjarri því að vera ánægður með allt, sem stendur í frv. þessu, og hefði kosið margt á annan veg fyrir komið, ef þess hefði verið nokkur kostur. Get ég þar fyrst og fremst nefnt nafn bankans, sem ég kann ekki vel við. Hefði ég þar kosið annað, t. d. það nafn, sem hv. þm. V.-Ísf. hafði tekið upp í sitt frv. En um þetta er ekki til neins að fárast úr því sem komið er.

Í 2. gr. frv. er ákveðið, að hlutafé Útvegsbankans skuli nema allt að 2½ millj. króna. En síðar, í 11. og 12. gr., er gert ráð fyrir, að hlutaféð megi vera eða geti verið miklu hærra, eða 8¾ millj. kr., eftir samruna bankanna. Þetta er mjög óviðkunnanlegt, er sagt er skilyrðislaust á fyrri staðnum, að hlutafé Útvegsbankans skuli vera allt að 2½ millj. kr., en svo ákveðið síðar, að inn í þessa stofnun skuli renna önnur með 6 millj. kr. hlutafé, því að þegar þetta er orðið, þá eru ákvæði 2. gr. röng. Þetta hlýtur að vera af gáleysi gert, og er ég hissa á, að felld skyldi vera í hv. Ed. brtt. við 2. gr. um að vísa til 11. og 12. gr. — Ég held þetta geti þó tæplega valdið misskilningi, því að allir munu sjá, að aðaluppistaða hins nýja banka er Íslandsbanki og fé hans. En þetta sýnir, hve illa er frá frv. gengið.

Ég vil ennfremur nefna 13. gr., þar sem talað er um að afskrifa núverandi hlutafé Íslandsbanka sem tapað fé. Ég verð að segja fyrir mig, að ég kann illa við þessa gr. eins og hún er orðuð. Þó er það ekki af því, að ég telji líklegt, að hlutafé Íslandsbanka sé nokkurs virði, en mér finnst óviðkunnanlegt og rangt, að Alþingi sjálft skuli slá því föstu, í staðinn fyrir að láta sérstakt mat fara fram um það. En eins og kunnugt er, hefir ekkert mat farið fram í þessum tilgangi. Ég er ekki í vafa um, að annað orðalag hefði verið heppilegra, enda er ekki útilokað, að hæstv. stj. og þessi nýi banki geti orðið fyrir óþægindum út af þessu. Þess vegna verð ég að líta svo á, að það hefði verið betra að láta fara fram sérstakt mat um hlutaféð.

Þá vil ég nefna niðurlag 15. gr.: „Um ráðstafanir á gullforða bankans og um endurkaup Landsbankans á viðskiptavíxlum Íslandsbanka fer eftir þeim reglum, er hingað til hafa gilt“. Ég vil skilja þetta svo, að sá réttur, sem Íslandsbanki hefir haft, gangi yfir til hins nýja banka þegar Íslandsbanki rennur saman við hann, og þótt nefnt sé nafn Íslandsbanka, þá hlýtur að vera átt við nýja bankann. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort þetta sé ekki rétt skilið, og vænti, að hann lýsi þessu yfir nú í hv. d.

Viðvíkjandi öllum IV. kafla frv. hefi ég það að segja, að ég hefði langhelzt kosið, að hann hefði verið látinn falla niður, enda fæ ég með engu móti séð, að þetta langa skott sé til nokkurra bóta. Að vísu bætir það talsvert úr, að hér er um varaákvæði að ræða, en þó er rófan á þessum gullkálfi hæstv. stj. allt of löng og alveg óþörf.

Jafnvel þó að ég hafi nú talið upp ýmsa galla á frv., þá vil ég þó yfirleitt láta í ljós ánægju mína yfir því, að komið er samkomulag á milli aðalflokka þingsins að reisa Íslandsbanka við. Það eru að vísu fáeinir menn á móti því, en jafnvel þeir fara sér hægt.

Ég býst við því, að taka verði fyrir löggjöfina um bankann þegar á næsta þingi. Því verður sem sé ekki neitað, að talsvert flýtissnið er á þessu frv., en þó er fyrir mestu, að málið sé afgr., svo að ekki getur talizt óhapp, þótt endurskoða verði lögin á næsta þingi.

Í Ed. var fellt úr frv. ákvæði um greiðslufrest á innlánsfé. Ég þykist vita, að þegar bankinn verður opnaður, verði talsverð brögð að því, að menn taki út fé sitt. Þá er það stjórnarinnar að sjá um, að bankinn komist ekki í þrot, og það er hægt með því að sjá um góða samvinnu af hálfu seðlabankans. Vona ég því, að eigi þurfi að hafa alvarlegar afleiðingar, að þessu ákvæði var sleppt, og satt að segja veit ég ekki, nema hættulegra hefði verið að láta það standa.

