27.03.1930
Efri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

142. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

* Frv. þetta hefir nú gengið í gegnum hv. Nd., og var því svolítið breytt frá því frv., sem upphaflega var lagt fyrir þingið. Það varð að samkomulagi þar, að biðtími þeirra, sem fyrir slysum verða, skuli vera framvegis 10 dagar, en eftir núgildandi lögum er hann 3 vikur. Það verður að teljast óhæfilega langur biðtími, því verkamenn geta orðið fyrir allmiklu tjóni, ef þeir liggja fast að 3 vikum, en fá þó enga dagpeninga. Á þessu er ráðin talsverð bót, ef þetta frv. er samþ., og ætti þó að ganga lengra í því að stytta biðtímann, eftir því sem slysatryggingunni vex fiskur um hrygg.

Þetta mál hefir verið borið undir forstjóra slysatryggingarinnar, og telur hann fært að stytta biðtímann það, sem frv. gerir nú ráð fyrir. Leggur því allshn. til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég hefi nú talað um aðalbreyt. frá núgildandi lögum, sem felst í þessu frv. Auk þess er bætt inn í lögin ákvæði um það, að slysatryggingin geti óskað eftir rannsókn á, hvernig slys atvikast, ef henni finnst ástæða til. Aðrar breyt. felast ekki í þessu frv.