07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh:

(Einar Árnason): Það er eins og hv. þm. hafi það á tilfinningunni, að nú sé verið að heyja lokasennuna í þessu máli, — og að þeir þess vegna telji sér mikla þörf á að rifja upp gamlan ágreining og jafna sakirnar. Ég er ekki sérstaklega að lasta þetta. En hitt er aðalatriðið, að þetta mál fái nú afgreiðslu í þeirri mynd, sem það liggur fyrir, og að allir góðir menn vilji styðja að því, að sú stofnun, sem hér er ráðgerð með þessu frv., megi verða þjóðinni til gagns.

Ég hefi ekki neina ástæðu til að blanda mér í þær almennu ræður, sem hér hafa farið fram. Þær snerta tiltölulega lítið þetta frv. Það er aðeins eitt eða tvö atriði, sem nokkuð greinir á milli mín og hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. Hv. 1. þm. Skagf. talaði aftur um það í sinni ræðu, að í raun og veru tæki ríkissjóður bankann á sína ábyrgð. Hann yrði að lokum að verða þar ábyrgur fyrir öllu, jafnvel þótt hann — eins og hv. þm. játaði — bæri ekki lagalega ábyrgð á honum nema að sínum hluta. Þetta byggði hv. þm. á því, að Íslandsbanki væri svo fléttaður inn í fjármálalíf þjóðarinnar, að ríkið yrði undir öllum kringumstæðum að hlaupa undir bagga með honum, því að annars væri fjárhagslegur voði á ferðum fyrir þjóðina. Og eins mundi fara með þennan nýja banka. Ef við gerum nú ráð fyrir því, að hér væri banki starfandi í landinu, sem ríkið ætti, engan hlut í, og hefði enga íhlutun um stjórn hans; sá banki hefði mjög víðtæk viðskipti í landinu, en að lokum ræki að því, að hann færi á höfuðið. Ja, þá er alveg sama skyldan, sem hvílir á ríkissjóði, þó að bankinn komi honum ekki neitt við. Hann er fléttaður inn í fjármálalíf þjóðarinnar, og þá verður — samkv. kenningu hv. þm. — ríkið að hlaupa undir bagga með þessum banka. Þess vegna get ég ekki séð, að það skipti neinu máli, eftir þessari skoðun hv. þm., hver á bankana, sem í landinu starfa.

Því hafa bæði hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. haldið fram, að það hafi ekki verið meiningin fyrir þeim, að ríkissjóður tæki ábyrgð á öllum skuldbindingum Íslandsbanka í upphafi. Sú aðaltill., sem hér lá fyrir á fyrsta fundi um þetta mál, — lokaða fundinum — hún var sú, að ríkið tæki á sig ábyrgð á Íslandsbanka alveg á sama hátt og það ber ábyrgð á Landsbankanum. Þessi till. kom fram frá bankar. Íslandsb. Nú kom fram á þessum sama fundi almenn till. um það, að skorað væri á hæstv. stj. að sjá um, að bankinn héldi áfram starfsemi sinni. Í þessu fólst vitanlega það, að stj.væri gefin heimild til þess að taka á ríkissjóð alla ábyrgð á Íslandsbanka. Það gat enginn, sem samþ. slíka till., hlaupið frá því, þó að stj. hefði gert þetta. Og það var líka vitanlegt, að á þeirri stundu var ómögulegt að bjarga bankanum, svo að hann gæti opnað daginn eftir, með öðru móti en þessu. Það var enginn tími til neins annars þá. Svo að það verður ekki undan því komizt, að þeir, sem lögðu þetta til, þeir lögðu það til beinlínis, að ríkissjóður tæki á sig fulla ábyrgð á bankanum.

Nú þegar því er haldið fram, að samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, taki ríkissjóður á sig fulla ábyrgð á bankanum, þá vil ég geta þess, að það er mjög mikill munur á þessu tvennu, fyrstu till., sem kom fram, og þessu frv. Munurinn liggur í þessu, að skuldheimtumenn bankans leggja fram 6–6½ millj. kr. í hlutafé og ríkissjóður leggur fram 3 millj. Þeir taka á sig 2/3 af áhættunni, þegar ríkissjóður tekur á sig 1/3, í staðinn fyrir, að ríkissjóður hefði orðið að taka á sig alla ábyrgðina. Á þessa er svo greinilegur mismunur, að það er ekki hægt að bera það saman. Í því frv., sem hv. 2. þm. G.-K. minntist á og hann flutti snemma á þingi, er alls ekki gert ráð fyrir, að þeir menn, sem inni eiga í bankanum, leggi neitt í hættu. Það er aðeins gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki á sig ábyrgðina á innlánsfénu og innstæðufé bankans í hlaupandi viðskiptum.

Í raun og veru er það ekki annað, sem ég sé ástæðu til að fara út i. Það eru orðnar langar umr. um þetta mál, og ég tel óþarft að fara almennt út í þær. Aðeins vildi ég drepa á þessa brtt., sem hefir komið fram frá hv. þm. V.-Húnv. Um hana vildi ég segja það, að hefði hún komið fyrr, t. d. í Ed., þá hefði verið mjög gott, að hún hefði komizt inn í frv. Hinsvegar vil ég ekki ráða til þess að stofna frv. í tvísýnu út af till.