Því verður ekki neitað, að ríkissjóður tekur á sig miklar byrðar með þessu frv. Hann lofar að leggja fram 4½ millj. króna, og þótt allt gangi vel, má þó búast við, að fyrst um sinn verði hann að leggja fram alla vexti af því fé, eða a. m. k. allmikinn hluta þeirra, og auk þess sennilega einnig afborganir fyrst um sinn. En þetta framlag er veitt af nauðsyn, sem margir hafa séð og skilið frá byrjun.

Þetta mikla framlag þýðir það, að hér eftir ber ríkissjóður í raun og veru ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, því að eftir að ríkissjóður hefir lagt fram 4½ millj. kr. í bankann og ræður framkvæmdarstjórn hans og fulltrúaráði, þá getur ríkið ekki hlaupizt frá skuldbindingum hans og sagt: Við borgum ekki. —

Við höfum séð, hvernig farið hefir um Íslandsbanka, enda þótt ríkissjóður ætti þar enga krónu af hlutafénu.

Ég hygg, að ódýrara hefði orðið að leggja bankanum það lið þegar í byrjun, sem til þurfti, en út í þá sálma skal ég ekki fara að þessu sinni. Allar þær till., sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram, hafa gengið í þá átt, að bjarga bankanum við. Það var ekki hlutafélagið Íslandsbanki, sem við bárum fyrir brjósti, heldur hagur landsins. Við létum okkur ekki svo miklu skipta nafnið á bankanum, en það voru viðskipti landsmanna, sem við vildum bjarga út úr ógöngunum. Og af því að við álítum, að þessu takmarki sé náð með frv. því, er fyrir liggur, getum við léð því fylgi okkar, þótt við hefðum kosið ýmislegt á annan veg.

Við sögðum það ávallt, er við vorum að gera tilraunir til að bjarga bankanum, að við vildum taka í hverja framrétta hönd, málinu til styrktar. Hin framrétta hönd lét standa á sér, en hún kom þó, fyrst frá hv. þm. V.-Ísf. og hans félögum, og síðan frá hæstv. stj. með því frv., er hér liggur fyrir. Þess vegna fylgjum við sjálfstæðismenn frv., enda þótt við hefðum kosið sum atriði í því öðruvísi. Með því er bjargað innstæðufé 10 þús. manna. Með því er bjargað lánstrausti okkar erlendis, og við höfum sýnt, að við viljum standa við þær skuldbindingar, sem hægt er að heimta af okkur með réttu.

Ef svo fer, að frv. þetta verður að lögum, sem ég vona að verði í dag, þá kemur til kasta stj. um framkvæmd þess. Ég veit, að mikil ábyrgð er lögð á stj. með þessu frv. Ég skal ekki koma með neinar hrakspár. Ég vona, að úr því að hún fór að lokum inn á þessa braut, þótt seint væri, þá muni hún reyna með alvöru og einlægni að láta framkvæmd laganna fara sem bezt úr hendi.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvenær hann búist við, að hinn nýi banki verði opnaður, og hve langur tími þurfi að líða til þess að beitt verði ákvæðunum í upphafi 16. gr. Ég heimta ekki, að hann svari mér upp á dag, en ég óska að heyra, hvað hæstv. fjmrh. hefir hugsað sér um þetta. Ég vildi ennfremur fá vitneskju um það frá honum, hve langt sé komið þeim umleitunum, er um getur í 12. gr. Samkv. frv. skilst mér, að ríkissjóður leggi fram þegar 1½ millj. kr. í reiðufé, og vil ég nú spyrja hæstv. fjmrh., hvort fé þetta sé fyrir hendi, hvenær sem þarf til að taka. Annars geri ég ráð fyrir, að svo sé.

Út af því, að stöðugt koma raddir fram um það, að tap bankans sé einstökum mönnum að kenna, vil ég í þessu sambandi benda á það, að mestur hlutinn af töpum bankans á rót sína að rekja til stríðsáranna. En allir þeir, sem vilja áfella bankastj., ættu að sjá, að við gátum ekki frekar en aðrar þjóðir losnað við þær fjárhagslegu umrótanir, sem styrjöldin hafði í för með sér. Þetta er okkar fyrsta, og ég vona hið síðasta bankahrun, og engan skyldi furða, þótt hér gæti einhverntíma áhrifa af því, er hundruð milljóna manna á bezta aldri vinna í fjögur ár að morðum og framleiðslu morðvopna, í stað þess að vinna að framleiðslu verðmæta. Þau áhrif taka til alls heimsins, og enginn mannlegur kraftur gat afstýrt því, að þau bærust hingað.

Ég gat þess í upphafi, að ég ætlaði ekki að ræða nál. minni hl., fyrr en hann hefði gert grein fyrir brtt. sínum og nál.