12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1931

Halldór Steinsson:

Ég skal vera stuttorður. Ég á 2 brtt. á þskj. 497. Fyrri till., tölusett VIII, 14. gr. B. II. e., nýr liður, er beiðni um 900 kr. styrk til Gunnars Bjarnasonar til þess að ljúka námi í vélaverðfræði í Mittweida á Þýzkalandi. Þessi liður var í fjárlagafrv. þegar það kom til d. og var þá 1.000 kr., en meiri hl. d. þóknaðist að fella þann styrk niður við 2. umr.

Þessi maður hefir stundað nám við polytekniska skólann í Khöfn, en varð að hætta námi þar. Þá kom hann hingað til Reykjavíkur og stundaði vélavinnu í „Hamri“. Síðan sigldi hann til Þýzkalands og stundar nú nám í vélaverkfræði í Mittweida, eins og tekið er fram í brtt. Ég þekki ekki þennan mann persónulega, en mér er sagt, að hann sé mjög efnilegur maður. Þar sem hann hefir lokið námi sínu þarna eftir 1½ ár hér frá, þá finnst mér ekki nema réttmætt að styrkja hann til þessa náms. Þegar þessi maður kemur hingað eftir að hafa lokið prófi í þessari grein, þá er hann eini maðurinn hér á landi, sem hefir próf í þessum fræðum. Hann á því áreiðanlega mikið erindi hingað til lands. Á þeirri framfaraöld, sem nú er hér á landi, sérstaklega í öllum verklegum framkvæmdum, finnst mér ekki nema sjálfsagt, að við eigum a. m. k. einn sæmilega fróðan mann í þeim efnum. Ég held því, að hv. meiri hl. þessarar d. hafi verið hálfblindur við 2 umr., þegar hann felldi þennan styrk niður, og vona ég nú, að hann fái betri byr við þessa umr.

Hin brtt. mín er á sama þskj., XV., við 15. gr. 15., 1.100 kr. styrkur handa Árna Þórarinssyni til ritstarfa. Öllum er það kunnugt, að till. um styrk til þessa manns var felld við síðustu umr., þá að upphæð 1.200 kr. Till. var felld með 7:7 atkv., og eru það sæmilega glögg rök þess, að rétt er að veita þennan styrk. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök, sem ég færði fram fyrir þessari till. við 2. umr.; ég veit, að hv. dm. muna, hvaða rök ég bar þá fram. Ég vil aðeins bæta því við, að þegar samþ. hefir verið styrkur til Halldórs Laxness og annara rithöfunda honum verri, þá á ég bágt með að trúa, að hv. d. neiti þessum manni um þennan litla styrk. Læt ég svo útrætt um þessa brtt.

Þessar tvær brtt., sem ég hefi nú minnzt á, eru þær einu, sem ég flyt. Ég held því, að ég eigi ekki það ámæli skilið sem lá í orðum hv. þm. A.-Húnv., og þó sérstaklega í orðum hæstv. fjmrh., um ógætilegar fjárkröfur. Ég hefi enga fjárbeiðni flutt fyrir mitt kjördæmi, en það hygg ég, að fáir þm. geti sagt hvað þeirra kjördæmi snertir. Það var því ekki vel við eigandi, þegar þessir tveir hv. þm. komu hér fram sem hrópanda rödd, hvað það væri óeðlilegt, að þm. yfirleitt — en þar held ég, að þeir hafi þó sérstaklega átt við þm. úr andstöðuflokknum — væru að koma með brtt. við fjárl. Hér þótti þetta koma úr hörðustu átt, þar sem hv. þm. A.-Húnv. er, þar sem hann hefir sjálfur flutt hér fjárbeiðnir, og þeim hefir verið sýnd makleg góðvild eins og vera bar. Það er því hart, að hann skuli nú koma með ámæli til þeirra þm., sem koma með brtt., sem eru engu síður réttmætar en þær, sem hann hefir flutt og fara fram á miklu minni fjárhæð, og þó sérstaklega, þar sem hann gat ekki stillt sig um að eiga sjálfur eina brtt. við þessa 3. umr. Ég efast ekki um, að líka verði tekið vel í hana. Yfir höfuð finnst mér, að svona mál megi ekki gera að flokksmáli. Ég hefi alltaf greitt atkv. með till. frá hvaða flokki eða þm. sem þær koma, ef mér hefir fundizt málið gott.

Hæstv. fjmrh. var að drótta því að þeim, sem flyttu brtt. við fjárl., að þeir sýndu ábyrgðarleysi í fjármálum. Ég kannast alls ekki við það og vil segja hæstv. ráðh. það, að hann er ekki svona nærgætinn, þegar verið er að ræða um fjárveitingar til kjördæmis hans. Hann rétti upp hendina til að greiða atkv. með 600 þús. kr. ábyrgð fyrir Siglufjörð. Það er ekkert á móti því, að því sé haldið fram, að það eigi að spara, en það verður þá að vera fyrir utan alla flokkapólitík. Það verður að ganga jafnt yfir till. frá flokksmönnum og mótflokksmönnum.

Ég skal svo ekki lengja meira umr. um þetta, en læt skeika að sköpuðu, hvernig fer með þessar till. mínar, hvort þær verða samþ. eða felldar.