12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Jónsson:

Ég er svo heppinn, að ég flyt fáar till. að þessu sinni, en þær eru að því leyti einkennilegar, að þær ganga í gagnstæða átt við till. flestra annara dm. Þær fara sem sé fram á lækkun á útgjaldahlið fjárl.

III. till. á þskj. 497 er þess efnis, að liðurinn um styrk til að reisa gistihús á Húsafelli falli niður. Mér fannst sjálfsagt að flytja þetta, eftir að hv. d. hafði tekið afstöðu til slíkra mála við 2. umr. Hér er um einstaks manns eign að ræða, þar sem er nokkuð mikil umferð, en ekki meiri en víða annarsstaðar á landinu. Þarna fer um nokkuð af skemmtiferðafólki, sem borgar vel fyrir sig, svo að ef ástæða er til húsabóta, ætti ábúandinn að geta risið undir því, með tilliti til þeirra tekna, sem hann hefir af ferðafólki.

XXVI. till. á sama þskj. er leiðrétting á till., sem samþ. var við 2. umr. Þá var sett inn aths. við 17. gr. um sjúkrasjóði. En tveir af slíkum sjóðum urðu lausir við þau skilyrði, sem sett voru, og nú vil ég jafna þetta og láta það sama yfir þá alla ganga.

Hv. þm. Ak. gat þess, að fjvn. hefði lagt á móti till. sínum. Ég vil minna hv. þm. á, að meiri hl. n. var meðmæltur XXXV. till. á þskj. 497, um ábyrgðarheimild fyrir Samvinnufélag sjómanna á Akureyri. Ég er þeirri till. mjög hlynntur. Ég álít, að það væri ákaflega gott, ef sjávarútvegurinn yrði framvegis meira rekinn með samvinnufélagsskap en nú er. Til dæmis hygg ég, að fátt komi betur í veg fyrir verkföll en það, að taka að nokkru leyti upp gamla „hlutinn“, þannig, að hásetar væru ráðnir upp á hlut. Að þessu vil ég stuðla, ef það er ekki of áhættusamt fyrir ríkissjóð. En ég get ekki séð, að hér sé í of mikið ráðizt, ef félagið setur sér sæmilegar samþykktir og bæjarfélag Akureyrar stendur á bak við það. Ég veit, að bæjarfélag Akureyrar er mjög heilbrigt og traust.

Hv. þm. þarf ekki að hneykslast á því, þó að fjvn. leggi til, að ýmsar till. séu felldar, sem í raun og veru eru til bóta. Við 2. umr. var rúmlega 50 þús. kr. halli á frv. Að vísu komu till. frá fjvn. um að hækka tekjuáætlunina, en það er í sjálfu sér engin lækning. Í till. þeim, sem hér liggja fyrir, er farið fram á um ¼ millj. kr. hækkun á útgjöldum. Margar af þeim fjárbeiðnum eru vafalaust réttmætar, en þar sem svona stendur á, er ekki óeðlilegt, að n. leggi yfirleitt til, að hækkunartill. séu felldar. Nm. hafa óbundin atkv. um margar till., en meiri hl. leggur til, að flestar þær till., sem eru um mikla fjárhækkun, séu felldar, enda þótt hann viðurkenni, að margar þeirra séu þarfar, því að það verður að setja því takmörk, hvað mikið megi veita í fjárl., og ég hygg, að nú þegar sé fullsett á þessi fjárl.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ummælum hv. 3. landsk. Hann sagði, að raforkuveitumálið hefði mætt miklum kulda, en ég mótmæli því. Hann kom fram með frv. um raforkuveitur á þinginu í fyrra, og því var enginn kuldi sýndur. Því var vísað til stj. með þeim tilmælum, að hún léti rannsókn fara fram á því máli, og í annan stað var samþ. í fyrra fjárveiting til þeirrar rannsóknar. Stj. hefir á þessu tímabili skipað n. færustu manna til að undirbúa þetta mál, og till. frá henni eru væntanlegar á hverri stundu. Ég get því ekki séð annað en bæði þing og stj. hafi tekið þessu máli vel, eins og skylda var að gera. Hitt tel ég mjög ráðlauslegt, að ráðast í slíkar framkvæmdir, áður en þessi n. hefir látið fara fram fullnaðarrannsókn og skilað áliti sínu.

Ég skil ekkert í þessu óðagoti í þessum hv. þm. og öðrum, sem finnst það svo óskaplegt, að svona stórmál skuli vera athugað í 2 ár, en ekki þotið í svona kostnaðarsamar framkvæmdir athugunarlaust. Aðalatriðið er, að raforkuveitunum verði þannig fyrir komið, að þær Verði lyftistöng fyrir sveitirnar fjárhagslega. Þá er málinu vel borgið. Hitt væri voðalegt, að leggja þannig út í þessar framkvæmdir, að þær yrðu sem myllusteinn um hálsinn á þeim bændum, sem raforkuveiturnar fengju; eins og varð um Skeiðaáveituna, sem við töluðum um nú síðast.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að svo stöddu.