27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

45. mál, háskólakennarar

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. frsm, minni hl. vítti mig fyrir litla framsögu. Ég gerði reyndar ráð fyrir, að allir hv. þm. hefðu lesið frv. En þar sem ekki er hægt að sjá, að hv. frsm. minni hl. hafi gert það, ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 1. gr. frv.:

„Þegar dócentar við Háskóla Íslands hafa starfað í embætti í 6 ár, verða þeir prófessorar með sömu réttindum og skyldum sem aðrir prófessorar háskólans. Þó skal ekki greiða þeim hærri launaviðbót en svo, að samanlögð laun og aukatekjur embættisins verði jafnt prófessorslaunum“.

Það er greinilegt, að hér er hvorki að ræða um launhækkun dócenta eða prófessora, heldur hitt, að dócentar geti undir vissum kringumstæðum orðið prófessorar. Vænti ég, að hv. frsm. minni hl. geti að fengnum þessum upplýsingum snúizt á sveif með meiri hl.